09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 4. þm. Reykv. var óánægður yfir því, að Framsfl. ætlaði að flytja brtt. um það, að ábyrgðin sé miðuð við 80% af stofnkostnaðinum. Hann sagði, að hér væri um svo sérstakt tilfelli að ræða, að ekki þyrfti á þeim reglum að halda, sem gilt hefðu nokkuð almennt. En ég vil benda á. að það myndi verða erfitt að standa á móti því, að ábyrgjast fyrir önnur bæjar- og sveitarfélög að fullu, et það væri gert fyrir Reykjavík, því .ð óneitanlega verður að líta svo á, að Reykjavík hafi betri möguleika til þess að fá lán innanbæjar en öll önnur bæjarfélög landsins. Út frá því sjónarmiði hygg ég, að ekki sé varlegt að ganga inn á þá braut að ábyrgjast 100%.

Hv. 7. landsk. minntist á það hér áðan, að komið gæti til mála að nota aðrar leiðir til þess að hita Reykjavík með vatni en þá, að taka heita vatnið frá Reykjum. Þetta mál mun liggja þannig fyrir, að ef slíkar rannsóknir ættu að fara fram, þá myndi ekki verða byrjað á hitaveitunni á yfirstandandi ári, og þá væri ekki hægt að fara að leitast fyrir um lánsfé, að svo stöddu, til hitaveitunnar. Það þýðir m. ö. o. verulegan drátt á málinu. Ég tel því mjög áriðandi, að það komi fram hjá hv. þdm. við meðferð málsins, hvort þeir séu ekki með því, að ráðizt verði í virkjunina eins og gert er ráð fyrir henni í grg. frv., því að ef það væri meiningin hjá hv. þm., að setja það að skilyrði, að rannsakaðir yrðu aðrir möguleikar, þá er vitanlega afarnauðsynlegt fyrir ríkisstj. að vita það með vissu. Ég fyrir mitt leyti myndi líta þannig á, ef frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir, með þeirri einu breyt., að tekin yrði ábyrgð á vissum hluta af heildarkostnaðinum, þá beri að líta á það sem þingvilja fyrir því að veita ábyrgð fyrir hitaveitu frá Reykjum í Mosfellssveit, og það yrði að koma mjög glöggur þingvilji fyrir því, ef ætlazt væri til, að stj. hyrfi frá framkvæmdum. og beðið yrði eftir því, að aðrir möguleikar yrðu athugaðir.

Hv. þm. G.-K. tók hér til máls áðan og var, að mér skildist, mjög óánægður yfir þeim aths., . sem fram höfðu komið frá hv. 1. þm. Rang. — Eins og ég sagði í upphafi míns máls, ætla ég ekki að fara að ræða um sögu og aðdraganda hitaveitumálsins, eins og hann hefir verið, og ætla ekki heldur að gera það, þó að sumar af þeim ræðum, sem fluttar hafa verið hér, hafi að sumu leyti gefið tilefni til þess. Ég ætla að segja örfá orð út af ræðu hv. þm. G.-K. Hann sagði, að sérstök ástæða væri til þess að fara fram á ríkisábyrgð fyrir láninu til hitaveitunnar vegna þess frv., sem hér lægi fyrir um gjaldeyrislán. og rökstuddi það með því, að í grg. frv. væri tekið fram, að af því láni skyldi gjaldeyrir eingöngu tekinn til þeirra lána bæjar- og sveitarfélaga, sem væru með ríkisábyrgð. Ég skal upplýsa, að þetta er misskilningur hjá hv. þm., því að í grg. frv. eru tekin öll lán bæjar- og sveitarfélaga, sem hagstofan náði til, og það er gert ráð fyrir, að bæjar- og sveitarfélög geti fengið gjaldeyri til greiðslu vaxta og afborgana af láninu, þó að þau séu ekki með ríkisábyrgð, en flest þeirra eru með ríkisábyrgð. — Það er ekki heldur rétt hjá hv. þm.. að ummæli grg. taki af um það, að gjaldeyrir fáist til annara lána bæjar- og sveitarfélaga en þeirra, sem ríkið ábyrgist, þar sem segir á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt því, sem að framan greinir, nema afborganir af lánum ríkissjóðs. lánsstofnana, bæjar- og sveitarfélaga og annara, sem hafa ríkisábyrgð, um 3,3 millj. kr. af heildarupphæð árlegra afborgana.“

Það eru taldir upp þeir lánsflokkar, sem fyrst og fremst koma til greina. lán ríkissjóðs, ríkisstofnana, bæjar- og sveitarfélaga og annara, sem hafa ríkisábyrgð. en ekki einstaklinga, sem ekki hafa ríkisábyrgð.

