11.05.1938
Efri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

34. mál, atvinna við siglingar

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Viðvíkjandi þessari fyrirspurn, þá vil ég taka það fram, að þetta hefir verið rætt nokkuð innan ríkisstj., einmitt vegna þeirra breyt., sem gerðar hafa verið á siglingalögunum og jafnframt á l. um atvinnu við siglingar, að það muni vera nauðsynlegt að taka þessa löggjöf til endurskoðunar fyrir næsta þing. Þess er tæpast að vænta, þegar brtt. koma hér fram á Alþ. við svo stóran lagabálk, og ekki vinnst tími til að rannsaka og yfirvega þær sem skyldi, að ekki sé hætt við því, að þær brtt., sem gerðar eru og kunna að verða samþ., valdi því, að ekki sé fullkomið samræmi í löggjöfinni. Ég hefi líka orðið var við það, einmitt í umr. um þetta mál, breyt. á l. um atvinnu við siglingar, og jafnframt undir umr. um siglingalögin, að það hefir komið í ljós, að þessi löggjöf, eins og önnur, þarf endurskoðunar við, eftir að reynslan hefir skorið úr um agnúa á henni, að löggjöfin þarf að endurskoðast fyrir næsta þing. Ég býst við, að hæstv. atvmrh. sé sömu skoðunar um þetta.

Hitt er svo annað mál, að ég get að sjálfsögðu ekki lofað neinu um það, hvernig atvmrh. kann að skipa þessa nefnd, sem endurskoði l., en sjálfsagt er, að fagmenn úr hópi þeirra manna, sem hlut eiga að máli, eigi sæti í n. eða þeim sé gefinn kostur á því.

Ég hefi alltaf litið þannig á með þessa löggjöf og siglingalögin, að það, sem mest velti á með 1. um atvinnu við siglingar, sé það, að við höfum nægilegt öryggi á sjónum, án þess þó að íþyngja svo þeirri atvinnugrein, sjávarútveginum, sem þetta snertir, að það eyðileggi hann eða lami hann. Meðalhófið verður því að ráða, þegar löggjöf um þessi efni er sett.

Sama máli gegnir um iðnaðinn. Við þurfum að fá sem bezt menntaða iðnaðarstétt, en það verður þó að rata þar meðalhófið. Hún má ekki nota aðstöðu þá, sem henni er gefin að landslögum, til þess að loka stéttinni, svo að þeir unglingar, sem eru til þess upplagðir og langar til þess að komast inn í tiltekna stétt, komist það ef til vill aldrei, og það jafnvel þó svo fámennt sé í einhverri stétt, að ekki sé hægt að ná í fagmenn til að vinna þau verk, sem vinna þarf.

Ég ætla svo ekki að fara nánar inn á þetta, en slíkri misnotkun og misbeitingu, sem borið hefir á, verður vitanlega að afstýra, án þess þó að allt sé opnað upp á gátt, enda myndum við þá sennilega missa þess marks að eiga góða iðnaðarstétt.

Til þess að rata þetta meðalhóf í báðum þessum málum, býst ég við, að ríkisstj. muni skipa nefndir, sem undirbúi löggjöf um þessi efni fyrir næsta þing.