11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Jakob Möller:

Ég vildi sérstaklega vekja athygli á því, að það er eitt atriði í brtt. þeirra hv. þm. Ísaf. og hv. 7. landsk. á þskj. 568, þar sem þeir fallast á að skerða ríkisábyrgðina, sem gæti orðið lántökunni til hindrunar. Ég minnist þess, að áður, þegar leitað hefir verið lántökuheimildar fyrir ríkissjóð, þá hefir verið varazt að set ja nokkuð inn í heimildina, nema það eitt. að heimila lántökuna. Maður getur búizt við, að ef nokkur aukaatriði eru sett inn í þetta frv. og samþ., geti það orðið hættulegt. Ef nokkuð hefir verið hæft í því, hver hætta slíkt sé, þá verður að fella brtt. Það er sjálfsagðara en svo, að um slíkt þurfi að fjölyrða. Ég vil því alvarlega vara við því að samþ. till. eins og hún er. — Ég skal ekki fara út í væringar milli flokkanna hér. Það er sjálfsagt eðlilegt, að þær hafi orðið nokkrar eftir þeirri afstöðu, sem tekin hefir verið til þessa máls í blöðunum. Blöð vinstri flokkanna hafa haldið því fram, að þetta fyrirtæki væri ekkert nema vitleysa, eins og undirbúningi þess væri háttað. Það má því heita kraftaverk, að flokkarnir skuli hafa áttað sig á því, að málið er komið vel á veg, og að þeir geta ekki beitt sér gegn því, þó að það hafi ekki gengið skruðningalaust fyrir þeim. Það þarf engan að furða á því. Það er dálítið erfitt að kingja í einu bæði Henglinum og Krísuvík.

Það var sagt í vetur, að fengið væri lán til rafveitu á Akureyri fyrir tilbeina ríkisins. Þessu var trúað, en var það þá rétt, að lánið væri raunverulega fengið? Nei, það fór alveg eins og fyrir Rvík, ennþá er verið að leita eftir því láni, og situr þá illa á þeim, sem að því standa, að vera með brigzlyrði í garð forgöngumanna þessa máls í Rvík. Það er því ekkert nema ósæmilegur málflutningur, að brigzla hv. 4. þm. Reykv. um óheilindi í þessu máli.