11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Hv. 2. þm. Skagf. hefir nú mikils til tekið af mér ómakið við að svara hv. 4. þm. Reykv., því að hann hefir í raun og veru tekið fram mest af því, sem ég vildi sagt hafa.

Ég hafði búizt við, að hv. 4. þm. Reykv. tæki því frekar vel, þegar við alþýðuflokksmenn viljum auka ríkisábyrgðina frá því, sem fulltrúar Framsfl. og Bændafl. hafa lagt til, úr 80% og upp í 90%, en í stað þess að taka þessu með nokkurnveginn kurteisi, þá úthverfist þessi hv. þm. og talar um, að við höfum sýnt þessu máli einstakan fjandskap og þessu líkt. Hann talaði líka um það, að við hefðum verið að finna að því, að það hafi verið sýnd dirfska í málefnum Reykjavíkurbæjar. Við teljum það enga dirfsku í málefnum Reykjavíkurbæjar, þó að ráðizt sé í hitaveituna; þvert á móti hefir þetta verið áhugamál Alþfl., a. m. k. engu síður en annara flokka hér í bænum, og það er fjarri því, að Alþfl. telji hitaveituna í sjálfu sér neina dirfsku. Hitt mætti e. t. v. kallast dirfska af hv. 4. þm. Reykv.. að ætlast til, að allt, sem hann segir í þessu máli, sé tekið með trúarinnar augum. Það mætti kallast dirfska, því að undirbúningur málsins hefir vakið mikla tortryggni, eins og ég hefi sagt frá.

Það er ákaflega gott að heyra það nú, að þetta sé orðið mál allrar þjóðarinnar, og að það sé fullkominn misskilningur, að þetta sé sérmál Sjálfstfl. Það er gott að heyra þessar yfirlýsingar nú, en þær yfirlýsingar voru ekki á takteinum hjá Sjálfstfl. fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vetur. Þá var þetta mál, sem Sjálfstfl. var að berjast fyrir, mál sem Sjálfstfl. ætlaði að koma í framkvæmd án þess að leita að einu eða neinu leyti stuðnings annara flokka, og sízt af öllu stuðningsflokka stj. á Alþ. um ábyrgð á láninu. — Það er nú öðru nær en að Alþfl. hafi sagt, að þetta væri mál Sjálfstfl. Það er þvert á móti Sjálfstfl., sem hefir verið að reyna að eigna sér þetta mál eins lengi og honum var það fært. Nú lýsir hv. 4. þm. Reykv. því yfir, að þetta sé tómur misskilningur — og væri gott, ef hv. þm. vildi leiðrétta það í blöðum flokksins —, og að þetta sé mál allra flokka í landinu, eins og þessi hv. þm. sagði áðan, þegar hann kemur bljúgur og auðmjúkur til þess að biðja um ábyrgð ríkisins fyrir láninu.

Ég mótmæli því, að það sé nokkur fjandskapur við málið, þó að Reykjavíkurbær sé látinn sitja við sama eins og önnur bæjarfélög, því síður þegar Reykjavík er sett skör hærra, eins og gert er með till. okkar alþýðuflokksmanna. Það er þvert á móti ekki fjandskapur, það er vinátta við málið, sem Reykjavíkurbæ er sýnd, og það er sérstök tiltrú, sem bæjarstjórnarmeirihlutanum er sýnd, tiltrú sem hann hefir ekki átt skilið að fá (SK: Því eruð þið þá að þessu?). Vegna þess að þetta er mál allrar þjóðarinnar, og jafnvel svo mikils vert, að það er ekki rétt að láta Reykvíkinga gjalda þeirra mistaka, sem Sjálfstfl. hefir gert í þessu máli.

