26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hv. þm. Barð. var dálítið heitur yfir því, að ég hefði sagt, að í þessu frv. væri verið að auka hina miklu lífshættu sjómanna með því að draga úr kröfum um sérfróða menn á skipunum. Ég vil spyrja hv. þm. Barð.: Álítur hann ekki, að sérkunnátta bæði í skipstjórn og vélgæzlu dragi úr þeirri slysahættu, sem sjómenn eiga nú almennt við að búa? Ég er alveg viss um, að hv. þm. svarar þessu játandi. Ef hann gerði það ekki, þá væri engin ástæða til að gera kröfur um, að menn lærðu skipstjórn eða vélgæzlu. Það, sem okkur þá greinir á um, er, hvort nægilega vel sé séð fyrir þessari sérkunnáttu um borð í skipunum með því frv., sem hér er flutt, og ég fullyrði og bendi þar til þeirrar reynslu, sem því miður er allt of algeng, að mjög sé hætt einu auganu á sjó. Það kemur því miður oft fyrir, að þeir, sem eru við stýrið, falla út, og það getur vitanlega hæglega komið fyrir, að vélamenn, sem vinna á þilfari, taki fyrir borð. Og ef svo er, þá er enginn maður eftir, sem kann til skipstjórnar, enginn t. d., sem hefir tekið stefnu frá landi; skipið lendir kannske í dimmviðri, og svo er enginn, sem kann til skipstjórnar, ef skipstjóri er farinn fyrir borð. Mundi þeim þá ekki hætt, sem eftir eru í skipinu? Sama verður, ef eitthvað kemur fyrir vélamanninn, ef enginn kann að stjórna vélinni nema þessi eini, mundi þá ekki hætta á, að orðið gæti slys? Ég þarf í raun og veru ekki að rökstyðja þetta frekar. Þetta skilja allir, sem einhverntíma hafa komið nálægt sjómennsku, og ég veit, að með sjálfum sér skilur hv. þm. Barð. þetta, af því að ég held, að hann hafi snasað svo mikið í sjómennsku, að hann viti, að sérþekking er einhvers virði, og hann víti, að það er mjög hætt við því, að skipið farist, ef skipstjóri eða vélamaður forfallast og enginn er á skipinu, sem getur komið í skarðið. Það er því á engan hátt ofmælt í nál., sem gefið hefir verið út, að vel gæti svo farið, að frv., sem hv. þm. Barð. er meðflm. að, geti aukið mikið á lífshættu sjómanna með því að draga úr þeim kröfum, sem nú gilda um sérfróða skipstjórnendur og vélamenn.

Það er vitanlega hægt að segja, að útgerðinni sé svo mikið íþyngt með þessu, að hún hafi ekki ráð á að kosta alla þessa sérfræðikunnáttu, og býst ég við, að hv. þm. Barð. meini það með þessu frv. En þá ber að athuga, hvort þessi kostnaður sé í raun og veru svo mikill, að verjandi sé að auka á lífshættu fyrir sjómenn með því að afnema ákvæðin um sérfræðikunnáttuna. Það hefir verið upplýst hér í d. hvað eftir annað, að kostnaðurinn við að hafa 2 vélamenn mun vera um 25 kr. á mánuði eða 75 kr. yfir vertíðina aukalega. 2. vélamaður vinnur sem hásetar, svo að kostnaðurinn við þessa tryggingu, sem það er fyrir skipið að hafa 2 vélamenn, er ekki meira en þetta, 75 kr. yfir vertíðina. Um vélamenn á landróðrabátum er það upplýst, að þeir hafa sem næst 1/4 hlutar á saltfisksvertíðinni, og það er ekki öllu meiri kostnaður en með vélamenn, og ég þekki ekki þá útgerð, sem það ætti ekki að borga sig fyrir að hafa þetta öryggi heldur en að afnema það öryggi, sem í því felst, bæði fyrir háseta og skip, að hafa stýrimenn og vélamenn á landróðrabátum 15–30 tonn að stærð.

Það er langur vegur frá því, að í nál. mínu felist nokkur aðdróttun til hv. þm. Barð. um það, að honum sé umhugað að auka á sjódrukknanir hér við land, en ég kemst ekki hjá að benda á, að frv. fer í þá átt að minnka öryggið og getur vel orðið til þess að auka á sjóslys, þó að vitanlega sé ekki tilgangur hv. þm. Barð., að svo verði.

