22.04.1938
Neðri deild: 51. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

34. mál, atvinna við siglingar

Ísleifur Högnason:

Þeir hv. þm., sem tekið hafa til máls eftir að ég falaði síðast, hafa ekki minnzt á þau atriði, sem ég kom inn á, en það var, að öryggi sjómannanna væri miklu verr borgið, ef frv. næði fram að ganga, og eins hitt, að enginn sparnaður væri því samfara að samþ. frv. Eg hefi vanizt því, að við 2. umr. væri farið út í einstakar gr. frv. Mér þætti gaman að heyra hv. flm. taka frv. lið fyrir lið og sýna fram á, hversu mikla útgjaldalækkun hér er um að ræða og hvort þeir séu svo vel inni í siglingum, að þeir geti sannað, að þetta sé nauðsynlegt til þess að útgerðin beri sig, en það er ástæðan, sem borin hefir verið fram fyrir nauðsyn þessa frv.

Ég hefi ekki heldur heyrt rökstuðning hv. þm. Borgf. fyrir því, að ekki sé hægt að fá lærða stýrimenn til að vera á bátum. sem eru undir 15 smálestum, eða vélamenn. Ég veit, að fjöldi þeirra, sem eru útskrifaðir af mótorskólanum, hafa þörf fyrir að vera með vélar, og sama máli gegnir með stýrimenn, en með því að afnema þetta hafa þeir miklu síður tækifæri til að fullnuma sig í sinni iðn. Það er ekki heldur svo mikill kostnaðarmunur á því, hvort þessir menn eru á skipunum eða ekki; það geta verið 60–70 kr. yfir árið, ef það þá munar nokkru. Mér er kunnugt um það, að vélaviðhaldið er stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri bátanna. Í Vestmannaeyjum er það 5–7 þús. kr. á ári. Hverju er það að kenna? Það er vegna þess, að það vantar fullkomna þekkingu á meðferð vélanna. Það yrði því ólíkt meiri sparnaður að því, ef samþ. væri strangt eftirlit með vélum, sem væri framkvæmt á vikufresti á hverri vél, og þær kröfur, sem gera á til vélstjóra, væru gerðar gildandi. Það væri sparnaður fyrir útgerðina, en með því að draga þannig úr þekkingu þeirra manna, sem fara með vélar, er minnkað öryggi sjómannanna og aukin útgjöld útgerðarinnar, það er áreiðanlegt.