26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hv. þm. Barð. vildi halda því fram, að almennir sjómenn væru ekki á móti þessari lagabreyt. og vitnaði í því efni til einkaviðtala, sem einhverjir hefðu átt við hann. Ég get hinsvegar vilnað í það, að stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur átti tal við sjútvn. í dag og þar komu fram mjög eindregin mótmæli, og það einmitt frá hálfu ólærðra sjómanna. Ég get líka bent á, að það hafa drifið að hvaðanæva, frá öllum stéttarfélögum sjómanna, mótmæli gegn þessu frv. Ég hefi áður talið upp mörg félög í Reykjavík, sem mótmælt hafa þessu frv. mjög eindregið, og til viðbótar við þau mótmæli hafa okkur í sjútvn. einmitt í dag borizt mjög kröftug mótmæli frá sjómannafélaginu á Akranesi. Hv. þm. Borgf. þykist tala fyrir munn sjómanna á Akranesi, þegar hann er að tala fyrir þessum breyt., en eftir þeim skrifum, sem hér liggja fyrir, þá er það öðru nær, því bæði vélamannadeildin, stýrimannadeildin og sjómannadeildin á Akranesi hafa mótmælt þessu mjög kröftuglega. Hv. þm. Borgf. fer hér alls ekki með rétt mál, ef hann þykist vera að flytja mál sjómanna á Akranesi. Hann er þar í fullri andstöðu við sjómenn á Akranesi, þegar hann er að berjast fyrir þessari breyt. á l. ásamt hv. þm. Barð.

Mótmæli frá Akranesi eru sérstaklega byggð á því, að ef þetta frv. verði að l., þá sé hætt við, að mjög fáir menn eigi kost á því að vinna sig upp í skipstjórastöður, og þau benda einnig á það, að mjög fáir menn ættu þá líka kost á að vinna sig upp í fyrstu vélstjórastöður á þessum mótorbátum. Þetta eru sömu mótmælin og ég hefi hér verið með gegn frv. Ég hefi bent á, að samþykkt frv. myndi leiða af sér einskonar lokun fyrir sjómenn til þess að geta öðlazt skipstjóra- og fyrstu vélstjóraréttindi, og hefir því alls ekki verið mótmælt. Hv. þm. Barð., sem hefir verið að reyna að verja þennan óskapnað í frv., hefir í raun og veru alls ekki treyst sér til að fara inn á þetta atriði. Hann benti á, að það væru fleiri skip en þessi, sem hefðu 2. vélstjóra og stýrimann, en það er ekki nóg til að öðlast fyrstu vélstjóraréttindi eða skipstjóraréttindi á skipum frá 15–30 tonn. Til þess að öðlast þau verða menn að fara úr stöðum á stærri skipum. Mér er mjög vel kunnugt um það, að sjómenn fara mjög ógjarnan úr stöðum sínum á stærri skipum til að verða skipstjórar á smáskipum. Auk þess er í mörgum tilfellum um allt aðra atvinnu að ræða á smáskipum en á hinum stærri. Það er því alls eigi víst, að það fáist hæfir menn í þessar stöður, ef þeir eiga ekki kost á að fá æfingu við þann atvinnurekstur. Mér er kunnugt um það, að engar kvartanir hafa komið til stj. um, að skortur væri á mönnum til að vera vélstjórar á skipum og bátum, nema einhverntíma var kvartað yfir því, að vélstjóra vantaði á Akranesi, og þá var haldið þar námskeið fyrir vélstjóra, og eftir það hafa engar þessháttar kvartanir komið þaðan. Hv-. þm. Borgf. sendi hv. þm. Barð. svar. Aths. mín viðvíkjandi varðskipunum var á þá leið, að mjög athugavert væri að fækka siglingafróðum mönnum á þeim, vegna þess hve dómar þeirra hefðu staðizt illa, auk þess sem tveir siglingafróðir menn þurfa að vinna saman að hverri mælingu varðskipanna, og því slæmt, að það væru ekki hæfilega margir lærðir skipstjórar og lærðir vélstjórar um borð á varðskipunum.

Hv. þm. Barð. sagðist játa, að í frv. fælist ekki stórvægilegur sparnaður fyrir sjávarútveginn. En því er þá verið að flytja það, úr því að það er ekki stórvægilegur sparnaður, sem getur leitt af því fyrir útgerðina? Það mun hafa í för með sér stórvægilega erfiðleika fyrir sjómenn. Í mínum augum vega hinir stórvægilegu erfiðleikar fyrir sjómenn meira heldur en þó að um stórvægilegan sparnað fyrir útgerðina hefði verið að ræða. En þegar sparnaðurinn getur ekki einu sinni gilt sem afsökun, hvaða ástæða er þá til að bera fram þetta frv.? Hver er þá tilgangurinn með flutningi frv., og hvað er unnið við að samþ. það?