11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

28. mál, rekstrarlánafélög

Pétur Ottesen:

Ég tel, að með þessum brtt. hv. þm. Barð. sé mjög skert þýðing þessa frv., og ef þær verða samþ., þá er mjög lítið eftir í þessu frv. fyrir þá, sem þess eiga að njóta, svo að það skiptir þá ekki miklu máli, hvort það verður samþ. eða ekki.

Það er vitanlegt, að þetta frv. er fyrst og fremst ætlað þeim til stuðnings, sem fjarri búa lánsstofnunum, svo að þeim gefizt kostur á að mynda félagsskap, sem gæti verið til stuðnings við útvegun rekstrarláns, en mér skilst, að samkv. 1. brtt. sé það fyrirbyggt, að þeir geti á nokkurn hátt notað þennan félagsskap til þess að gera sína verzlun hagkvæmari að öðru leyti en því, sem í strangasta skilningi snertir innkaup til útvegsins. Það er vitanlegt, að fyrir þá menn, sem eru á mjög afskekktum stöðum, er það mjög mikill stuðningur að geta keypt aðrar nauðsynjar. Þeir þurfa kannske að fá sérstakan bát til þess að flytja þessar vörur heim til sín og þurfa máske líka að gera menn í sendiferðir til lánsútvegana og innkaupa. Fyrir þessa menn er það mjög mikill sparnaður að geta einnig keypt aðrar nauðsynjar samhliða því sem þeir gera innkaup á útgerðarvörum. Þetta er fyrirbyggt með brtt. við 2. gr. frv. Með 2. brtt. eru þau fríðindi takmörkuð, sem þessum mönnum eru veitt samkvæmt frv., um íhlutun á gjaldeyri, og 3. brtt. er sama sem útstrikun á þeirri gr., sem hún á við, því að með því, sem í þeirri brtt. felst, er ekki neitt sagt, og samkv. því er ekki hægt að fyrirskipa bönkunum nokkurn skapaðan hlut í þessu efni. Samkv. þessari gr. er lögð rík áherzla á, að ríkisstj. veiti bönkunum aðstoð, ef nauðsyn krefur, til þess að hægt sé að fullnægja þörf þessara manna, svo að þeim, sem þennan félagsskap mynda, er veittur nokkru ríkari réttur í þessu efni heldur en þeir einstaklingar hafa nú, sem til lánsstofnana leita. Það má kannske segja, að það sé höfuðkostur þessa frv., því að þannig tel ég, að beri að skilja þessa 10. gr. frv., og þannig mundi hún verða framkvæmd. Þar sem sýnt er, að ætlunin er að koma þessu máli fyrir kattarnef, hefði verið miklu hreinlegra að fella frv. eða láta það daga uppi en að vera að samþ. það eftir að búið er að taka út úr frv. öll þau ákvæði, sem nokkra þýðingu hafa fyrir bátaútvegsmennina.

Ég vil að endingu segja, að ég tel það mjög miður farið, að þessi hv. d. ætlar að rjúfa það góða samkomulag, sem ríkt hefir í hv. Ed. síðustu daga milli flokka um að láta málin ganga fram á þeim grundvelli, sem þau voru afgr. á frá þeirri hv. d. — Ég mun svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en endurtek það að lokum, að verði þessar brtt. samþ., þá er frv. að mínum dómi orðið þýðingarlítið eða þýðingarlaust.