11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

Sveinbjörn Högnason:

Ummælum hv. flm., þegar hann talaði um ljónagryfju, mun hafa verið beint til ummæla þeirra, er ég lét falla við 1. umr. þessa máls. Hann þorir ekki að svara höfuðatriði fyrri ræðu mínnar. Ég gerði þá fyrirspurn til þess að fá málið upplýst. Áður en það var tekið fyrir í fjhn.. spurðist ég fyrir um, hvernig stæði á þeirri breyt., sem orðin væri frá því í vetur, þegar flokkur borgarstjórans og hans blöð voru búin að halda því sýknt og heilagt að almenningi í 3 ár, að ríkislántaka væri ómöguleg vegna fjármálastjórnar ríkisins, er þeir töldu, að væri búin að tapa öllu lánstrausti, en fjármálastjórn Rvíkurbæjar væri aftur á móti svo góð, að forráðamönnum bæjarins stæði lán til boða erlendis. En nú virðist þetta ekki aðeins breytt, heldur alveg snúið við. — Síðar spurði ég. hvort hann vildi gefa okkur skýringu á því. er hann var kominn heim, hvernig hann hefði fengið þá reynslu í langferð sinni, að ekki þýddi að leita láns nema hafa ríkisábyrgð. Í þriðja lagi vildi ég vita, hvaða ástæðu hann hefir til að gefa í skyn í grg. þessa frv., að nú sé meiri nauðsyn á ríkisábyrgð þessari eftir að frv. á þskj. 344, um lántökuheimild fyrir ríkissjóð er komið fram. Þessar þrjár fyrirspurnir mínar hafa orðið honum þau ljón á veginum, að hann hefir ekki þorað að svara mér þeim einu einasta orði ennþá. Ef honum þykir þau ljón svo hræðileg, getur hann huggað sig við það, að þau hafa fæðzt í hans eigin grg. fyrir þessu frv. og í hans eigin flokki og blöðum. Þessa getur hann minnzt um leið og hann kingir þeim.