18.02.1938
Neðri deild: 3. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Héðinn Valdimarsson:

Á síðasta þingi þegar þessi l. voru samþ., þá lofaði fjmrh. að sjá um, að byggingarsjóður verkamanna fengi aukin lán af þeim ástæðum. Það voru ekki nema 70 þús. kr., sem hann fékk á þann hátt, og svo 30 þús. kr., sem atvmrh. lofaði á sama hátt. En nú er það sýnilegt, að 100 þús. kr. til viðbótar því, sem fyrir er, er alveg ónógt. Það er komið svo nú, að byggingar eru stöðvaðar. Við höfum hingað til getað haldið áfram með 2 ári millibili, og er það alveg nauðsynlegt, því þar kemur bæði til greina húsnæðisþörf verkamanna og svo atvinnuleysi iðnaðarmanna og verkamanna í bænum, en það er mikið, eins og sjá má af atvinnuleysisskýrslunum. Þó að þar komi sérstaklega atvinna fyrir verkamenn, þá vil ég benda á, að atvinnuþörfin fyrir iðnaðarmenn er líka mikil, enda hefir byggingarfélagið hagað því svo til, að þeir hafa getað notið atvinnu við verkamannabústaðina á veturna, þegar minnst hefir verið að gera. Ef hægt væri að koma því svo fyrir áfram, þá væri atvinna sæmileg fyrir iðnaðarmenn af þeim ástæðum.

Við höfum sótt um 650–700 þús. kr. lán til byggingarsjóðsins, en í stjórn hans á 2. þm. Reykv. (JakM) sæti, en við höfum fengið það svar, að fé væri ekki fyrir hendi nægilegt í þessu skyni.

Nú liggur fyrir framan okkur frv., sem heldur áfram að svipta byggingarsjóðinn þeim tekjum, sem hann á að hafa eftir tilgangi l. og eftir samningum, sem gerðir hafa verið um þetta við Framsfl. Mér er ekki kunnugt um, að neitt hafi verið samið um þetta mál á milli stjórnarflokkanna nú. Það hefir a. m. k. ekki verið samið við þm. Alþfl. í Rvík, né fulltrúaráð verklýðsfélaganna, sem þeim málum stjórnar. Ég vil að lokum beina þeirri áskorun til Framsfl. og ráðh. hans, að ekki verði skilið svo við þetta þing, að ekki verði betur séð fyrir byggingarmálum bæjanna en gert hefir verið hingað til.