11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 6. þm. Reykv. var að svara mér nokkuð í sinni ræðu og sagði, að Reykjavík værri ekki neitt upp á það komin að fá ríkisábyrgð, hún gæti vitanlega fengið lán án ríkisábyrgðar. Hvers vegna er þá verið að fara fram á þetta? því getur hver trúað. sem vill, en ég trúi því ekki, að Sjálfstfl. sé að gera að gamni sínu, eftirlit, sem á undan var gengið, með því að koma með þetta frv. Ég veit, að þess er full nauðsyn, og það er meiri trygging, að lán fáist með því móti. Og þá stendur ekki á okkur að verða við því að styðja þessar framkvæmdir. Mér þykja þessi ummæli hv. 6. þm. Reykv. einkennileg. En í næsta orði segir hann, að ekki hafi tekizt að fá lán vegna þess, að svo mikið óálit sé á ríkinu. þess vegna sé ekki hægt að fá lán án ríkisábyrgðar. M. ö. o., það sé ekki hægt að fá lán erlendis án ríkisábyrgðar, vegna þess að menn áliti, að íslenzka þjóðin standi varla í skilum. Þetta er nú röksemdafærsla hv. þm., og held ég, að hann ætti að fá 5 mínútur, en ekki 2, til að skýra út annað eins og þetta. (SKr: Ætli ráðh. fái ekki nóg af 2!) Ég vænti þess, að það sé ekki meining hv. þm. að koma hér og biðja um ríkisábyrgð fyrir láni til þess að minnka líkurnar til, að lánið fengist. Því að ef nokkur heil brú er í þessum ræðuböldum, virðast það einna helztu fjörráðin við þetta mál, að veita ríkisábyrgðina. Og svo bölvað sem það hlýtur að vera fyrir einstakling að fá lán, þá hlýtur það að vera, eftir röksemdum hv. þm., ennþá verra, ef ríkið að einhverju leyti er bendlað við það. Nei, þetta er aumur skrípaleikur hjá þm., sem betur hefði verið óleikinn.

Það hefir verið sagt, að það stafaði af hörmulegu fjárhagsástandi ríkisins, hversu þetta mál hefir tafizt. En af hvaða hörmulegu ástandi tafðist Sogsvirkjunin, ekki um nokkra mánuði, heldur svo árum skipti frá því að farið var að leita fyrir sér fyrst? Það er sá sorglegi sannleikur í þessu máli, að ýmsir hafa reynt að fá einhverjum flokkshagsmunum fullnægt með því heldur en að hægt væri að leysa málið sjálft sem fyrst. Þess vegna var það, sem Sjálfstfl. tók þá leið illu heilli, að starfa ekki í samráði við neinn um þetta mál, heldur pota því áfram einn, og það með þeim árangri, sem kunnur er. Það er sennilega þess vegna, sem tafir hafa orðið á því, að svo miklu leyti, sem tímabært er enn að tala um tafir í jafnmiklu stórmáli, ekki lengra en er síðan það kom á vettvang. En ástæðan til þess, að Sjálfstfl. ætlaði þessa leið í málinu. var engin önnur en sú, að þeir bjuggust við. að þetta myndi ganga, og ætluðu að koma á eftir sem stórir menn og segja: Hér erum við; við gátum fengið lán, en ríkið ekki. Það átti að nota þessar framkvæmdir til að minnka álit á íslenzka ríkinu. Að ég ekki fer hér með tómar fullyrðingar, sést bezt á því, hvernig blöð flokksins skrifuðu um málið, þegar þau héldu, að lánið væri fengið.