07.05.1938
Neðri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði um efni 10. gr., vil ég taka fram, að þegar málið var fyrst undirbúið, var rætt um það við forstöðumenn bankanna, og létu þeir í ljós þá skoðun, að bankamennirnir myndu yfirleitt vera færastir að dæma um, hverjum væri óhætt að lána til útgerðar á hverjum tíma. En það er nú svo um þessa lánveitendur, að þeir eru nokkuð fastheldnir í sín gömlu form. Og bankarnir hafa yfirleitt gert einstaka menn að milliliðum sín og lántakenda í hinum ýmsu verstöðum. Einum eða tveim mönnum hefir verið lánað féð, og þeir hafa svo aftur orðið kaupendur að aflanum, en smáútvegsrekendur hafa selt þeim aflann óverkaðan. Stundum hafa þeir grætt á þessu, stundum tapað. Aflinn hefir farið út úr höndum þeirra, sem veiddu, án þess að þeir gætu séð um verkun hans. Nú töldum við heppilegt, að menn gætu fengið tækifæri til að gefa með samtökum haldið utan um aflann, þar til hann væri fullverkaður og kominn í hið verðmætasta ástand. En það er þó engin von til þess, að lánstofnanirnar vilji lána mörgum mönnum í hverri verstöð. Til þess þekkja þær ekki nægilega til á hverjum stað. En það er löngu viðurkennt, að þetta rekstrarlánafyrirkomulag gæti tryggt bankana betur en hinir einstöku menn geta gert. Ég geri reyndar ráð fyrir, að lánsstofnanirnar myndu verða nokkuð fastheldnar við hið gamla fyrirkomulag, er þær hafa haft góða og viðurkennda viðskiptamenn í verstöðvunum, og ekki viljað breyta til. Um það skal ég þó ekkert fullyrða. En ég hefi komið fram með nokkur andmæli gegn þessu fyrirkomulagi, byggð á því, að hér væri um að ræða nokkuð mikla íhlutun gagnvart bönkunum. Og ef þeir segðu sem svo. Við höfum ekki fé til að lána þannig, jafnvel þó að tryggingar séu góðar, þá yrði félagsskapurinn að geta haft einhver úrræði. Ef hann gæti lagt fram góðar tryggingar, yrði hann því að geta átt von á aðstoð ríkisins, ef bankarnir brygðust. Vítanlega hefir ríkið oft og tíðum gert þetta og þvílíkt, svo að mótbárur gegn því eru á veikum rökum reistar.

Mér var ekki ljóst við hvað hæstv. atvmrh. átti, er hann talaði um. að félagsskap þessum væri ætlað að hafa annað og fleira með höndum en rekstrarlán. Mér er ekki kunnugt um, að félögunum sé ætlað að hafa annað með höndum en að meta tryggingar manna og úthluta lánunum og svo að aðstoða menn við að koma afla sínum í verð. Ég hefi auðvitað ekkert á móti því, að frv. sé gagnrýnt og að lagðar séu fram brtt., sem til bóta horfa, en ég held, að þessar aths. muni við nánari skoðun sýna sig ónauðsynlegar.