10.05.1938
Efri deild: 72. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Hv. 11. landsk. hefir gert allýtarlega grein fyrir brtt., sem ég og hann flytjum á þskj. 548, og þarf ég þar litlu við að bæta. Ég skal þó geta þess, að eins og okkar till. er nú, þá er nokkurt samræmi við það, sem gilti fram til ársins 1936 að lögum. Það var réttilega bent á það af hv. 1. þm. Eyf., að það myndi hafa verið í l. að undanþiggja þá báta, sem koma daglega að landi, frá því að hafa stýrimann. Þetta átti við þá báta, sem róa úr verstöðvunum, eins og t. d. hér við Faxaflóa, á þorskveiðar, en það náði alls ekki til síldveiða eins og frv. nú, með, þeim brtt., sem meiri hl. sjútvn. hefir lagt til og samþ. var í dag. Það hefir því verið seilzt lengra heldur en gert var í l. frá 1925, þar sem þetta er nú fært yfir á svið síldveiðanna. Það er dálítið einkennilegt, að nú skuli vera gengið lengra heldur en mönnum fannst ástæða til að ganga fyrir 13 árum síðan í þessum efnum.

Það er ennfremur gengið lengra hér en með l. frá 1924 um mótorvélgæzlu. þar sem skylt er að hafa annan vélamann á öllum mótorbátum, sem hafa 50–130 hestafla vél, Þar er ekki ætlazt til, að skipstjórinn annist vélgæzlu á mótorbátum. Það er því um mikla afturför að ræða í þeim till., sem þingið er nú að gera, frá því, sem hv. þm. fannst ástæða til að ganga fyrir 13–14 árum síðan. Það hefir ekkert komið fram síðan, sem sanni, að nauðsynlegt sé að gera þessar breyt., nema síður sé. Síðan 1924–1923 hafa kröfur manna um aukið öryggi mikið þróazt og þroskazt í landinu, ekki eingöngu um það, hvernig skipin skuli mönnuð, heldur yfirleitt um allan útbúnað skipanna og tæki, sem álitið er, að geti verið mönnum til bjargar í nauðum úti á hafi. Það er ekki lengra síðan en í dag, að gengið var frá l. um eftirlit með skipum, þar sem mikið er hert á eftirliti með skipum. Það var líka fyrir nokkrum dögum, að við 3 nm. úr sjútvn. liðkuðum svo til og ýttum undir það, að talstöð kæmist í hvern einasta bát, með því að leggja nokkrar kvaðir á stofnanir ríkisins, landssímann og útvarpið, til þess að greiða fyrir því, að öryggið sé meira en áður á þessum fleytum. Mér finnst, að hér sé verið að taka með annari hendinni það, sem verið er er að rétta með hinni, þar sem verið er að leggja til, að skipin séu ekki mönnuð af kunnáttumönnum, ef eitthvað út af ber. Það er enginn til að stjórna skipinu, ef vélstjórinn fellur frá, sem kunnáttu hefir, því enginn er stýrimaðurinn og svo má lengi telja.

Ég er dálítið undrandi yfir þeim brjóstheilindum, sem koma fram hjá þeim mönnum, sem nú leggja slíkt til hér, sem eru þó þeir menn í hv. d., sem ættu fremur öðrum þdm. að hafa vit og þekkingu á þessum málum og vita, hvað bezt hentar í þessum efnum. Eins og lauslega hefir verið drepið á áður, þá hefir verið meira kapp en forsjá í þessu máli, því sú höfuðátylla, sem hefir verið færð til, að hér væri um fjárhagslegt atriði fyrir útgerðina að ræða, en svo smávægilegt, að ég vil ekki vera valdur að því með mínum till. að ofra nokkrum mannslífum fyrir fáar krónur, sem hér er um að ræða, sem þyrfti að greiða stýrimanni eða vélstjóra fyrir störf þau, sem þeir annast. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég hefi sagt um þetta atriði. Það hefir ekki verið hrakið af neinum, að það, sem greiða þarf þessum mönnum, er svo lítið, að útgerðin getur ekki staðið eða fallið með þeim útgjöldum, því henni er nauðalítill léttir að þeirri ráðstöfun, sem hér er verið að gera.

