26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Þessi mótmæli frá Akurnesingum, sem mér skildist á hv. þm. Borgf., að hann varla hafa verið trúaður í, eru talsvert vel rökstudd, eins og flest önnur þau mótmæli, sem hafa komið fram gegn þessari lagasetningu. Með leyfi hæstv. forseta skal ég lesa upp nokkrar lýsingar úr þeim. Þar segir svo: „Kjörum stýrimanna og aðstoðarvélamanna á Akranesi er nú þannig fyrir komið, að stýrimenn hafa fjórðung hásetahlutar fyrir starfa sinn sem stýrimenn og aðrir vélamenn fá 25 kr. um mánuðinn fyrir það að vera 2. vélstjórar.“ Um hlutarupphæðina er vitanlega aldrei hægt að segja fyrirfram, en kostnaður vegna vélamannanna er í hæsta lagi 125 kr. yfir vetrarvertíðina.

Þeir bátar á Akranesi, sem þessi sparnaður komi til að verka á, eru eins og nú 17. Kostnaðurinn við stýrimennina mun líklega vera eitthvað svipaður. Það verða þá 250 kr. á 17 báta, sem sparast yfir vertíðina með þessu máli, en því fylgja stórum auknir örðugleikar fyrir sjómenn. Það er í fullu samræmi við þann svarta íhaldsanda, sem allt af ríkir hjá hv. þm. Borgf., að hann vildi spara 250 kr. yfir vertíðina á 17, báta, en auka mjög örðugleika sjómanna frá því, sem áður var. Enda segir í niðurlagi þess bréfs, eftir að búið er að rökstyðja þetta ýtarlega: „Af framansögðu lítum við svo á, að það sé hið mesta óráð, að Alþ. samþ. þær undanþágur frá gildandi l., sem hér um ræðir, og leyfum okkur því að mótmæla frv. sem hættulegu fyrir faglega uppbyggingu fiskimannastéttarinnar og skaðlega fyrir hagsmuni útgerðarinnar, þegar á framtíðina er litið.“

Ég hefi aldrei ætlað mér að hafa neina milligöngu í málum milli sjómanna á Akranesi og hv. þm. Borgf., þegar þessi hv. þm. fleiprar um, að ég hafi ekki bjargað við hag útgerðarinnar, þá hefi ég fulla ástæðu til þess að upplýsa þær rangfærslur, sem hann fór þar með. Ég skal ekkert segja um það, hvar ég væri bezt geymdur. Hv. þm. Borgf. sagði um daginn, að sá tími, sem ég var við stjórn síldarmálanna, hefði verið ólán fyrir sjómenn. Af því má marka, hvernig hann lítur á hag sjómannanna. Þau tvö ár, sem ég var í stjórn síldarverksmiðjanna, var hærra verð á síldarafurðum en nokkurn tíma áður. Það mun hv. þm. Borgf. hafa talið ólán fyrir sjómenn á Akranesi. Hann gætir dável hagsmuna sinna kjósenda, ef hann telur það hið mesta ólán fyrir þá að fá greitt hæsta verð fyrir bræðslusíld.

Um afstöðu þessa hv. þm. til menningarmála þarf ég ekki að ræða, því að mönnum er ofurvel kunnugt um það af myndinni af kofa þeim, er notaður var fyrir skólahús og birtist í Alþbl. á síðastl. vori.