Ég vil leiðrétta það, ef hv. þm. hefir skilið það á aðra lund, eins og kom fram í ræðu hans áðan. Eins og kemur ljóst fram á bls. 3 í grg., þá segir þar, að fyrst og fremst sé notað af láninu til greiðslu þeirra afborgana, sem ríkissjóði ber að standa skil á, því næst sé bönkum, bæjar- og sveitarfélögum og þeim, sem ríkisábyrgð hafa fyrir lánum sínum, seldur gjaldeyrir til greiðslu afborgana af föstum lánum að nokkru eða öllu leyti eftir því, hvernig gjaldeyrisástandið er á hverjum tíma. Það er greinilega tekið fram að þessir aðrir séu þeir, sem ríkisábyrgð hafa á lánum sínum. Ég vil hér taka af öllu tvímæli um þetta.

Framkoma þessa frv., sem ég hefi hér rætt um, þarf því ekki að vera að neinu leyti tilefni þess, að farið er fram á ríkisábyrgð fyrir hitaveituláni. Jafnvel þótt svo hefði staðið á, að skilningur hv. þm. hefði verið réttur, þá hefði frv. samt ekki gefið tilefni til þess. nema síður væri, þar sem þá væru meiri líkur til, að hægt væri að standa í skilum með greiðslur af öðrum lánum, ef sérstaklega væri séð fyrir þessu. Ég skil ekki. hvers vegna svo mikið kapp er lagt á það af hv. þm. G.-K. og hv. flm., að einungis sé farið fram á ríkisábyrgð vegna yfirfærslunnar. Við vitum, að í sambandi við það lán, sem borgarstjórinn taldi sig geta fengið í Englandi, þá var gert ráð fyrir, að Landsbankinn lýsti því yfir, að hann myndi annast yfirfærslur af því eins og opinberum lánum. Að vísu var ekkert fyrirfram talað við bankann um þetta, en ef þessi yfirlýsing hefði fengizt, þá er hún náttúrlega jafngóð trygging fyrir yfirfærslu af því láni eins og opinberum lánum. Ef það hefði verið gert, þá var af þeim ástæðum út af fyrir sig ekki þörf á því að að leita eftir ríkisábyrgð. En mér þykir ekki ástæða til að fara í neinar grafgötur með það, að á Norðurlöndum a. m. k. mun vera litið svo á, að það séu öruggustu lánin, sem ríkisábyrgð sé fyrir. Það kom greinilega fram. þegar leitað var eftir láni til rafveitunnar á Akureyri. Það er ekki ástæða til að fara í neinar felur með það, að það mun vera litið þannig á, að það sé öruggast, að því er snertir yfirfærslur og annað. Eg held því, að það þurfi ekki að færa rök fyrir þessari beiðni sérstaklega með því, að frv. um gjaldeyrislántöku sé komið fram. Hún hefði áreiðanlega komið fram, þótt það frv. hefði ekki verið lagt fram. Það er ég alveg viss um.

Hv. 1. þm. Rang. minntist á það hér áðan, að það hefði verið talið af forráðamönnum þessa máls, að hægt væri að koma þessu í kring án ríkisábyrgðar. Ég skal ekki fara langt út í að metast um það, en mér fannst hv. þm. G.-K. taka það óstinnt upp. Það var þó á sínum tíma ekki nóg með það, að þessu væri lýst yfir, heldur var því jafnframt, eins og drepið hefir verið á, lýst yfir, að lánstrausti ríkisins væri þannig komið, að það gæti ekki með neinn móti fengið lán. Það er náttúrlega það, sem hv. 1. þm. Rang. vildi benda á. Ef þessi fullyrðing væri rétt, þá er það náttúrlega dálítið undarlegt, að sá aðili, sem gersamlega væri þrotinn að trausti og gæti hvergi fengið lán, ætti að skrifa upp á lán fyrir þann aðilja, sem gæti fengið lán svo að segja hvar sem er. Það var þetta ósamræmi, sem hv. 1. þm. Rang. benti á, og ég sé ekki, að það sé nein sérstök ástæða til að vonzkast út af því, þótt hann hafi gert það, þar sem það lá beint við.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta. en eins og ég hefi sagt áður, þá mun Framsfl. fylgja þessu máli með því fororði, sem lýst hefði verið.