Ég hefi ekki í þessum brtt. viljað ganga lengra en það, að fá skýrt ákvæði um, að þetta eigi aðeins við þorskveiðar, þar sem vitað er um, að bátar komi daglega að landi, svo fremi að þeim sé kleift að koma að landi. En eins og þetta er orðað í frv., þá er mönnum gefið undir fótinn með að fara í kringum þetta. Bátarnir geta legið úti í marga daga. Þeim er að vísu ætlað að koma daglega að landi, en það breytist, þegar út á sjóinn er komið, og þeir koma ekki að fyrr en þeir hafa fengið fullfermi.

Þetta getur verið komið undir duttlungum útgerðarmannsins eða skipstjórans.

Ég vænti því þess, að þessar tvær brtt. geti ekki orðið sá þyrnir í augum hv. þdm., að þær fái ekki að fylgja frv., þegar það fær afgreiðslu úr hv. d., því þær mega í raun og veru skoðast sem leiðréttingar við frv.

Hv. 1. þm. Eyf. hefir borið fram brtt., sem er líka leiðrétting á frv., því eins og hér hefir áður verið drepið á, þá er í l. frá 1925 ekki gengið lengra en það, að undanþágan fyrir stýrimann er miðuð við 30 smálesta báta. En hann vildi líta svo á, að hér væri um óþarflega miklar kvaðir á útgerðinni að ræða, sem hún þyrfti að losna við. Eg hefi áður svarað þessu og rökstutt það, að þetta er á misskilningi byggt hjá hv. þm.

Ég gat þess, að ég myndi ræða málið á nokkuð víðtækari grundvelli en ég hefi áður gert, en ég skal þó reyna að stytta mál mitt svo sem kostur er á. En það virðist þó vera útséð um örlög Karthagóborgar, því það virðist eiga að koma þessu máli í gegn.

Það hefir verið minnzt á það, að við værum kröfuharðari í þessum efnum heldur en ýmsar nágrannaþjóðir okkar. Ég hefi áður getið þess, að á Norðurlöndum er verið að endurskoða löggjöf um siglingar, og yfirleitt verið að athuga kröfuna um mannahald á skipum. Eftir því, sem mér er kunnugt um, þá eru ekki enn komnar tillögur þessarar þriggja ríkja nefndar, Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs, en það mun ekki vera langt undan landi, að þessar till. komi fram. Og ég hefi haldið, að það væri réttara fyrir okkur Íslendinga að biða og sjá, hvaða tillögur nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum gera í þessum efnum. Við Íslendingar erum smæstir þessara þjóða, en vildum þó gjarnan geta átt samleið með frændþjóðum okkar, og við megum sannarlega taka þær að ýmsu leyti til fyrirmyndar. Í ýmsum atriðum getur nauðsyn verið fyrir því, að við göngum lengra en þeir gera. Okkar staðhættir eru þannig, að við stundum fiskveiðar fyrir opnu hafi, og stormar eru tíðari hér við land heldur en annarsstaðar á \orðurlöndum. Veðráttan er duttlungafyllri og verri heldur eri við strendur Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs, og við höfum ekki eins upplýstar strendur og þeir hafa. Ég þekki ekki þær fiskiveiðar, sem reyna eins á þrek manna og þol. Ef á að vitna í Norðmenn, þá ber að gæta þess, að fiskifloti þeirra er innan skerja, en að jafnaði ekki úti á hafi fyrr en kemur fram á vor, þegar tíð er bezt og blíðust. Þótt Norðmenn heimti ekki að hafa stýrimenn á þessari stærð af skipum, hafa þeir þó svokallaðan „Bestmand“, sem getur gegnt þeim störfum. Flm. þessa frv. hafa vitnað í, að Norðmenn heimtuðu ekki, að hann hefði próf, en þær kröfur munu vera mjög uppi nú að taka helzt eigi aðra en þá, sem hafa lokið prófi í siglingafræði. Nákvæmlega hið sama er að segja um Svíþjóð og Danmörku; þar er ekki sambærileg sjósókn við það, sem hún er við strendur Íslands, og því ekki undarlegt, þótt kröfurnar, sem ef til vill eru harðari hjá okkur heldur en þær eru ennþá annarsstaðar á Norðurlöndum. Ég skil ekki, að neinn maður ætti að harma það, þó við værum eitthvað fremri öðrum þjóðum og hefðum betur menntaða menn við störf á þessu sviði. Ég tel, að með því að hafa vélstjóra og stýrimenn á hverjum bát, sem er yfir 20 smálestir að stærð, eða hefir 20–150 hestafla vél, verði öryggi sjómanna mun meira heldur en hingað til.

