23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Einar Olgeirsson:

Við hv. 5. landsk. eigum brtt. um það, að 3. liður í 1. gr. frv. falli burt. 3. liður í þessu frv. fjallar um, að þær tekjur, sem ríkið hefir af einkasölu á tóbaki skuli renna í ríkissjóð. Ég býst nú við, að það sé nauðsynlegt sem oftar að rifja upp fyrir hv. þm., hvernig þessi lög voru upphaflega sett og hver hafi verið tilgangurinn með setningu bæði þessara laga um einkasölu á tóbaki og eins laga um verkamannabústaði. Þegar lög um verkamannabústaði voru upphaflega sett, þótti það mjög nauðsynlegt, að hægt væri að byggja í landinu við hæfi alþýðunnar. Það voru hvað eftir annað sett í gegn l. á þeim árum, sem áttu að tryggja landsmönnum viðunanlegar íbúðir. Það var sett í slík l. bann gegn því að nota kjallaraíbúðir, a.m.k. þær, sem óheilnæmastar eru og mikið undir jörðu. Nú hefir reyndin orðið sú um þá lagasetningu, að þessi l. hafa tiltölulega að litlu leyti verið framkvæmd. Frá því að kjallaraíbúðalögin voru sett hefir þeim íbúðum fjölgað mjög mikið. Og ákvæðunum um, að ágóði af tóbakseinkasölunni renni til að greiða fyrir, að hægt sé að reisa verkamannahústaði, hefir ekki verið framfyIgt, heldur hafa þau verið numin úr gildi síðustu 5 árin eða svo. Ég ætla nú að lesa upp úr l. um tóbakseinkasöluna frá 8. sept. 1931 þá gr., sem tiltekur, hvert tekjur hennar skuli renna, 14. gr. Hún hljóðar svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Tekjum ríkissjóðs samkv. lögum þessum skal verja þannig:

Helmingur teknanna skal renna til byggingarsjóða samkv. lögum nr. 45 1929, um verkamannabústaði, og skiptist á helmingur milli byggingarsjóðanna að tiltölu við ríkissjóðstillagið til þeirra. Hinn helmingurínn rennur til byggingar- og landnámssjóðs samkv. lögum nr. 35 1928.“

Með þessum l. er svo mælt fyrir, að allar tekjur tóbakseinkasölunnar skuli renna til byggingarsjóða, helmingurinn til byggingarsjóðs kaupstaða og helmingurinn til byggingar- og landnámssjóðs. Nú eru tekjur tóbakseinkasölunnar fyrir árið 1939 áætlaðar 600000 kr. Það þýðir, að það, sem ætti að renna af þessum tekjum til byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna til þess að byggja verkamannabústaði fyrir, ætti að vera 300000 kr. samkv. þessum 1. Hinsvegar er í fjárlagafrv., sem liggur fyrir þinginu, aðeins gert ráð fyrir, að 30000 kr. renni til byggingarsjóða þessara. Það á sem sé að taka 270000 kr. af því, sem l. upphaflega gera ráð fyrir að renni til verkamannabústaða, og taka það sem eyðslufé í ríkissjóð.

Þegar tóbakseinkasölulögin voru sett, þá voru samningar gerðir um það milli Alþfl. og Framsfl., að tekjur þessarar verzlunar skyldu renna til þessara fyrirtækja, byggingarsjóða kaupstaða og kauptúna og byggingar- og landnámssjóðs. Og ríkisstj. hefir viðurkennt á undanförnum árum, að það væri neyðarúrræði að breyta þessum lagaákvæðum. Þess vegna hefir ríkisstj., a. m. k. á undanförnum árum, hlutazt til þess, að fé upp í einhvern hluta af því, sem upphaflega var ætlazt til, að byggingarsjóðirnir fengju, væri hægt að fá að láni, svo að hægt væri að halda áfram byggingu verkamannabústaða, hér í Reykjavík a. m. k., nokkurnveginn eins og ef þessar tekjur af tóbakseinkasölunni hefðu runnið til þessara sjóða, sem upphaflega var til ætlazt. Mismunurinn lá í því, að í staðinn fyrir að sjóðurinn fengi þetta sem eign, þá hefir ríkisstj. hlutazt til um, að þetta fengist sem lán. En nú virðist, eftir því, sem fyrir liggur, ekki einu sinni hafa verið séð fyrir þessu. Það hefir venjulega verið annaðhvert ár hér í Reykjavík hafizt handa um byggingu verkamannabústaða. Og nú á árinu 1938 hefði átt að gera það, svo framarlega sem allt hefði verið með felldu. Og við umr. fjárl. á síðasta þingi og nú við umr. um þetta frv. (bandorminn), sem hér liggur fyrir, þá hefir það legið sérstaklega fyrir, að það horfði illa um byggingu verkamannabústaða, ef ekki væri séð fyrir þessum styrk þeim til handa.

Nú virðist það vera að koma á daginn, að ekki verði hægt að byggja neina verkamannabústaði í sumar; ekki nema knúð verði fram einhver breyting á þessu. En það hafa ekkí komið fram frá hæstv. ríkisstj. neinar yfirlýsingar um, að slíkt verði gert. Nú er það vitanlegt, ef á að halda því sama áfram 1939 — og allt útlit er fyrir, að þá muni verða verri afkoma heldur en í ár —, að þá muni ástandið verða enn verra hvað þetta snertir en í ár. Ég álit, að ekki megi svo búið standa, að framkvæmd þessara l. sé alltaf frestað og þannig nokkurnveginn girt fyrir, að hægt sé að halda áfram að byggja verkamannabústaði. Þess vegna höfum við borið fram þessa till. um, að tekjum tóbakseinkasölunnar verði varið, a. m. k. hvað snertir byggingarsjóð kaupstaða og kauptúna, eftir því, sem til var ætlazt í fyrstu; því að það er þó heldur betur séð fyrir þörfum byggingar- og landnámssjóðs í fjárl. heldur en þörfum byggingarsjóðs verkamannabústaða. Það er ekki neitt, að svona till. séu fluttar hér á Alþ. Árið 1933 t. d. munu af hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Seyðf. hafa verið fluttar till. í sömu átt. Ég vil vona, og sérstaklega með tilliti til þess slæma útlits um byggingar, sérstaklega hér í Reykjavík, að hv. þm. sjái möguleika á því að samþ. þessa brtt. okkar og með því tryggja, að verkamannabústaðirnir fái á næsta ári það framlag, sem þeim ber samkv. 1. Hinsvegar vil ég taka það fram, að með því er ekki séð fyrir byggingu verkamannabústaða í ár. Til þess þarf aðrar ráðstafanir heldur en þessar.