Ég benti á það við 2. umr. þessa máls, að það, að breyta síðustu gr. l. um atvinnu við siglingar, ruglaði alveg samræminu í l. og gerði þau að nokkru leyti óframkvæmanleg. Mér hefir í rauninni verið óskiljanlegt, að frv. væri fram komið eins og það er, ef hv. þm. Barð. hefði samið það, en nú er mér kunnugt, að svo er ekki. Hv. þm. Barð. er aðeins 2. flm. frv., einn af 3. Enginn af flm. frv. hefir samið það, heldur er það samið af utanþingsmönnum. Ef hv. þm. Barð., sem er viðurkenndur fyrir að vera mjög glöggur lögfræðingur, hefði samið það, þá er ég viss um, að hann hefði jafnframt tekið til athugunar önnur atriði l. um atvinnu við siglingar, sem þarf að breyta samhliða því, sem þessar breyt. gengju fram.

Í l. um atvinnu við siglingar er tekið fram í 6. gr., að til þess að geta öðlazt réttindi til að vera skipstjóri á fiskiskipi 15-75 rúmlestir, þurfi m. a. að hafa verið stýrimaður á skipi yfir 12 rúmlestir í 12 mánuði. M. ö. o., það er alveg nauðsynlegt að láta vera stýrimenn á skipum 15–30 smálestir að stærð, m. a. til þess að geta öðlazt á skipin löglega skipstjóra, nema gert sé ráð fyrir því, að þeir, sem hafa verið stýrimenn á skipum yfir 30 rúmlestir, fari að sækjast eftir að vera skipstjórar á landróðrarbátum. Þeir, sem hafa einhverja þekkingu á, við hvaða kjör þessir menn búa, vita, að mjög ólíklegt er, að hægt sé að fá þá menn, sem hafa verið stýrimenn á stórum bátum, til að taka að sér skipstjórn á smábátum. Með þessu lagafrv. er því verið að loka fyrir, að menn geti öðlazt lögleg skipstjórnarréttindi á bátum, 15–30 rúmlestir. Sama máli gegnir um vélamenn. Til þess að geta öðlazt vélstjóraskírteini og verið lögum samkvæmt vélamenn á bátum, sem hafa 50–100 hestafla vél, verða menn m. a. að hafa verið undirvélstjórar í 12 mán. Þarna gegnir því alveg sama máli. Með frv. er verið að loka fyrir, að menn geti öðlazt 1. vélstjóraréttindi á þessum skipum. Og þegar búið er að loka fyrir, að menn geti öðlazt skipstjóraréttindi og vélstjóraréttindi samkv. l., þá liggur næst fyrir, að þeir, sem eru sama sinnis og hv. flm. þessa frv., þeir, sem ekki vilja halda áfram að gera auknar kröfur til þekkingar sjómanna, þeir komi til Alþingis og segi: Það vantar menn, sem hafa réttindi til að vera skipstjórar á bátum, sem eru 15–30 smálestir, og það vantar menn, sem hafa réttindi til að vera 1. vélamenn á bátum, sem hafa 50–100 hestafla vél; það verður því að veita undanþágu. — M. ö. o., þó að í frv. sé ekki beinlínis gert ráð fyrir að minnka kröfur til þekkingar sjómanna, þá stefnir frv. beinlínis að því. Ég vil skora á hv. þm. Barð. að færa einhver rök fyrir því gagnstæða.

Það hefir verið sagt, að það vantaði menn til að taka að sér þessar stöður á skipunum. Eina kvörtunin, sem stj. hefir borizt upp á síðkastið. hefir verið um, að það vantaði 2. vélstjóra á Akranesi. Það var ekki farið út í að veita undanþágur frá l., heldur var farin sú leið, sem réttari var og hagkvæmari, að setja upp 6 vikna námskeið fyrir vélamenn á Akranesi. Síðan hafa ekki borizt kvartanir um, að vantaði menn til að taka að sér þessar stöður. Slík námskeið hafa verið haldin víðsvegar um land, þegar kvartanir hafa komið um, að menn vantaði til að taka að sér sérkunnáttustöður á skipum. Þau taka ekki nema 6 vikur, og sú þátttaka, sem hefir verið í þeim undanfarin ár, sýnir betur en nokkuð annað, að sjómenn hafa vilja og getu til að afla sér þeirrar þekkingar, sem krafizt er í 1. um atvinnu við siglingar. Ég vil krefjast þess af hv. þm. Barð., sem að vísu hefir ekki samið þetta frv. og getur því haft sér það til afsökunar að nokkru leyti, en er þó einn af flm. frv. og hefir tekið sér fyrir hendur að mæla mjög fyrir því hér í d., að hann sýni fram á með órækum rökum, að þótt þessi breyt. öðlist gildi, verði hægt að fá nægilega marga menn til að vera skipstjórar á skipum 15–30 smálestir og nægilega marga menn í 1. vélstjórastöðu á þessi skip jafnhliða því, sem loku er fyrir það skotið með þessari löggjöf, að teknir séu 2. vélamenn og stýrimenn, svo að þeir geti öðlazt þessi réttindi.