En því má slá föstu, að með þessu frv. er verið að rýra öryggi manna á þessu sviði. Mér er kunnugt um, að þetta mál á upphaflega rætur sínar að rekja til nokkurra smáútgerðarmanna, sem hafa talið það kvöð á útgerð sinni að hafa þessa menn. Ég hefi ennfremur talað við fjölda útgerðarmanna, sem telja alveg sjálfsagt að hafa lærða stýrimenn og lærða vélstjóra á litlum mótorbátum. Úr kjördæmi hv. þm. Vestm. er ekki einn einasti útgerðarmaður, er ég hefi átt tal við, sem ekki segir, að þeir óski engra lagabreytinga á þessu sviði. Það hefir m. a. verið fært fram sem ástæða fyrir því, að nauðsynlegt væri að breyta þessari löggjöf, að skortur væri á lærðum mönnum á þessu sviði. En það er alls ekki rétt; það er nóg til af lærðum stýrimönnum og líka af lærðum vélamönnum. Það hefir komið í ljós á síðustu árum, að svo margir hafa lagt fyrir sig að læra vélgæzlu síðan 1913 á þeim námskeiðum, sem Fiskifélag Íslands hefir haldið, að þeir eru alls 1263, er hafa lokið vélfræðiprófi, eða 60 menn að meðaltali á ári, og auk þess voru árið 1915 til menn sem hafa öðlazt réttindi með l. frá 1924, og bættust við þann hóp manna, sem ekki þurftu að taka námskeið Fiskifélagsins, og nokkrir þeirra eru starfandi ennþá. Allt tal um, að skortur sé á stýrimönnum og vélamönnum, hefir ekki við nein rök að styðjast. Þeirri ástæðu er alls ekki til að þreifa fyrir því, að nauðsyn sé á slíkri lagabreytingu.

