07.04.1938
Efri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Hv. 3. landsk. þm. játaði nú í sinni síðustu ræðu, að hann væri ekki svo kunnugur ástandinu. (SÁÓ: Í Vestmannaeyjum). Já, látum það gott heita, að vanþekking hans takmarkist við Vestmannaeyjar. Það er þá ekki svo lítill útgerðarþáttur, sem hann þekkir ekki neitt. — Þá vildi hv. þm. leggja það þannig út, að ég væri að beina þessu frv. að sérstökum manni, og að því er virtist, bankastjóranum í Vestmannaeyjum, fyrir tregðu að lána til útgerðarinnar. Vitaskuld skal ég játa, að mér er kunnugast það, sem mér er næst í þessu efni, en ég hefi ekki verið að draga hvorki einn eða annan bankastjóra sérstaklega eða lánveitendur inn í þessar umr., og er til þess engin þörf, m. a. vegna þess. að þessir útibúsbankastjórar úti um land eru alls ekki herrar yfir lánveitingunum og verða í einu og öllu að fara eftir þeim leiðbeiningum — eða fyrirskipunum kannske réttara sagt —, sem þeir fá frá höfuðstöðvum peningavaldsins í Reykjavík. Ég held, að það sé alveg ómaklegt að bera það hér fram. Og það er ennþá einn ávöxtur vanþekkingar hv. þm. að bera það á bankastjórann fyrir útvegsbankadeildinni í Vestmannaeyjum, að hann sé sérstaklega skilningslaus á þarfir útvegsins. Ég held nú, að sá maður hafi, líklega allra bankastjóra mest, lagt sig eftir að gangast fyrir því og stuðla að því, að útgerðarmenn ynnu saman í Vestmannaeyjum að ýmsum sínum þjóðþrifamálum. Skal ég nefna nokkur dæmi. Hann var einn af helztu stuðningsmönnum að mynda hið svokallaða lifrarbræðslufélag og fleiri ár formaður útgerðarmannafélagsins, þótt ekki sé hann það nú, og ötull þátttakandi í fiskisamlaginu, hverju fram af öðru. Ég held, að það muni ekki of mælt, þó að ég segi, að sá maður hefir einmitt miklu fremur en aðrir bankastjórar, að bankastjórunum í Reykjavík ekki undanskildum, lagt á sig mesta aukavinnu og farið út fyrir sína starfsskipun í nokkurskonar þegnskylduvinnu í þarfir útvegsins. Hitt er annað mál, þótt á þessum stað, af almennu ástandi bankanna, geri vart við sig tregða í ýmsum tilfellum hjá þeim mönnum, sem litla tryggingu hafa að bjóða. En svo er það nú þannig, að hv. þm. hefir gleymt fleira í þessum sínum mótþróa gagnvart frv. heldur en því, sem hér hefir verið á borð borið í þessari deild. Honum ætti þó að vera kunnugt um það, að fiskiþingið hefir gert ályktun og samþykkt viðvíkjandi rekstrarlánum og þörf fyrir þau, sem alveg bendir glögglega á það, að fulltrúar fiskiþingsins, sem mættir hafa verið hér og komu úr ýmsum útgerðarstöðum, hafa líka fundið til þess, að útgerðarmenn eiga í mörgum tilfellum erfitt uppdráttar í þessu efni. Ég skal alveg játa, að þetta frv. er ekki neinn voltakross, sem krefjast megi af, að verði allra meina bót. Það er hófleg tilraun til þess að styðja menn til samvinnu. Og reynslan hefir sýnt það, að einmitt samvinnan á sviði sjávarútvegsins hefir í ýmsu efni reynzt eins affarasæl og eins hagnýt fyrir þá menn, sem hafa tekið þátt í henni, eins og hún hefir reynzt fyrir bændur landsins á mörgu sviði.

Að síðustu vil ég segja það, þótt hv. þm. viti það að vísu, að ég er vinsæll maður á Alþingi og vel séður hjá mínum deildarbræðrum. En hann skal ekki halda það, að neinn maður fylgi máli, sem ég flyt, bara vegna þess, að ég sé svo vel liðinn, að þeir vilji gera það fyrir mig. Heldur er það nú svo í ýmsum atriðum, að jafnvel ég, sem er á máli þessa hv. þm. íhaldsmaður og hann í dökkleitara lagi, er riðinn við mál, sem eru til þrifa og geta miðað að því, að verða að gagni fyrir landsfólkið, þótt hv. 3. landsk. þm. hvorki vilji eða geti komið auga á það, sem nýtilegt er í þessu máli. Hitt er annað mál, að okkur hefir sýnzt svipað um sum mál, er snerta útveginn, og er skemmst að minnast, þegar hann var með okkur hv. 2. þm. S.-M., er við héldum hér fram öðru máli til sigurs í þessari deild fyrir útgerðarmenn. Þar sá hann rétt og hallaðist að réttu máli, en í þessu máli virðist honum meinað að sjá nokkuð rétt. Er það sízt af öllu mér að kenna, því að ég hefi meira að segja lagt mig mjög í lima til að fá hann til að skilja tilgang málsins og hvaða gagns megi af því vænta. Ég vona, að hv. deild fallist ekki á þá till. hv. 3. landsk. þm., að drepa þetta mál, ekki vegna mín, heldur vegna málstaðarins og þeirra, sem málið er borið fram fyrir.