05.04.1938
Efri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það mun nú vera að klappa í steininn að svara hv. þm. Vestm. En ræða hans sannfærði mig ekki um nauðsyn þessa máls. Hann vildi láta það líta svo út, að hér væri það vanþekking mín, sem réði mestu um það, hvernig ég snerist við þessu máli, og að ég hefði ekki sett mig inn í málið og hefði ekki lifað með smáútgerðarmönnum, en hefði aðallega lifað með stórútgerðinni, eins og hann orðaði það, og að ég þess vegna muni ekki þekkja örðugleika smáútgerðarmanna. Það má vel vera, að é„ hafi ekki lifað meðal örðugleika smáútvegsins eins og hann. En ég hefi þó nokkuð kynnzt þeim örðugleikum, sem þessir menn eiga við að stríða hér í kring, sem ég hygg, að séu ekki ólíkir þeim örðugleikum, sem smáútvegsmenn í Vestmannaeyjum eiga við að stríða.

En ég hefi ekki sérstaklega orðið þeirra örðugleika var, sem hv. þm. Vestm. sérstaklega gerði að umtalsefni sínu, að mönnum sé neitað sérstaklega um lán, ef þeirra útgerð er talin nokkurnveginn lífræn. af minni kynningu af þessum málum hefi ég ekki orðið var við annað en að bankarnir hafi reynt að svara smáútvegsmönnum eins og öðrum, til þess að koma þeim á flot, eins og það er kallað. Reynslan sýnir það hér sem annarsstaðar, að smærri skipin ganga til veiða þann tíma, sem útgerðarmenn telja líklegastan til árangurs að láta þau ganga. Ég get ekki hugsað mér, að þau gætu það, ef bankarnir neituðu þeim um nauðsynleg lán til útgerðarinnar, til þess að hún gæti gengið. Ég þekki ekki þessi dæmi, sem hv. þm. Vestm. tilfærði, sem kunna að vera úr Vestmannaeyjum, að menn hafi orðið að bíða með skip sín í landi eða við land, þegar aðrir komust til aflafanga, af því að þeir hafi ekki fengið lán til sinnar útgerðar. Mér er ekki kunnugt um þessi dæmi. En ég þekki þau dæmi hér úr Reykjavík, að jafnvel þeir aumustu meðal smáútvegsmanna hafa getað komizt á flot eins og hinir, sem betur voru stæðir. Hefir það sýnt skilning bankanna til þess að gera allar þær úrlausnir, sem þeir telja færar, til þess að þessi útgerð geti gengið. Meðan ég fæ ekki skjallegar sannanir fyrir öðru, verð ég að byggja á þessari skoðun minni sem réttri.

Út af því, sem ég sagði í sambandi við það, að óþarft væri að hafa þetta lögbundið, vitnaði hv. þm. í togaravökulögin. Þar er bara dálítið ólíku saman að jafna. Með þeim var verið að vernda menn fyrir heilsutjóni og ýmsu því, sem of mikil vinna og vökur höfðu í för með sér. Vökulögin eru ekkert annað en hreint og beint heilsufræðis- og mannúðarmál til þess að vernda menn fyrir skaðlegum vinnuaðferðum. Svo að það er alveg ósambærilegt við það, sem hér um ræðir, hvort eigi að þvinga menn til þess að ganga í félög til þess að geta kríað út meiri peninga, sem mér skildist vera aðalatriðið í rökstuðningi hv. þm., en að hér væri um nauðsynjamál að ræða, gat ég ekki fundið eftir rökum hans að dæma. Hann gat ekki neitað því, sem ég sagði áðan, að ef menn vildu slá sér saman í félagsskap, af því að þeir teldu það líklegra til fjáröflunar til rekstrar útgerð, því er það heimilt án lagasetningar.

Um skilninginn á orðalagi 1. gr. vil ég ekki deila. Ég býst við, að almennt sé svo litið á, að fyrst leyft er að þvinga menn til að ganga í slíkan félagsskap, þá eigi ekki að nota þau orð, að mönnum sé skylt að stofna þessi félög. Það mun vera almennt litið svo á, að löggjafinn ætlist til þess, að menn gangi í slíkan félagsskap.

Þá talaði hv. þm. og flm. málsins mjög mikið um nauðsynina á því, að beina sjávarútvegsmönnum inn á svið félagslyndis og samvinnu. hað er út af fyrir sig mjög virðingarvert af hans hálfu að glæða slíkan félagsanda, en ég hefði kunnað betur við, að sá félagsandi væri fyrir hendi, án þess að það þyrfti að búa til lög um það. Ég þykist vita, að hv. þm. hafi í eðli sínu frekar verið samkeppnismaður en samvinnumaður, svo að þetta eru ný stefnuhvörf hjá honum á þessu sviði, sem ég tek með mestu vinsemd og velvilja frá hans hálfu.

Svo færði hv. þm. það sem rök fyrir nauðsyn slíkrar lagasetningar sem þessarar, að útvegsmenn fengju ekki gjaldeyri fyrir nauðsynlega hluti til útgerðarinnar, og vitnaði hann til þess, að þeir fengju ekki einu sinni gjaldeyri fyrir mótorshluta eða veiðarfæri. Það má vera, að bann hafi dæmi fyrir sér um þetta. Ég þekki það ekki. En þó að svo væri, Þá býst ég ekki við, að þessi félagsskapur yrði til þess að skapa gjaldeyri út af fyrir sig, ef hörgull er á honum, til að greiða fyrir ýmsar nauðsynjar, sem útgerðarmenn þurfa að kaupa frá útlöndum. Þetta læknar ekki þá meinsemd, sem hann vill sýna fram á, að þurfi að lækna. Ef þjóðarbúskapurinn er svo aumur, sem hv. þm. vill vera láta, að ekki sé hægt að greiða nauðsynlega hluta til vélakaupa eða veiðarfæra, þá verður sannarlega að finna önnur ráð til þess að bæta úr því en þetta frv. ætlast til.

