11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Pétur Halldórsson:

Ég ætla að vera stuttorður; rétt aðeins taka fram það helzta. Ég geri ekki ráð fyrir að ræða við hv. 7. landsk. um ljónagryfjuhugmyndir hans, en móttökurnar, sem þetta mál fékk við 1. umr. hjá form. fjhn., voru svo góðar, að það er algerlega ástæðulaust fyrir hv. þm. Ísaf., sem líka á sæti í n., að gefa þá hugmynd, sem hann gaf um afstöðu n. Og þó að hann væri persónulega á móti málinu, var samt ástæðulaust að snúast svona.

Hvað hv. 7. landsk. viðvikur, þá skal ég svara þeim fyrirspurnum, sem hann beindi til mín, nokkrum orðum. Því er þannig farið, að áætlað er, að helmingur lánsfjárins fari til vinnulauna innanlands. —- Hann upplýsti, að vatnsmagnið á Reykjum í Mosfellssveit hefði upphaflega verið 106 lítrar á sekúndu, en sé nú 170 lítrar. Af þeim 106 lítrum voru aðeins um 40 nothæfir. Auk þessara 106 lítra á sekúndu, sem mældir voru, áður en byrjað var að bora eftir vatni, hafa ca. 135 lítrar komið fram við borunina. Þetta heldur hv. 7. landsk., að geti ekki verið rétt, hann virðist reikna með því, að vatnið hafi allt verið nothæft. En nothæfa vatnsmagnið hefir í raun réttri aukizt frá 40 upp í 1 70 lítra á sekúndu.

Hv. 7. landsk. spurði, hvers vegna hinn sænski fræðimaður, er var hér, hefði ekki fengið að koma til Krísuvíkur. Ég vil svara því á þá leið, að sá fræðimaður, er fór héðan í morgun, kom til þess að athuga þær áætlanir um hitaveituna, sem fyrir liggja, og hann kom hingað eingöngu í því skyni. Bæjarstjórn Rvíkur hyggst að fara þá leið, að hagnýta það vatnsmagn, sem þegar er fyrir. En þegar á Reykjum hefir fengizt aukið vatnsmagn, verður að bæta við nýrri leiðslu. Þegar hv. 7. landsk. hélt því fram, að 10% af þessari upphæð næmu 350 þús. kr., sem þegar væri búið að verja til kaupa á landinu og til borana, er það ekki rétt. Hér er farið fram á ábyrgð fyrir 7 millj. kr. láni, og hin áðurnefnda upphæð er ekki nema 5% af þeirri upphæð. — Því fer fjarri, að hinum sænska fræðimanni hafi verið bannað að fara til Krísuvíkur, en það kom aldrei til tals, því að verkefni hans var ekki nema að segja álit sitt um þá áætlun, sem fyrir lá. Hengillinn verður ekki notaður fyrr en e. t. v. eftir 10–15 ár. Og á þeim tíma geta vel fundizt nógar nýjar vatnsæðar á Reykjum. Þar með vil ég ekki segja, að það þurfi önnur 12 ár þar til fullt vatnsmagn er fengið banda Rvík. Verði lánið bundið við 31/2 millj., eru 10% af því 350 þús. kr. eða nálega sem svarar þeirri upphæð, sem varið hefir verið til borana. En miklu hagkvæmara er að fá ábyrgðarheimildina í einu fyrir láninu öllu, án takmarkana, sem torvelda lánsútvegun. Enda hefir afgreiðsla lántökuheimilda fyrr sýnt, að þetta um skilyrðin, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á, að sett væru í brtt. hv. 7. landsk., verður að teljast allrar varúðar vert. Þau myndu hafa einhver óþægileg áhrif. Lánveitingin má ekki vera neinum skilyrðum bundin í sjálfu frv., enda er nóg, að þau séu tekin fram í grg. frv., þar sem stendur, að ráðh. sé heimilt, gegn þeim tryggingum, er metnar verða gildar til þess að takast á hendur þessa ábyrgð, að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán fyrir Reykjavíkurkaupstað til hitaveitu, allt að 6,3 millj. kr., eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.