11.05.1938
Efri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

34. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Hæstv. forseti hefir nú takmarkað umr. um þetta má), og skal ég ekki við því amast, því margt, sem deilt er um, má heita deila um keisarans skegg. — Það hafa nú fallið allmörg og þung orð í garð okkar hv. 2. þm. S.-M., aðallega frá hv. 11. landsk. og hv. 3. landsk., en ég skal ekkert um það sakast. Ég vildi aðeins taka það fram að því er snertir stýrimenn og undirvélstjóra á vélum og þau áhrif, sem þeir telja, að frv. hafi á það, að torvelda mönnum að vinna sig upp í æðri stöður á þessum skipum, að þá gerir samþykkt eða felling þessa frv. hvorki til né frá með það, því það er alltaf opin leið fyrir hvaða dugandi háseta sem er að fá sig skráðan sem undirvélstjóra eða stýrimann með samþykki útgerðarmannsins, ef hann óskar þess. Það er enginn útgerðarmaður svo illgjarn, ef hann hefir háseta, sem hann vill hafa, og hann óskar að vera skráður sem undirvélstjóri eða stýrimaður, að hann ekki fallist á það. Hitt er svo annars eðlis, að þegar það er lagaskylda að hafa þessa menn á bátunum, þá hafa þeir líka eðlilega rétt til að krefjast hærra kaups. Það var einmitt það, sem gerði það að verkum, að útgerðarmenn hér á landi kunnu illa lagabreyt. frá 1936, sem olli því, að á íslenzkum vélbátum eru að jafnaði 4 yfirmenn, en ekki nema einn háseti. Það var upplýst undir umr. hér áðan, að hvorki í Noregi né Danmörku væru eins hörð ákvæði í þessum efnum eins og hér.

Ég vil líka benda hv. þm. á, að þeir telja upp dæmi um það, ef skipstjóri yrði lasinn, ef vélstjóri veikist, en þetta „ef“ má alltaf búa til í öllum málum. Ég gæti, ef ég hefði tíma til. bent mönnum á slys, sem komið hafa fyrir undir þessari nýju löggjöf, þar sem eru 4 yfirmenn og einn háseti. Þar hefir ekki vantað hina próflegu þekkingu, en þó hafa slys getað komið fyrir, og að öllum líkindum einmitt fyrir skort á reynslu. Menn verða að gera sér það ljóst, að próf út af fyrir sig eru ekki nægileg trygging fyrir öllu öryggi. Reyndur háseti. sem búinn er að vera mikið á sjó, er oft eins nýtur og menn, sem nýsloppnir eru frá prófborðinu. En ég skal ekki fjölyrða meira um það.

Ég vil fyrir hönd okkar, sem stöndum að þessu máli hér í hv. d., vísa algerlega til föðurhúsanna öllum árásum um það; að við viljum hefja nokkra árás á íslenzka sjómannastétt. Það hefir verið við það kannazt, að við höfum einmitt gert talsverðar tilraunir til þess að mæta kröfum þeirra manna, sem ekki vildu fá fram málið í þeirri mynd, sem það upphaflega var horið fram í. Þetta hafa allir andmælendur okkar kannazt við.

Að síðustu vil ég minnast örlítið á þær brtt., sem fyrir liggja. Það er brtt. frá hv. 1. þm. Eyf. og brtt. frá hv. 11. landsk. og hv. 3. landsk. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það væri of langt gengið að fara upp í 40 rúmlestir og taldi réttara að miða við 30. Hann taldi líka, að þetta ætti vísa andstöðu í Nd. Þetta getur vel verið rétt. En ég vil benda á það, að í mörgum verstöðum fer það í vöxt, að bátarnir séu stærri, svo meðal þeirra báta, sem koma daglega að landi, eru 30–40 rúmlesta bátar. Það kann að vera, að það mæti andstöðu í Nd., ef baldið er í 40 rúmlesta ákvæðið. Ég vil því ekki leggja á móti þessari brtt.

Um brtt. hinna 2 hv. þm., sem ég nefndi, er það að segja, að þær ganga að vísu nokkuð á þær till., sem meiri hl. hefir gert. Við höfum ekki borið okkur saman um þær, svo ég veit ekki, hvernig afstaða hv. 2. þm. S.-M. er að því er þær snertir. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég hefi enga löngun til þess að ganga lengra í málinu en nauðsynlegt er. Ég vil segja fyrir mig, að ég hefi frekar tilhneigð til þess að ganga skemmra en nauðsynlegt er, ekki fyrir undirróður. heldur fyrir sanngirnissakir, því ég vil mæla með allri sanngirni í málinu. Ég skal segja fyrir mig, að ég sé ekki ástæðu til að leggja á móti þessum miðlunartill., sem fram hafa komið frá þessum 2 hv. þm. Ég vænti þess, að það ríki þá meiri samkomulag um þetta mál, að því yfirlýstu, en ella myndi. — Ég er svo víst búinn með þessar 5 mín., sem ég hafði til umráða.