12.05.1938
Efri deild: 76. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Þetta mál er upphaflega flutt í þeim tilgangi að veita þeim efnaminni útgerðarmönnum aðstöðu til þess að reka sína atvinnu í samlögum, eins og aðrir geta sem einstaklingar, er betur eru stæðir. Sú vill verða raunin á, að hinir verr stæðu af útgerðarmönnum eru einmitt, af lítt skiljanlegum ástæðum, settir hjá af lánsstofnunum, þannig að þeim er um lengri tíma gert ómögulegt að komast á sjóinn, þótt að lokum fari svo, að þeim takist að klifa þrítugan hamarinn og komast af stað, en eru þá oft búnir að tapa miklum afla. Þessi aðstaða hefir verið undirstaðan í þessu frv., og er það aðallega flutt með þörf hinna verr stæðu útvegsmanna fyrir augum.

Hér í d. var fullkomið samkomulag milli allra flokka um málið. En í Nd. hefir það mjög verið vængstýft, og skilst mér, að það hafi aðallega verið gert fyrir tilverknað framsóknarmanna, og ég hefi fyrir satt, að hæstv. atvmrh. hafi séð hilla undir einhverja samkeppni við kaupfélögin í frv., og þar af stafað þær vængstýfingar, sem hv. þm. Barð. var látinn bera fram.

Ég verð að harma, að hv. alþm. í Nd. skuli ekki hafa haft skilning á þeirri þörf, sem er á því fyrir hina efnaminni útvegsmenn að fá þessa styrktu aðstöðu, sem hér er um að ræða. Þar með er ekki loku fyrir skotið, að í framtíðinni. megi byggja ofan á þann grundvöll, sem hér er lagður, þótt veikur sé. En það gegnir furðu, að það skulu vera hinir svokölluðu samvinnumenn, sem hafa bundizt samtökum um, að þessi löggjöf næði ekki fram að ganga í þeirri mynd, sem yrði útvegsmönnum að verulegu gagni, en það gat hún orðið, ef frv. hefði verið samþ. óskemmt. eins og það fór frá þessari d. Það situr illa á framsóknarmönnum, sem vilja eigna sér samvinnuna í landinn og hafa leikið þann leik, að ganga að fyrirtækjum landsmanna, sem þeir hafa hvergi komið nálægt, og eigna sér þau, að setja fót fyrir löggjöf, sem miðar einmitt að því, að hinir smærri framleiðendur í landinu fái sterkari þjóðfélagslega og atvinnulega aðstöðu. Það virðist ekki vera nenut ein tegund samvinnumanna, sem finnur náð fyrir augum þessara manna. Hitt er vitanlegt, að samstarf útvegsmanna á því sviði, sem um er að ræða í þessu frv., gæti orðið þeim til mikils gagns. ef löggjafarnir hefðu skilning á að veita þeim þá aðstöðu, sem þeir þurfa.