11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

Steingrímur Steinþórsson:

Ég get ekki lofað neinu um það að takmarka ræðutíma minn meira en það, sem þingsköp mæla fyrir. Þetta mál virðist dregið viljandi af Sjálfstfl. inn í pólitísk illindi samkv. þeim umræðum, sem fram hafa farið hér í deildinni í dag, fyrst og fremst af hálfu hv. 4. þm. Reykv., sem hélt framsöguræðu í málinu, og talaði þar um fjandskap stjórnarflokkanna gagnvart Reykjavík. Þessi hv. þm. Sjálfstfl. beinir andúð sinni gegn okkur, sem sæti eigum í fjhn., fyrir það, að við vildum ekki miða ríkisábyrgðina við hærra hundraðshlutfall en gert er við önnur hliðstæð fyrirtæki, og fyrir það að krefjast þess af hv. 8. landsk., að hann gerði skýra grein fyrir ástæðunum til svigurmæla sinna áðan. En þá eru umr. komnar á allt annan grundvöll en málið gefur tilefni til. Ég sé ekki að unnt sé að ráða af orðum þessara manna, að þeim sé þægð i, að þetta mál verði afgr. með samkomulagi. Ég skal nú halda áfram og benda á það, hve afskaplegur undirbúningur þessa máls er, og hve klaufalegt það er frá byrjun og illa með það farið af hendi Sjálfstfl. í Reykjavík.

Hér er um það að ræða, að ekki er til nothæft heitt vatn á Reykjum, nema til þess að hita upp hálfan Reykjavíkurbæ, samkvæmt þeim skýrslum, sem liggja fyrir, og að ríkið gangi í ábyrgð fyrir láni til hitaveitu, sem aðeins nægir til að hita upp hálfan bæinn, virðist vera að ýmsu leyti ullvarhugavert. Þetta er alveg eins og ef bankastjórnin vildi lána mér fé til að hita upp bæ, en þá væri heita vatnið ekki til, nema aðeins til að hita upp kjallarann. Hér er að ræða um mál, sem liggur alveg eins fyrir, eins og ef ekki væri til vatn, nema aðeins til að hita neðri hæðina í húsi. Ég býst ekki við, að neinar lánsstofnanir mundu fást til þess að veita lán til slíkra fyrirtækja. En Sjálfstfl. ætlast til þess, að Alþ. afgr. á hliðstæðum grundvelli 7 millj. kr. lánveiting á einum degi. Sjálfstæðismenn álíta þar á ofan, að Reykjavík eigi að fá að sitja við allt önnur kjör en önnur bæjarfélög landsins. Það er ósvífni á hæsta stigi, að þeir skuli fara fram á slíkt. Ég verð að segja það, að úr því að Reykjavík er ekki treystandi til að leggja fram ábyrgðarlaust 10–20% af fénu, þá eru það firn mikil, að þessir menn skuli tala eins og þeir gera um traustið á fjárhag ríkisins.

Hv. þm. veit hitt vel, að þó að einstaka fyrirtæki ríkisins hafi lent í vanskilum með vöruskuldir af gjaldeyrisástæðum, þá hefir líka af svipuðum ástæðum orðið greiðslufall hjá einstöku bæjarfélögum. Það getur verið álitamál, hvort unnt sé að telja ríki og bæjum slíkt til ámælis. En hitt ætla ég að segja þessum hv. þm., sem hann raunar veit mjög vel, að þótt önnur bæjarfélög séu illa stæð, eins og hann segir, þá myndi fyrir löngu hafa orðið greiðslufall hjá Reykjavík, ef hún hefði ekki átt meiri aðgang að bönkunum en önnur bæjarfélög. Þetta er ekki sagt til þess að rýra álit Reykjavíkurbæjar, heldur til þess að sýna hvernig sjálfstæðismenn leyfa sér að haga málflutningi sínum. Bærinn myndi fyrir löngu hafa neyðzt til að grípa til svipaðra úrræða sem Ísafjörður og Hafnarfjörður, ef hann hefði ekki átt meiri aðgang að bönkunum en þeir. Það hefir sannarlega ekki staðið á okkur framsóknarmönnum að taka ákveðna afstöðu í þessu máli, og við munum fylgja því jafnt, hvað sem hrópyrðum sjálfstæðismanna líður. Ég ætla ekki að eltast við þau eða ræða að sinni um undirbúning Sjálfstfl. á þessu máli, en ef þá langar til að skattyrðast, mun ég eiga eftir eina ræðu enn.