11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Emil Jónsson:

Í þeim umr., sem hér hafa farið fram í þessari d., hafa stefnurnar komið skýrt fram og verið farið ýtarlega út í málið. Ég skal ekki verða til þess að tefja það og ekki heldur minnast neitt á staðreyndir, sem náttúrlega tala sínu máli. En það, sem ég vil taka fram, er í fyrsta lagi, að talið er, samkv. áætlun um hitaveitu Rvíkur, að þurfa muni 300 sekúndulítra af vatni til þess að hita bæinn. Þegar boranirnar hófust á Reykjum í Mosfellssveit, vorið 1932 eða 1933, var heita vatnið 106 litrar á sekúndu, eða það vatnsmagn, sem því svarar. Nú eftir 5 ára starf hefir vatnsmagnið aukizt úr 106 lítrum upp í 170 lítra. Árangurinn af þessu 5 ára starfi er ekki meiri en þetta. Þar við bætist, að á síðastl. ári hefir þetta gengið mjög tregt. Þá er, eins og einn kunnur fræðimaður hefir haldið fram, ákaflega varhugavert að álykta, að menn geti fengið 350 lítra á sekúndu eða meira af heitu vatni. Þegar svo var farið að tala um það í sambandi við Hengilinn að mæla. hve mikið vatnsmagn væri þar, var engin tilraun gerð til þess að ákveða hve mikið vatn væri þarna eða á öðrum stöðum sambærilegum, þá renna á mann tvær grímur um að samþ. 7 millj. kr. lán til þessara framkvæmda, sem svona væru undirbúnar, og þegar þar við bætist, að ekki er til nema helmingur af því vatnsmagni, sem þarf til þess að hita upp bæinn. Þá þarf að afhuga, hvort hitaveitan myndi ekki verða 1 millj. kr. dýrari með þessari aðferð heldur en þyrfti að vera, ef unnt væri að virkja allt í einu. Enginn mundi hugsa sér tvöfalda leiðslu, ef ekki þyrfti vegna þessa.

Tvöfalda leiðslan myndi verða einni millj. kr. dýrari en ef unnt væri að virkja allt í einu. Væri ekki rétt að draga ályktun af þessum staðreyndum og athuga möguleika fyrir því að virkja allt í einu, en við meðferð málsins og lánsútvegun hefir alltaf mátt heyra á hv. 4. þm. Reykv., að hér væri engin ástæða til þess. En ég vil aðeins spyrja í þessu sambandi og biðja hv. 4. þm. Reykv. að svara því, hvort þeim sænska fræðimanni, er dvaldi hér í vikutíma, hafi verið meinað að fara til Krísuvíkur og athuga þann stað eða aðra slíka? Eða hafi ekki verið svo, — hvers vegna fór hann þá ekki þangað til þess að líta á þá? Því skoðaði hann — aðeins þann eina stað, sem hann hafði ekkert að gera á? Var þetta gert að yfirlögðu ráði hjá bæjarstjórn Reykjavíkur, eða átti að fela þá fyrir honum? Ég hefi grun um, að hann hafi ekki komið á þann stað, sem full ástæða og þörf væri að fá upplýsingar um. sem sé Krísuvík. Sé ekki þessi grunur minn réttur í alla staði, vona ég, að hv. 4. þm. Reykv. geti upplýsingar um það, þegar hann tekur til máls næst.

Hv. þm. Ísaf. spurði um, hve mikil vinnulaun verði greidd, og hve mikið komi til útborgunar þau 2 árin, sem nú koma til álita. Ekki er þess að vænta, að verkinn verði lokið á einu ári. Það hefir ekki komið greinilega fram, hve langan tíma það muni taka, og ef það skyldi vera svo mikill hluti lánsins, sem sumir óttast, sem liggur í innkaupum til fyrirtækisins, verður ekki borgað kaup með þeim peningum, en atvinnuleysið, sem hér er í bænum, myndi minnka.

Þá skal ég að lokum aðeins geta þess, að við hv. þm. Ísaf. og ég höfum gert till. um að takmarka ríkisábyrgðina við 90%. Það er engin ástæða til þess að ætla, að sú takmörkun valdi neinum drætti á framkvæmd verksins. eins og hv. 3. þm. Reykv. var hræddur um.

Þau 10% af upphæðinni, sem ríkið gengur ekki í ábyrgð fyrir, hafa þegar verið greidd. Þetta er nálega það fé, sem hefir verið eytt til kaupa á vatnsréttindum og til undirbúnings verkinu með borunum og öðru. Þó ekki sé sérstaklega gengið í ríkisábyrgð fyrir því fé, sem þegar hefir verið varið til verksins, er engin hætta á, að það stöðvi framgang þess. Það væri ekki úr vegi að tala hér frekar um það, sem ég drap á áðan viðvíkjandi undirbúningi þessa máls. En í stað þess að skýra þann undirbúning, og hvers vegna ekki hafa farið fram viðtækari rannsóknir, heldur borgarstjóri Reykjavíkur, hv. 4. þm. Reykv., ákaflega merkilega ræðu um þá ljónagryfju, sem hann hafi lent í hér við móttöku málsins hjá okkur. Það var eins og hann teldi, að ég væri móti málinu, úr því að ég vildi samþ. frv. með þeim takmörkunum, að ríkið gengi ekki í ábyrgð fyrir þeim hluta verksins, sem búið væri að vinna. Ég vil aðeins ítreka það. að ég vil alls ekki standa í vegi fyrir afgreiðslu málsins.

Ég ætla ekki að halda lengri ræðu að sinni. en tel æskilegt, að hv. 4. þm. Reykv. svaraði þeim tveim fyrirspurnum, sem ég hefi beint til hans um upphæð vinnulaunanna og hvers vegna Krísuvík hefir verið falin fyrir þeim fræðimanni, sem hingað var fenginn til að athuga undirbúninginn.