26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

34. mál, atvinna við siglingar

*Haraldur Guðmundsson:

Hv. þm. Borgf. lauk máli sínu með því að segja: maður, líttu þér nær, — og talaði hann þar til mín. Hann vildi meina, að ég hefði staðið illa í stykkinu sem kennslumálaráðh. um það að veita styrk til barnaskólabygginga. Ég vildi nú segja það sama við þennan hv. þm., — maður líttu þér nær. Hann hefir átt sæti í fjvn., og eins og menn vita verið allra manna örðugastur viðureignar, sérstaklega þegar um smáupphæðir hefir verið að ræða. Ég ætla að þessi hv. þm. ætti að rannsaka sínar aðgerðir í þessu efni í fjvn. Það skyldi þó aldrei vera, að hann, þegar þar var komið, hefði gleymt skólanum uppi á Akranesi.

Hv. þm. sagði, að mér hefði verið vel kunnugt um þessa 6 báta, sem hann var að tala um, af því að hann hefði sagt mér frá þessu strax. Ég neita því ekki, að hv. þm. hafi sagt mér frá þessu, en ég svaraði honum því til, að mér væri fullkunnugt um, að það væri hægt utan Akraness að fá nægilega marga réttindamenn. Hv. þm. sagði, að l. hefðu verið brotin suður með sjó. Ég hefi ekkert um það vitað, að svo hafi verið, en ég hefi fengið fréttir af því fyrir skömmu, að 2 kærur hafi borizt út af þessu til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um skólamál og bitlinga að öðru leyti get ég verið fáorður.

Þar sem hv. þm. var að tala um mína fyrirhyggjusemi í sambandi við stofnun trygginganna, þá get ég verið honum þakklátur fyrir, að hann ætlar mig svo fyrirhyggjusaman. Ég skal játa, að ég kaus mjög gjarnan að gegna því starfi, sem hér er um að ræða. Þótt mér hefði boðizt betri kjör annarsstaðar, er ég ekkert viss um, að ég hefði tekið það fram yfir þetta. Þetta er sæmilega launað. Ég skal játa það, en það eru ýmsir aðrir, sem hafa svipuð laun. Forstjórinn. sem áður var, hafði sömu laun, og ég varð aldrei var við það, að hann teldi þau eftir þá. En það er nú svo algengt fyrirbrigði, að þessi hv. þm. metur launin ekki eftir starfinu, heldur eftir því, í hvaða flokki maðurinn er, sem tekur launin.

Þá var hv. þm. að tala um mínar ílanganir til að komast í bankaráð. Sé nú svo, að ég hafi sótt þetta af miklu kappi, efast ég ekki um, að hans góða hjarta hafi verið fullt af samúð með mér. En ég get nú trúað hv. þm. fyrir því, að ég hefi ekki eftir því sótt að lenda í þessari stöðu. En það athyglisverðasta í ræðu hv. þm. virðist mér það. að hann skuli vera farinn að vitna í hv. 3. þm. Reykv. sem örugga heimild, sem taki jafnvel fram biblíunni sjálfri. Þetta sýnir vel hugsunarháttinn í herbúðum hv. þm. Borgf.