Ég hefi heyrt mikið um það deilt hér á þingi og annarsstaðar, hvort útvegsmenn ættu að ráða yfir gjaldeyrinum óskorað eða þjóðfélagið með þeirri stofnun, sem sett er til þess að annast þetta, gjaldeyris- og innflutningsnefnd. Eins og nú er háttað með þjóðarbúskapinn og verzlunina við önnur lönd, er það tvímælalaust þjóðarnauðsyn, að það sé ekki einstök stétt, sem ræður óskorað yfir gjaldeyrinum. Um þetta atriði ætla ég ekki að rökræða á þessu stigi málsins, það verður gert á öðrum vettvangi, og á ef til vill eftir að verða gert betur hér á þinginu. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að neita því. að það er óhjákvæmileg nauðsyn, að gjaldeyrir verði veittur, að svo miklu leyti sem unnt er. til þess að halda framleiðslunni gangandi, og ég veit ekki betur en að bæði bankar og gjaldeyrisnefnd hafi sýnt fullkomna viðleitni í því efni, að stuðla að því, að okkar sjávarútvegur þyrfti ekki að stöðvast fyrir þær sakir, að ekki fengjust þeir nauðsynlegu hlutir, sem þarf, til þess að útvegurinn geti gengið. Svo að það er í rauninni út í hött að tala um, að þessir menn séu sérstaklega settir hjá, þegar um þetta er að ræða. Hinsvegar hefi ég óbreytta skoðun eins og ég hélt fram í minni fyrri ræðu um það, að útvegsmenn eigi a. m. k. ekki frekar en aðrir þegnar þjóðfélagsins að fá sérstakan gjaldeyri til sinna heimilisnauðsynja. Þetta er eitt af því, sem ég er alveg mótfallinn í frv.

Þá talaði hv. þm. um. að aðrir fengju þennan gjaldeyri, mér skildist kaupmannastéttin. Ég hélt, að það væri nokkurnveginn í samræmi við þá stefnu, sem hann og hans flokkur hefir haldið fram, að kaupmannastéttin ætti að fá að halda sínum rétti til þess að flytja inn og verzla með eitt og annað og fá fullkomið gjaldeyrisleyfi til þess. Það er öllum kunnug sú togstreita, sem verið hefir hér milli einstaklingsverzlunarinnar og samvinnuverzlunarinnar í þessu máli, og hvernig hver vili þar toga í sinn skækil. Ég hefði því sízt búizt við, að frá þessum hv. þm. kæmi gagnrýni um, að kaupmannastéttin fengi meira en henni bæri í þessu efni.

Að síðustu vék hv. þm. að því, sem ég minntist lauslega á afstöðu bankanna til þessa frv.. og ég hygg. að hann verði að játa, að ég fór með rétt mál, þegar ég hélt því fram, að bankarnir hefðu ekki mælt sérstaklega með því fyrirkomulagi, sem hér er farið fram á. Þeir hafa hinsvegar ekki mælt á móti því, að í frv. gæti falizt ákvæði, sem kynni að verða útvegsmönnum til gagns. En hitt skil ég vel, að bankarnir telji það út af fyrir sig miklu heillavænlegri stefnu. að þeir megi eiga við hvern einstakan viðskiptamann, heldur en að mynduð séu samtök gegn þeim til þess að þvinga fjármagn úr bönkunum, sem þeir telja kannske stundum ekki kleift að láta, og ennfremur getur verið um að ræða einstaklinga, sem bankarnir telja ekki rétt að verja, að því er snertir fjárhagslega aðstöðu þeirra. Ég hefi ekki orðið var við, að menn hafi verið settir sérstaklega hjá í þessu efni, þegar um útgerð hefir verið að ræða, svo að ástæða væri til að heimila slíka lánsstofnun. Það hafa engin rök komið fram í málinu og sízt í ræðu hv. þm., sem sanni, að slíkt sé fyrir hendi. Í einstökum tilfellum getur verið, að þetta valdi árekstrum, þannig að þeir, sem eru bundnir í kaupfélögum eða pöntunarfélögum, séu dregnir úr sínum fyrri félagssamtökum í önnur ný, sem þeim eru kannske alis ekki hagkvæm.

Í sumum útgerðarplássum eiga menn alla sína verzlun í samvinnuverzlun, jafnt um rekstur sinnar útgerðar sem um nauðsynjar sinna heimila, og njóta að sjálfsögðu þeirra kjara, sem slík verzlun hefir látið þeim í té. Fyrir þá menn er það slæmt að vera dregnir úr slíkum félagsskap í annan. Þetta er ein ástæðan, sem ég tel, að mæli á móti því, að rétt sé að lögfesta slík félög, sem hér um ræðir. Mér finnst sjálfsagt að lofa hinum, sem hug hafa á, að mynda slíkan félagsskap án þess að skylda þá til þess með lögum.

Ég hefi ekki tíma til að ræða þetta frekar að þessu sinni og geymi mér það til 3. umr., og mun ég þá með till. lýsa minni skoðun á því, hvernig ég álít, að eigi að leysa þetta mál.