07.05.1938
Neðri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

28. mál, rekstrarlánafélög

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Það er ýmislegt í þessu frv. þannig lagað, að ég tel ekki hægt að samþ. það eins og það liggur fyrir. Yfirleitt má segja, að ekki sé þörf slíkrar lagasetningar, því að menn geta haft samtök um þessa hluti, hvort sem er, ef þeim sýnist.

Frv. gerir ráð fyrir, að þessi félög hafi eða geti haft með höndum aðra starfsemi jafnframt, sem sé verzlunarstarfsemi. En það er auðvelt fyrir útgerðarmenn og aðra að hafa samtök um slíkt, án þess að sérstök l. séu um það sett.

Þá vil ég einnig benda á það, sem hv. þm. Barð. gerði að umtalsefni. Í 10. gr. er svo ákveðið, að ef eitthvað er því til fyrirstöðu, að bankarnir geti lánað slíkum félögum, þá skuli ríkisstj. veita aðstoð til þess, að bankarnir verði sér úti um lánsfé í þessu skyni. En um það er ekkert sagt, hvernig eigi að framkvæma þessi ákvæði 10. gr. Er því ekki hægt að samþ. þetta svona. Ég er hissa á því, að ekki skuli nú þegar liggja fyrir brtt. frá hv. sjútvn. við frv. En ef til vill má vænta þeirra fyrir 3. umr.