11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Pétur Halldórsson:

Mér finnst kenna nokkurs misskilnings á öllu þessu málefni hjá hæstv. ráðh., sem halda því fram, að í þessu tilfelli muni það vera jafnauðvelt að fá lán til fyrirtækisins í tvennu lagi eins og ef hægt væri að taka lánið í einu lagi með ábyrgð ríkissjóðs eða án hennar. Það getur verið, þegar einstaklingar byggja hús, að þá dugi venjulega að leggja eitthvað fram frá sjálfum sér og taka svo lán annarsstaðar. En þetta er bara ekki sambærilegt. Vill ekki hæstv. atvmrh. íhuga það. hvernig ríkinu myndi takast að koma upp síldarbræðslustöð fyrir 7 millj. kr., ef taka ætti lán til hennar á þennan hátt, að nokkur hluti lánsins sé með sérstökum tryggingum, en hinn hluti lánsins án þeirra. — Þegar um framkvæmdir í opinberar þarfir er að ræða, þá er ekki hægt að fara sömu leiðir í fjáröflun eins og farnar eru við hliðstæð mannvirki, sem eru ekki sambærileg að öðru leyti, vegna þess, hve þau eru ódýr. Því að það getur hæstv. ráðh. sagt sér sjálfur, að þess sé ekki að rænta, að Reykjavík liggi með fé í sjóði til þessa fyrirtækis; það verður vitanlega að afla alls stofnkostnaðarins með lánsfé.

Ríkið hefir að sjálfsögðu farið þá leið, sem hér er hugsuð, að fá lán í einu lagi með þeim tryggingum og kjörum, sem um semst, en ekki að deila þessu niður í fleiri smærri lán, því að það er óhentugra og getur verið ómögulegt. Nú heyrði ég líka á hæstv. fjmrh. allra siðast, að hann sagði, að eina ástæðan til þess, að hann óskar þess, að ekki sé veitt ríkisábyrgð fyrir meira en 4/5 stofnkostnaðar hitaveitunnar, komi til af því, að þessi regla hafi verið tekin upp áður í öðru tilfelli, sem er ósambærilegt við þetta. Ég verð að segja, að það er ekki séð fyrir um gagnið af því, að fá ríkisábyrgð fyrir aðeins nokkrum hluta af stofnkostnaði slíks fyrirtækis, því að ég á von á því, að það verði verulegir erfiðleikar samfara því, ef á að skipta láninu í fleiri hluti. Það er óhjákvæmileg afleiðing af því, ef ekki er hægt að bjóða sömu kjör fyrir allt lánsféð, sem til verksins þarf.

Ég verð því að líta svo á, að það sé mjög stórt atriði í þessu sambandi, hvort ríkisábyrgð fæst fyrir öllu lánsfénu, sem þarf til fyrirtækisins, eða aðeins nokkrum hluta þess. Ég tel, að ef hv. þdm. vilja styðja að því, að það megi takast að fá lán með þeirri aðstoð, sem hér er veitt með ríkisábyrgð, þá sé það ráð, að veita ríkisábyrgð fyrir öllu lánsfénu, en ekki nokkrum hluta þess. Ég verð fyrir mitt leyti að leggja hina mestu áherzlu á að fá ríkisábyrgð fyrir öllu lánsfénu, sem til fyrirtækisins þarf.