12.05.1938
Sameinað þing: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

Afgreiðsla þingmála

Finnur Jónsson:

Þó að þetta mál sé ekki til umr., þá get ég ekki látið hjá líða að svara því örlítið, þegar ráðizt hefir verið á síldarútvegsnefnd með mjög óþinglegum orðum. Það er sérstaklega hv. þm. Borgf., sem ég þarf að svara, en hann hóf mál sitt á því, að síldarútvegsnefnd hefði tekið útgerðarmenn við Faxaflóa einhverjum sérstökum fantabrögðum. Nú er það vitanlegt, að þau fáu ár, sem síldarútvegsnefnd hefir starfað, hefir verið gert miklu meira að því að efla síldveiðar við Faxaflóa heldur en nokkurn tíma áður. Það hefir verið vitað frá 1880 eða jafnvel lengur, að síld hefir verið hér í Faxaflóa. En þó menn hafi vitað þetta, þá hafa hvorki verið gerðar verulegar veiðitilraunir, þar sem síldveiði hefir ekki verið stunduð öðruvísi en í reknet, né heldur gerðar neinar tilraunir til þess að flytja út saltaða síld þaðan fyrr en síldarútvegsnefnd hafði forgöngu um það. Síldarútvegsnefnd hefir á síðastl. 3 árum varið milli 10 og 100 þús. kr. í veiðitilraunir hér við Faxaflóa og í það að reyna að gera Faxaflóasíld að útgengilegri vöru. Það er m. ö. o. fyrst að tilraunir eru gerðar til þess að gera Faxaflóasíld að útgengilegri vöru eftir að nefndin tekur til starfa. Hv. þm. Borgf., sem nú er úrillur og svefnlaus eftir tvær vökunætur, hefir haft þau ummæli hér, sem ég skoða fyrir neðan virðingu mína að svara, því þegar æðisköstin grípa þennan hv. þm., þá veit hann bókstaflega ekki. hvað hann segir. Að skilja þetta er sama og að fyrirgefa honum það.

Í fyrra sumar seldi síldarútvegsnefnd fyrir síldarútgerðarmenn við Faxaflóa 3000 tunnur af Faxasíld, en vegna verkfalls á Akranesi og ekki síður vegna þess, að engin síldveiði var í Faxaflóa síðari hluta fyrra sumars, og ennfremur vegna óveðra, sem voru á þeim tíma, þá fengust ekki nema rúmlega 200 tunnur upp í þessar 3000, sem nefndin var búin að leyfa. Það er í samræmi við rök og æsing þessa hv. þm., ef hann kennir n. um veiðibrest og óveður í Faxaflóa í fyrrasumar.

Hann sagði líka, að það hefði verið bannað gersamlega að salta síld á ýmsum höfnum við Húnaflóa. Ef hv. þm. hefði sagt þetta í nótt, þá hefði ég haldið, að hann væri að tala upp úr svefni, en þar sem hann segir þetta um hábjartan dag og þetta eru rakalaus ósannindi, þá verð ég að halda, að hann segi þetta af því hann veit ekki betur. Það er engin höfn við Húnaflóa, þar sem bannað er að salta síld. Hitt er svo annað mál, að á öllum stöðunum er það ákveðið hámark, sem salta má. Þetta hámark er sett á stöðunum af því, að það eru orðnar svo margar síldarsöltunarstöðvar, að það væru margar, sem fengju ef til vill ekkert að gera, ef hámark væri ekki sett. En þó er hámarkið svo rúmt, að engin söltunarstöð við Húnaflóa hefir saltað líkt því eins mikið og hún hefir mátt á síðasta ári.

Ég sé, að hæstv. forseti er orðinn óþolinmóður, og skal ég því reyna að stytta mál mitt. Ég get þó ekki látið hjá líða að segja það út af till. hv. þm. A.- Húnv. og hv. 2. þm. Skagf., að við Skagafjörð hefir á Sauðárkróki verið leyfð matjessíldarsöltun öll þessi ár, en þeir, sem hafa stöðina á Sauðárkróki, hafa ekki kært sig um að nota það leyfi. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gæta þess, að þetta mál er ekki til umr.). En ég verð að svara árásum, sem bornar hafa verið á mig, þar sem hv. þm. Borgf. hefir talað um, að síldarútvegsnefnd hafi sýnt sérstökum stöðum einhver fantabrögð og haft um þetta óviðurkvæmileg orð, sem hafa verið óátalin af hæstv. forseta.

Um Skagaströnd er það að segja, að hún hefir ekki notað líkt því það leyfi, sem hún hafði á síðasta sumri. Það félag, sem ég veiti forstöðu, hefir haft leyfi að einum þriðja á Skagaströnd, og ég get sagt það um okkur, að við höfum ekki minnsta áhuga fyrir því að fá leyfi það áfram, og get ég rökstutt það nánar síðar.