11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Garðar Þorsteínsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr. En út af því, sem hæstv. atvmrh. segir, þá virðist það vera lokað fyrir hæstv. stj., að það fé, sem fæst með þessu láni, er erlendur gjaldeyrir, sem vitanlega hlítir þeim reglum eins og annar erlendur gjaldeyrir, að vera undir stjórn bankanna og ríkisstj., þannig að það er, eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði, að sjálfsögðu rétt, að lán það, sem ríkisstj. — nú ætlar að taka, gæti að sjálfsögðu verið þeim mun minna sem þyrfti að nota minna af þeim erlenda gjaldeyri til þess að kaupa efni til hitaveitunnar.

Það er dálítið broslegt að heyra þessa hæstv. ráðh. vera með einhverja klígju við því að fá erlendan gjaldeyri, sem alltaf vantar hann og sífellt biðja um ný lán. Ég verð fyrir mitt leyti, þó að það komi þessu máli ekki sérstaklega við, en viðkomandi máli, sem hefir verið hér til umr., að segja, að ég hefi ekki minnstu tryggingu fyrir því, að sá ráðh., sem nú er fjmrh., noti ekki þá lántökuheimild, sem hann nú hefir farið fram á og fær, alveg án tillits til þess, hvort hann, vegna einhverra sérstakra atvika, fær meira af gjaldeyri heldur en hann gerir ráð fyrir. á sama hátt eins og þessi ráðh., sem er samkvæmt íslenzkum l. skuldbundinn til þess að skulda ekki Landsbankanum fyrir ríkisins hönd nema ákveðna upphæð, hefir gert sig sekan um að skulda þar upphæðir, sem hann hefir ekki leyfi til. Mér finnst það því dálítið einkennilegt. þegar þessi hæstv. ráðh. er að hneykslast yfir því, að þetta bæjarfélag vilji fá ábyrgð ríkissjóðs til þess að vera öruggt um, að það geti fengið þetta í gegn með sem beztum lánskjörum, — ráðh., sem er úr sama flokki og hv. þm. S.-Þ., sem hefir sagt í blaðagrein. að Englendingar vildu ekki lána hingað meira, af því að fjárhagur íslenzka ríkisins væri þannig, að það væri ekki forsvaranlegt, — þessi ráðh., sem hefir nú skrifað undir yfirlýsingu gagnvart Englandsbanka um það, að hann muni ekki taka frekari lán eða ganga í ábyrgðir án hans leyfis. Það er líka dálítið leiðinlegt að hlusta á, þegar hv. 1. þm. Rang. er að ráðast á borgarstjórann í Rvík og Sjálfstfl. hér á þingi fyrir hans afstöðu í þessu máli, þar sem hann tilheyrir flokki, sem hefir aðra eins fortið í þessu máli og Framsfl. hefir.