07.05.1938
Neðri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

28. mál, rekstrarlánafélög

Pétur Ottesen:

Það er eftirtektarvert, hve samstillt þeir leika, hv. þm. Barð. og hæstv. atvmrh. Þegar hæstv. atvmrh. er búinn að spreyta sig á því í 3 eða 4 ræðum að sýna sig í ráðherrastöðu sinni til að koma þessu frv. fyrir kattarnef, þá hefir hv. þm. Barð. sótt það í sig veðrið, að hann leggur til, að felld verði niður úr þessu frv. gr., sem á veikamikinn þátt í því, að sú félagsskipun, sem hér er gert ráð fyrir til stuðnings smáútvegsmönnum, geti náð tilgangi sínum, sem er sá, að veita þeim smáútvegsmönnum, sem fjær eru lánsstofnunum landsins, greiðari, betri og hagfelldari aðstöðu til að afla sér rekstrarlána en þeir hafa nú án slíkrar löggjafar. Með ákvæðum 10. gr. og þeim félagslegu samtökum smáútvegsmanna, sem þar um ræðir, er í verulegum mæli greidd gata þeirra til lánsútvegunar. Það er sýnilegt, að hv. þm., sem talar gegn 10. gr., eru að reyna að spilla fyrir því, að útvegurinn geti leitað stuðnings með þessum félagsskap, og þetta eru samantekin ráð til að koma frv. fyrir kattarnef. Í hv. Ed. hefir orðið góð samvinna um málið milli allra hv. þdm., hvaða flokki sem þeir tilheyra. Þeir sáu, að afgreiðsla þessa máls var nauðsynleg fyrir útgerðina. En svo risa þessir 2 framsóknarmenn upp í þessari hv. d. og beita þessu ógeðslega samspili, og reyna að spilla framgangi málsins í þessari hv. d., en ég vona, að þeim takist það ekki.

Auk þess sem ekki þarf að lýsa, hver munur það er, að hafa fengið löggjöf um slíkan félagsskap, eða að hafa enga löggjöf þar að lútandi, þá er auk þessa bátaútvegsmönnum tryggður með 6. gr. frv. nægilegur gjaldeyrir til að kaupa nauðsynjarnar til útgerðar sinnar. Í 10. gr. er svo ríkisstj. gert að skyldu að vera bönkunum innan handar um að afla nægilegs lánsfjár, ekki einungis handa stórútgerðinni, heldur og handa bátaútvegsmönnum, svo að þeir verði engar hornrekur lengur. Því er þetta frv. að öllu leyti mikils vert fyrir bátaútvegsmenn og þær ræður, sem hv. þm. Barð. og hæstv. atvmrh. hafa haldið gegn því, hinar mestu fjarstæður, og þar sem velmegunin í kjördæmi hv. þm. Barð. byggist að mestu leyti á því, að smáútgerðin geti borið sig, þá ætti hann manna sízt að stiga á það stráið, sem er til hins verra fyrir útvegsmenn, svo höllum fæti sem þeir nú standa.

Ef maður ber þessar ræður hæstv. atvmrh. saman við brtt. þær, sem hann ber fram við 22. gr. fjárlfrv., eru þær ekki siður athugaverðar, því að þar ætlar hann að fara að nota lög og reglur þessa lands til hagsbóta fyrir pólitíska stuðningsmenn sína í sósíalistaflokknum. Ég ætla ekki að fara nánar út í það nú, það verður áreiðanlega gert við umr. um fjárlagafrv.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að það sæti illa á þeim, sem að þessu frv. stæðu, að vera að tala um lántökur, þar sem þeir væru andstæðir þessari 12 millj. kr. lántöku, sem ríkissjóður ætlar að fara að taka. É g vil benda á, að af þeirri lántöku er ekkert ætlað til atvinnurekstrar nema ein millj. kr. til síldarverksmiðjubyggingar á Raufarhöfn, bitt á að fara til greiðslu á skuldum, en ekki til að bæta úr þörfinni fyrir rekstrarlán til hjálpar atvinnurekendum.

Ég vildi óska, að andmæli þessara 2 hv. þm. gegn frv. hrinu ekki á því, heldur snerust gegn þeim sjálfum.