07.04.1938
Efri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hirði ekki um að endurtaka neitt af því, sem ég sagði við 2. umr. þessa frv. Rök mín fyrir því, að ég skoða málið ónauðsynlegt, gefa ekki tilefni til að lengja umr.

Það er rétt, sem hv. þm. Vestm. tók fram, að ég heyrði ekki rök hv. 2. þm. S.-M., sem fylgir meiri hl. í sjútvn. um þetta mál. Mér skilst, að það hafi verið staðfesting á þeirri skoðun, sem hann þykist fylgja um nauðsyn þessa félagsskapar. Ég býst við, að lengi megi deila um það, hvort ég sé ókunnugur kjörum smáútvegsmanna eða ekki, og hann verður að hafa sína skoðun í því efni. Ég hefi nokkur kynni af smáútvegsmönnum utan Reykjavíkur og þekki marga útvegsmenn í ýmsum bæjum landsins persónulega. Ég hefi ekki orðið var við, að þeir telji þetta hina mestu hjálp í baráttu sinni að útvega þær vörur, sem þeir þarfnast, í sinni atvinnugrein. Ég skil ekki í að þeir gætu ekki fengið það fé, sem þeir þurfa, með öðru móti. Þetta frv. er sérstaklega miðað við kjör smáútvegsmanna í Vestmannaeyjum, og ég er ekki nógu kunnugur þar, til að geta dæmt um, hvort það er rétt. En þetta frv. gefur mér annað til íhugunar, sem sé það, að ef á að fara að veita þessari atvinnugrein stuðning í þessum kaupstað, þá hafa þar valizt þeir menn til forustu, sem ekki hafa haft mjög næman skilning á högum útgerðarmanna. Mér skilst, að tilefni hv. þm. Vestm. til að beita sér fyrir þessu máli, sé sú reynsla í kjördæmi hans, sem gerir þetta að sérstöku tilfinningamáli fyrir honum. Hans góða vilja efa ég ekki.

En ég hélt, að skilningur lánsstofnana hefði ekki verið neitt minni á þörf útvegsmanna þar en annarsstaðar á landinu. Þótt nú svo væri, að skilningur bankanna hefði yfirleitt verið mjög takmarkaður í þessum efnum, þá er opið fyrir hvern einasta útgerðarmann að mynda samtök, án þess að setja sérstaka löggjöf um þetta efni. Og ég þykist hafa orðið var við. þau ár, sem ég hefi setið á þingi, að það sé ekki búin til löggjöf nema nauðsyn beri til. Og í raun og veru hefir flm. viðurkennt, að slíkrar löggjafar sé ekki þörf, en hún muni ýta undir menn að stofna slíkan félagsskap. Ég hefi bæði nú og áður fært rök fyrir því, að ég tel þetta mál þess eðlis, að það eigi ekki lengri aldur að eiga en þessa umr. Hitt er vitanlega á valdi d., hvort hún þóknast flm. og leyfir frv. að sjá dagsins ljós út úr deildinni.