09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta mál. sem í daglegu tali er kallað hitaveitumál Reykjavíkur, á sér nokkra forsögu, sem í sjálfu sér gæti gefið tilefni til þess, að rætt yrði um, en ég ætla ekki að gera það, heldur ætla ég að snúa mér að málinu eingöngu á því stigi, sem það er á eins og það liggur fyrir í þinginu.

Það hefir verið um það getið hér í umræðum á Alþ., að það væri í raun og veru æskilegt, að hægt væri að koma upp ýmsum stórum fyrirtækjum, þó að til þeirra þyrfti erlent lánsfé, án þess að ríkið tækist á hendur beina ábyrgð á láni til fyrirtækjanna. Í sambandi við rafveitu þá, sem fyrirhuguð hefir verið á Akureyri, fóru á sínum tíma fram nokkrar umleitanir í þessa átt, og ég ætla, að það hafi verið í byrjun síðasta Alþ., sem það lá nokkuð greinilega fyrir, samkvæmt því, sem fram hafði komið í þeim umleitunum, að örðugt hafi verið að fá lán til þessa mannvirkis, a. m. k. nema því aðeins, að ríkisábyrgð kæmi til. Og þá var það, að Alþ. heimilaði ríkisstj., samkvæmt þeirri nauðsyn, sem þá lá fyrir, að ábyrgjast fyrir þessa rafveitu 80% af stofnkostnaðinum, og var það beinlínis gert vegna þess, að það þótti liggja fyrir. að erfitt væri að útvega féð. Ég ætla ekki að fara langt út í, hvernig það mál stendur, en það mun ekki enn vera búið að útvega lánið.

Ég býst við, að það megi telja líklegt, að það sé a. m. k. vænlegra til þess að lán, eins og t. d. til rafveitunnar og þessara hitaveituframkvæmda, fáist, að fyrir þeim sé ríkisábyrgð, og það kom, eins og ég sagði áðan, nokkuð greinilega fram í sambandi við lán til Akureyrarrafveitunnar. Það verður þess vegna sennilega ekki talið að nauðsynjalausu, að þetta mál kemur fram hér í því formi, sem það er, og mun Framsfl. vera því samþykkur að heimila ríkisábyrgð fyrir þessu láni til hitaveitunnar, en flokkurinn mun flytja till., þegar málið kemur úr fjhn. d., um það, að ábyrgðin sé bundin við 80% af stofnkostnaði hitaveitunnar. Eins og ég gat um í sambandi við ábyrgðina til Akureyrarrafveitunnar, viljum við gjarnan beita okkur fyrir því í þinginu. að tekin verði upp sú regla. að hlutaðeigendur leggi nokkuð fram sjálfir í fyrirtækin til þess að sýna trú sína á fyrirtækjunum, svo að þannig verði hægara fyrir þingið að átta sig á, hvort hlutaðeigendur hafa verulega trú á því, að fyrirtækin séu góð. Það hefir verið svo stundum áður, að tekin hefir verið ábyrgð á öllu andvirði einstakra fyrirtækja, t. d. hafnarfyrirtækja. Þau hafa lagt fram 60%, en ríkið 40%, og það er jafnvel dæmi um það, að fyrirtæki hafi komizt upp, án þess að hlutaðeigendur hafi lagt fram grænan eyri. Því verður ekki neitað, að þetta hefir verið notað til þess að draga fjármagn á einstaka staði með litlu tilliti til þess. hvort þessi fyrirtæki gætu borið sig.

Nú geri ég ráð fyrir, að þetta fyrirtæki muni bera sig, ef ekki koma einhver óvænt óhöpp fyrir í framkvæmd verksins, sem vonandi verður ekki. svo að af þeim ástæðum þarf kannske ekki að balda þessari reglu, en mér finnst það vera svo mikilsvert atriði, að ríkið ábyrgist ekki alla upphæðina, að ekki sé hægt að gera undantekningu með þetta mannvirki. Ef ábyrgð væri veitt fyrir allri upphæðinni , mundi því verða haldið fram á eftir af þeim, sem síðar sæktu um ábyrgð, að þar sem ábyrgð var veitt fyrir öllu andvirði hitaveitunnar, þrátt fyrir það þótt nokkur peningaráð mundu kannske hafa verið hjá íbúum Reykjavíkur til þess að lána fé til nokkurs hluta, þá væri ekki siður ástæða til þess að ábyrgjast allt féð til fyrirtækja á stöðum, þar sem minna fjármagn er í höndum íbúanna.

Að þessu athuguðu mun Framsfl. vera með því, eins og ég tók fram áðan, að ábyrgðin verði veitt. en miðuð við 80%. Það má að vísu segja, að ef þetta er takmarkað við ákveðna hundruðstölu, því komi minna inn í landið af frjálsum gjaldeyri í sambandi við þessa lántöku, því að þetta dregst frá þeim hluta lánsins, sem á að koma í frjálsum gjaldeyri, en þó að gjaldeyrisvandræðin séu mikil, þá munar ekki svo mikið til eða frá um þennan hluta lánsins, þar sem fyrirhuguð er sérstök gjaldeyrislántaka, að það sé rétt að brjóta þessa reglu um, að ákveðina hundraðshluti skuli lagður fram af hlutaðeigendum. Mér er ekki kunnugt um afstöðu annara flokka, en fulltrúar Framsfl. í fjhn. munu taka þessa afstöðu.

Ég býst ekki við, að það séu deildar meiningar um, að það sé mjög nauðsynlegt, að hitaveitan komist í framkvæmd sem allra fyrst, m. a. vegna þess, að það væri einhver skynsamlegasti undirbúningurinn, sem hér væri hægt að gera gegn þeim vandræðum, sem kynnu að leiða af styrjöld, ef hægt væri að hita bæinn með vatni, í staðinn fyrir að flytja inn kol, sem er sú vörutegund. sem erfiðast verður að ráða við innkaup á. ef mjög þrengir að.

Ég skal geta þess, að eins og hv. þm. og aðstandendur þessa máls vita, er það æfinlega skilyrði fyrir ríkisábyrgð, að öll framkvæmd málsins fari fram í samráði við ríkisstj. eða umboðsmenn hennar, og nægir í því sambandi að vísa til þeirra skilyrða, sem sett eru fyrir öllum ríkisábyrgðum í fjárlögum á hverjum. tíma. Ég geri ekki ráð fyrir, að það standi á því, að slík samvinna geti tekizt um að hrinda þessu máli í framkvæmd. Það er einnig því meiri nauðsyn, að góð samvinna sé um þetta í sambandi við málið, þar sem fleiri lántökuumleitanir eru fyrirhugaðar, og þá er afaráríðandi, að menn hafi yfirlit yfir þau mál, svo að ekki reki sig hvað á annars horn í þeim umleitunum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða u!n þetta mál, en það má vera, að það gefist tækifæri til þess að fara nánar út í einstök atriði eða annað, sem nauðsynlegt kynni að vera við 2. eða 3. umr.