12.05.1938
Efri deild: 77. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

Brynjólfur Bjarnason:

Ég mun greiða atkv. á móti þessari brtt., sem hv. 11 landsk. ber hér fram, vegna þess að ég vil, að það verði a. m. k. ekki hægt að kenna því um, að það, að binda ábyrgðina við 90°ó, en ekki 100% lánsins, verði til þess að tefja fyrir skjótri framkvæmd lántökunnar. Ég get ekki fallizt á þær röksemdir hæstv. forsrh., að hér sé um óréttlæti að ræða gagnvart öðrum landshlutum, og þá fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að hér er um mál að ræða, sem ég held í fyrsta lagi, að allir séu nokkurnveginn sammála um, að ekki feli í sér neina áhættu, og auk þess er ekki aðeins hagsmunamál Reykjavíkurbæjar, heldur allra landsbúa, bæði að því er snertir aukna atvinnu, sem þessum framkvæmdum fylgir, og eins er þetta stórvægilegt mál fyrir gjaldeyrisástandið í landinu. Það getur vitaskuld ekki orðið á neinn hátt til þess að tefja fyrir því, að t. d. Vestmannaeyingar fái sína rafveitu eða að Akurnesingar fái sitt vatn, þó að þessi ríkisábyrgð væri miðuð við 100% lánsupphæðarinnar, og ég get þess vegna með engu móti skilið, að það mundi særa réttlætistilfinningu neins, heldur þvert á móti hygg ég, að þetta fyrirtæki sé svo mikið hagsmunamál fyrir landið í heild sinni, að það mundu allir vera sammála um, að ekki bæri að gera neitt, sem gæti orðið á neinn hátt til þess að tefja fyrir framkvæmd málsins.