11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af síðustu orðum hv. þm. vil ég taka það fram, að gagnrýni mín var í þá átt, að samkv. viðtali hans við blöðin, eftir að hann kom heim, skildist mér, að hann hefði ekki einungis leitað eftir láni, heldur líka gengið frá því af sinni hálfu, að lánið yrði tekið, og ég er sannfærður um, að hann hefir verið kominn svo langt í þeim umleitunum áður en nokkrar umr. höfðu orðið um málið í bæjarstj.

Það er eðlilegt, að hv. þm. reyni að skýra það frá sinni hlið, hvernig stendur á því, að ríkisábyrgð er nauðsynleg nú, en ekki áður, en ég vil benda á, að gjaldeyrisvandræði okkar voru vel kunn hlutaðeigendum, meðan verið var að leita eftir láni án ríkisábyrgðar, svo að nýtt gjaldeyrislán getur engu breytt, því að það er gert ráð fyrir því í grg., að bæjarfélög séu jafnvel sett um gjaldeyri og önnur fyrirtæki. Við vitum vel, að það hefir verið krafizt ríkisábyrgðar á hliðstæðum fyrirtækjum áður, svo að enginn býsnast yfir því. Akureyri gekk a. m. k. illa að fá lán án ríkisábyrgðar, þegar hún reyndi það. Og við vissum, að það þurfti ríkisábyrgð fyrir Sogsláninu. Þess vegna tel ég það í raun og veru ástæðulaust, að vera að metast á um það, hvers vegna það muni vera varlegra að hafa ríkisábyrgð fyrir þessu láni. Við vitum, að það er þörf á því, og á því byggist þetta frv. Það er því ekki hafandi að neinu, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan um þetta efni. Þetta mál er hvort sem er ekki flutt aðeins til skemmtunar, heldur af því, að þörf er á því. Ef haus ummæli áðan væru rétt, þá nægði að flytja frv. um, að það ætti að yfirfæra af þessu láni jafnt og af ríkislánum. En það hefir ekki verið talið nægilegt. Ég kann því hálfilla við þau ummæli, sem um þetta hafa fallið bæði hér á Alþ. og utan þings af hálfu þeirra, sem að þessari lántöku standa, um fjárhagsafkomu þjóðarinnar í heild sinni, á sama tíma og þeir biðja um ríkisábyrgð fyrir þessu láni. Það er líkt eins og t. d., að maður kæmi til annars manns og segir: Við þurfum að fá skrifað upp á þennan víxil, þú værir kannske fáanlegur til þess, en það er ekki þar fyrir, að það er vitað, að þú ert þekktur að vanskilum og lánstraustsleysi.

Við vitum, að íslenzka þjóðin er í vandræðum með að greiða vörur þær, sem hún þarf nú á að halda. Valda því utanaðkomandi örðugleikar, eins og það, að nú höfum við þriðja aflaleysisárið í röð, og einnig hefir saltfisksmarkaður okkar dregizt mjög saman. Samkeppnisþjóð okkar, Norðmenn, borga nú 32 kr. á hvert skippund til þess að fá markað fyrir sinn fisk. Þegar þetta ástand er notað til þess að mála það sem allra svartast fyrir augum ókunnugra, þá verð ég að segja, að mér finnst það mjög óviðkunnanlegt, af því að ég veit, að við trúum því allir undir niðri, að þjóðin sé fær um að standa undir sínum skuldbindingum, og ekkert bendir til annars, hvernig sem okkur tekst að fljóta yfir örðugleika yfirstandandi tíma. Og hvers vegna á þá að reyna að gera hver öðrum skaða með því að halda öðru fram?