Þá kem ég að því, sem ekki skiptir litlu máli, sem sé, að með gildandi l. um atvinnu við siglingar er gert ráð fyrir, að menn þurfi að vinna svo og svo langan tíma sem aðstoðarvélamenn til þess að geta orðið fyrstu vélstjórar á mótorskipum, og menn þurfa einnig að vinna ákveðinn tíma sem stýrimenn, til þess að geta orðið skipstjórar á fiskiskipum. Með því að kippa burtu um 90 stýrimannsplássum er verið að rýra mjög þá möguleika, er menn hafa til að geta unnið sig upp og orðið skipstjórar. Ef slík löggjöf ætti að gilda um mörg ár, yrði að fara að veita undanþágur frá því, að menn þyrftu að hafa verið stýrimenn um ákveðinn tíma, eða gengið á stýrimannaskólann; þá mætti taka menn, sem kæmu úr fjósi upp í sveit, til þess að vera skipstjórar á litlum mótorbátum. Þetta er einn af þeim ásteytingarsteinum, sem nú fylgja þessari lagasetningu, og sem ég hefi nú þegar bent á. En úr því að svo er komið, og ætlazt mun vera til, að þessi lagabreyting gangi í gegn á þessu Alþ., vildi ég fá að tala við ríkisstj., og þá sérstaklega hæstv. atvmrh. (SkG), ef einhver vildi gera svo vel og vita, hvort hann er viðstaddur. (MJ: Ætli það sé ekki hitasótt í honum síðan í dag?). Ég vildi sérstaklega ræða við hann um eitt atriði, sem ég hefi lauslega minnzt á við hann áður, en óska eftir að fá svar við í heyranda hljóði, sem sé, hvort hann vildi ekki fallast á, að löggjöfin um atvinnu við siglingar yrði tekin til rækilegrar endurskoðunar nú milli þinga. Þegar ég minntist á þetta við hann, taldi hann líklegt, að hann myndi vilja fallast á þessa till. mína, og með því að gefa slíka yfirlýsingu, ef hann hefði verið hér við þessar umr., tel ég sennilegt, að sú till. mín gæti náð fram að ganga, því að ég tel mjög varhugavert, ef Alþ., ætlar á hverju ári að gera smábreytingar á þessum l., þvert ofan í óskir þeirrar stéttar, sem undir l. búa, og vitandi það, að kröfur um breyt. á þessum 1. eru komnar fram, sem alls ekki eru komnar frá atvinnurekendum sjálfum. (IngP: Hverjar eru þær?). Ég skal skýra frá því, hvernig þessu er háttað. Frá Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda liggur fyrir krafa um afnám annars stýrimanns á togurunum, og frá Eimskipafélagi Íslands og skipaútgerð ríkisins krafa um afnám aðstoðarvélamanna á hinum stærri skipum. Aðrar kröfur hafa ekki legið fyrir þessu þingi, og ég hefi ekki séð neinar kröfur um afnám annara stýrimanna né vélamanna frá útgerðarmönnum hinna stærri skipa. Þeir vita, að öryggi skipanna veitur að mjög miklu leyti á því, að yfirmönnum á þeim verði ekki fækkað, og slíkt skiptir útgerðarmennina miklu fjárhagslega.

Það er mjög varhugavert að breyta löggjöfinni . frá ári til árs, m. a. vegna þess, að slíkt eykur erfiðleika þeirra manna, sem eru að búa sig undir langt og þungt nám. Vélstjórar verða að leggja á sig 7 ára nám. 4 ára smiðjunám og þriggja ára skólanám. og verða auk þess að æfa sig sem kyndarar í hinum stærri skipum. Um vélamennina er það að segja, að það er styttra nám, sem þeir þurfa að taka, en þeir, sem ætla sér að verða fullgildir vélamenn, þurfa að fá æfingu sem aðstoðarvélstjórar. Þessir möguleikar eru afskaplega skertir með þeim till., sem hér liggja fyrir, ef þær næðu samþykki þingsins.

Ég hefi talið æskilegt, að almenn athugun færi fram á þessum l. Það þarf að breyta fleiru en að klippa neðan af l. Við þá athugun eiga að vera fulltrúar stéttanna sjálfra, stærri og smærri útgerðarmanna. Þeir fulltrúar ættu að geta komið sér saman um, hvernig þetta á að vera í framtíðinni. Jafnvel þó maður áliti, að engin nauðsyn væri fyrir hendi að breyta neinu, gæti athugun ekki skaðað. Ég vildi að umr. yrði ekki lokið fyrr en ég fæ svör hæstv. atvmrh. Verði þau eins og ég vona, vildi ég bera fram þáltill. Allir ættu að geta verið mér sammála um, að gera ýtarlega athugun á löggjöfinni í heild. Ég læt því skeika að sköpuðu, hvort hæstv. forseti vill stuðla að því, að mér gefist kostur að heyra svör ráðh.