05.04.1938
Neðri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

Afgreiðsla þingmála

Sigurður Kristjánsson:

Ég sé, að form. sjútvn. er hér ekki viðstaddur, en hann hefði sjálfsagt getað upplýst, hvernig líður frv. um atvinnu við siglingar á ísl. skipum. Það er nú svo, eins og hv. þm. vita, að þetta er mjög yfirgripsmikið mál, og n. sá sér því ekki annað fært en að senda það til umsagnar nokkuð margra, sem allt eru aðiljar málsins. Það hefir dregizt nokkuð fyrir sumum að svara, en svörin munu nú öll komin, og á fundi n. í morgun var málið einmitt til umr., þó það fengi ekki fullnaðarafgreiðslu í það skipti. Ég kunni betur við, að einhver grg. kæmi um þetta frá n.

Það er nú farið að lýsa hér eftir málum, og mér finnst það ekki nema eðlilegt. Það hafa vissulega ekki verið svo langvarandi störf eða þreytandi á reglulegum fundum á þessu þingi, að n. ættu að geta verið búnar að gera málum sínum sæmileg skil, a. m. k. þeim málum, sem ekki þarf að leita um upplýsinga, sem eru torfáanlegar.

Ég lýsti hér eftir einu litlu frv. fyrir nokkru síðan, um breyt. á tekjuskattslögunum, sem ég lagði fyrir d. strax í þingbyrjun. Forseti beindi þá mjög eindreginni ósk til n. um að afgr. málið, sem skylt er, en það er sýnilegt, að n. hefir enn sofnað á málinu. Ég vildi nú biðja hæstv. forseta, þó það sé þreytandi, að reyna nú að stjaka við þessari n. aftur.