Það hefir verið annað frv. á ferðinni frá Framsfl. hér í d. Það er frv., sem opnar fyrir mönnum möguleika til þess að geta komizt að iðnaðarnámi, og ég skal viðurkenna, að ef búið er að loka mörgum iðugreinum, þá er sjáanlega bætt úr þessu, því að það er meiningarlaust að loka iðngreinum fyrir mönnum, svo að ekki séu til nægir kunnáttumenn til þess að stunda hinar einstöku iðngreinar. En svo undarlega vill til, að þetta frv., sem líka er borið fram af framsóknarmönnum, er í beinni mótsögn við frv. þeirra um iðnaðarnám, sem opnar möguleika til þess að stunda iðnaðarnám, en þetta frv. reynir að loka fyrir mönnum möguleikunum til þess að geta fengið full réttindi og dregur úr því, að menn læri siglingafræði og eins mótorvélfræði. Sama gildir í rauninni um að fækka vélstjórum á eimskipum. Það er fækkað neðan frá, og í l. um atvinnu við siglingar, sem hér er verið að ræða um breyt. á, er það einmitt skilyrði fyrir því, að menn geti fengið full réttindi til þess að stjórna vél, að þeir hafi stundað vélgæzlu og verið aðstoðarvélgæzlumenn vissan tíma. Með því að fækka þeim mönnum, sem eru í slíkum stöðum, er lokað fyrir mönnum möguleikum til þess að öðlast full réttindi til þessara starfa, að ég svo ekki tali um varðskip ríkisins. Mér var sagt í gær, að það væri verið að sýkna 3 togara, sem varðskipin höfðu tekið og sagt, að þeir hefðu verið í landhelgi, og ástæðan fyrir þeirri sýknun hefðu verið ónógar mælingar; það hefði ekki verið nema einn maður, sem hefði verið fær um að hafa þessar mælingar með höndum, og það mun hafa verið af því, að annaðhvort mun skipstjóri ekki hafa kvatt til þá aðra siglingafróða menn, sem verið hafa á skipinu, eða þeir hafa verið öðrum störfum að sinna. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á að fækka enn möguleikunum til að hægt sé að hafa réttar mælingar á varðskipunum. Virðast slíkar till. koma úr hörðustu átt, þegar þær eru bornar fram af mönnum, sem vilja, að landhelgin sé í sæmilegu lagi, því að slíkar till. geta orðið til þess, að mælingar á varðskipunum verði ekki það traustar, að hægt verði að byggja á þeim sektardóma. Það kom einhverntíma fyrir úti í Faraflóa, að skorur voru settar í borðstokkinn á varðbátnum. Það lítur út fyrir, að hv. þm. Barð. og hv. meðflm. hans að þessu frv. vilji taka upp slíka skorumiðun í borðstokkana á varðskipunum, í staðinn fyrir að hafa nógu marga siglingafróða menn um borð í skipunum, til þess að kærur varðskipanna geti orðið á nægum rökum byggðar.

Hv. þm. Borgf. þarf ég engu að svara. Hans skólahald er orðið svo vel kunnugt um allt land, því að hann hefir í mörg ár haft barnaskólann í hjáleigum í túninu hjá sér, ofnlausum og salernislausum og fært skólann til milli hjáleiganna, eftir því sem þökin hafa fallið þar inn. Ég geri ráð fyrir, að ef hann mætti ráða, þá mundi hann veita sjómönnunum samskonar aðbúnað og gera samskonar kröfur til, að þeir gætu fullkomnað sig í sinni grein.

Ég vil svo að lokum segja, að þó að ég sé að ýmsu leyti á móti till. hv. 6. þm. Reykv., eftir að búið er að fella þá rökst. dagskrá, sem hér hefir verið flutt, þá ganga þær samt skemmra í skaðsemdaráttina, og tel ég því réttara, að þær nái samþykki en frv. eins og það liggur fyrir.