Hv. 1. þm. Reykv. gerði mikið úr því, að vegna þess að verkamenn, sem fengju hér vinnulaun, þyrftu að leita greiðslugetu erlendis, þá væri nauðsynlegt að taka allt lánið í erlendri mynt. Nú vil ég spyrja hv. þm., hversu mikil innlend vinnulaun verði greidd í sambandi við hitaveituna, í fyrsta lagi með minni og í öðru lagi með meiri framkvæmdina í huga? Ég vildi gjarnan, að hv. þm. vildi gera svo vel og svara þessum spurningum. — Annars vildi ég segja það, að ég hefi ekki orðið þess var, þó að hér yrði nokkrar atvinnubætur, þá skorti fólkið hér á landi erlendar vörur til þess að geta lifað. Ég held, að það sé algerlega rangt hjá hv. þm. ef hann heldur því fram, að það sé sérstaklega nauðsynlegt að taka lán í erlendri mynt af þessum ástæðum, því að það er vitanlegt, að verkamenn fengju engin innflutningsleyfi. Ennfremur er það vitanlegt, að þeir myndu verða að kaupa vörur í verzlunum bæjarins fyrir þessi vinnulaun, en myndu ekki fara að leitast eftir því að flytja fé úr landi eða að fá inn vörur fyrir þessa peninga. Ennfremur vildi ég segja það í þessu sambandi, að ég tel það mikla ógætni að flytja inn svo mikið erlent lánsfé, að vinnulaunin séu í raun og veru greidd með erlendum gjaldeyri, því að einhvern tíma kemur að skuldadögunum. Ég tel réttara, að þetta fé sé frekar notað til þess að auka kaupgetuna innanlands, og ég er viss um. að enginn verkamaður, sem ynni við þetta væntanlega fyrirtæki, verður í neinum vandræðum með að koma þessu fé fyrir, þó að ekki sé flutt inn erlent fé til þess að borga vinnulaunin.

Þó að 10% af þessu láni yrðu tekin innanlands, þá tel ég ekki, að það muni hafa veruleg áhrif á gjaldeyrisástandið í landinu, a. m. k. í svipinn, en hitt er það, að það kemur einhverntíma að skuldadögunum og ef við erum ekki tilneyddir, þá álit ég, að ekki sé rétt að taka allt lánið í erlendri mynt, heldur megi fara þann milliveg, sem fulltrúar Alþfl. hafa stungið upp á. — Nú er það svo, að þó að hv. 4. þm. Reykv., sem er talinn mjög grandvar maður, eins og ég lýsti við 1. umr. málsins, komi hér til Alþ. og segi, að þetta sé gott fyrirtæki, þá erum við vitanlega ekki skyldugir til að taka það með trúarinnar augum eftir allt það, sem á undan er gengið, því að þegar þessi hv. þm. kom til landsins í desember í vetur, var fullyrt, að þegar væri búið að fá loforð fyrir láninu, og að það þyrfti enga ríkisábyrgð fyrir því. Reykjavík væri álitin góður borgunarmaður fyrir þessu láni erlendis. Og þá var sagt, að það þyrfti ekki aðrar sannanir fyrir þessu en að hann Pétur sagði það. En af því að þetta hefir brugðizt hjá þessum hv. þm. og Sjálfstfl. hefir látið sér sæma að nota þetta ágæta nafn þessa hv. þm. til þess að fara með mjög svæsnar kosningablekkingar í sambandi við þetta mál, þá þurfum við ekki endilega að taka það trúanlegt, að þessi áætlun, sem hv. 4. þm. Reykv. segir, að hafi verið gerð, sé í alla staði óaðfinnanleg. Því höfum við, Alþýðuflokksmenn, lagt til, að ríkisstj. samþ. fyrirkomulag hitaveitunnar. Eins og ég sagði, er þessi till. ekki flutt í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi málsins, heldur til þess, að fenginn sé hið skjótasta sérfræðingur, sem trúandi sé til að segja það rétta í þessu máli.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að sér hefði fundizt við 1. umr. málsins, að hann væri ekki hér í þingsalnum, heldur að hann væri kominn í einhverja ljónagryfju, eins og einn velþekktur spámaður forðum. En sannarlega var þetta ekkert annað en taugaóstyrkur hjá þessum hv. þm., því að svo var hann veikur fyrir. við þessa umr., að þegar ég var að segja um hann það mesta hól, sem ég get sagt um nokkurn mann, þá þoldi hann það ekki og bað hæstv. forseta um að hringja.

Ég get látið útrætt um þetta mál að sinni, en ég vildi fá það sérstaklega fram hjá hv. 4. þm. Reykv., hve mikil vinnulaun það eru, sem gert er ráð fyrir, að greidd verði í sambandi við hitaveltuna, og vildi ennfremur fá það skýrt fram hjá hv. þm., hvort hann áliti Reykjavíkurbæ vera það um megn að útvega þann ? 1/10 hluta lánsins, sem stungið er upp á, að Reykjavíkurbær sjái fyrir, með till. okkar alþýðuflokksmanna.