11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Garðar Þorsteinsson:

Það er bara út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði ekki notað langan tíma. Ég skal ekki neita því. En það er afarskiljanlegt, þegar hann hefir við hægri hlið hv. 1. þm. Rang. og við vinstri hv. þm. Ísaf. En ég vil segja bv. 1. þm. Rang. það, að enginn þm. hér, hvorki við þessar umr. né fyrr, hefir fyrir því að svara honum efnislega. Þeir vísa honum frá, af því að hann er alltaf með dylgjur og skæting án þess nokkurn tíma að ræða efnislega um málið. Og hann veit það sjálfur og hæstv. fjmrh. og öll d., að það er þessi flokksbróðir ráðh., sem hefir leitt þennan tón inn í umr., sem hann kvartaði yfir. — Nú stendur svo á, að mínir flokksmenn hafa ámælt mér fyrir, að ég einu sinni fyrir nokkrum árum hafi verið svo heimskur að mæla með því, að þessi hv. þm. yrði dósent við háskólann. Ég segi, að ég harma það ekki, að ég skyldi gera það. En ég harma það, að þetta skyldi ekki takast, því að slíkur maður sómdi sér vel við hlið Sigurðar Einarssonar og væri betur þangað kominn.

Svo vil ég segja hæstv. ráðh. það, að þegar hann er að tala um ábyrgð ríkissjóðs, þá er eins og hann tali frá flokkslegu sjónarmiði. Hann má vita það, að ábyrgð ríkissjóðs er ekki takmörkuð við ábyrgð framsóknarflokksmanna, heldur og sjálfstæðismanna, og Sjálfstfl. hefir fullt málfrelsi. Og ennfremur vil ég segja honum það, þar sem hann heldur fram hér og hefir oft gert, að ef Sjálfstfl. væri við völd, þá hefði þurft að taka það lán, sem hann nýlega bar fram, og öll önnur sem hann hefir tekið, að þetta veit hann ekki. Því að hann hefir aldrei í sinni stjórnartíð reynt neinar aðrar leiðir en gjaldeyrishömlur og innflutningshöft. Hann er blindur fyrir öllum öðrum leiðum. Hann má vita það, að ýmsar aðrar leiðir eru hugsanlegar til að leysa okkar vandræði heldur en gjaldeyrishömlur. (Forseti: Þá er ræðutímanum lokið). Ráðh. hefir alltaf farið þessa einu leið, sem öllum ber saman um, að leiðir til ranglætis og misréttis gagnvart þeim, sem við gjaldeyrisörðugleikana eiga að stríða.