12.05.1938
Sameinað þing: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

Afgreiðsla þingmála

Finnur Jónsson:

Ég skal ekki nota þessa aths., sem hæstv. forseti hefir leyft mér að gera, til að fara að skattyrðast við hv. þm. Borgf., sem eins og oft áður sýndi sitt stóra skap.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði um söltunarleyfin, skal ég segja það, að þau hafa ekki verið uppfyllt tvö seinustu árin vegna þess, að síldveiði hefir yfirleitt brugðizt á Húnaflóa. Síldin hefir aðeins staðið þar við um stuttan tíma, og síldarútvegsn. getur því ekki gert að því, þótt verstöðvarnar við Húnaflóa hafi ekki uppfyllt síldarleyfi sín. Má vera, að hv. þm. hafi verið svo upptekinn af sínum heyskap, að hann hafi ekki haft tíma til að spyrjast almennilega fyrir um, hvernig í þessu lægi, en þá á hann ekki heldur að vera að kasta svona staðhæfingum fram. Þegar hann taldi upp staðina, sem bönnuð væri á matjessíldarsöltun, nefndi hann þar á meðal Sauðárkrók. Ég get upplýst, að þar hefir verið leyft að salta matjessíld síðustu árin, en útgerðarmenn þar hafa ekki kært sig um það.

Mín skoðun er sú, að bezt sé að salta Húnaflóasíld fyrir Svíþjóðar-markað, og segi ég það bæði sem forstjóri fyrir útgerðarfyrirtæki og sem síldarsaltandi.

Ég ætla ekki að svara hv. þm. Borgf., en sem dæmi um, hve mikil markleysa þessar árásir hans á síldarútvegsn. eru, vil ég geta þess, að þrátt fyrir allan gauragang, sem gerður hefir verið um hana, var hún öll endurkosin á síðasta Alþ., og tel ég það beztu sönnunina, og um hana munu öll ummæli þessa hv. þm. um síldarútvegsn. falla. Skal ég svo ekki frekar svara þeirri ræðu sem hv. þm. hélt og ekki var Alþ. samboðin, þótt hún væri honum sjálfum fullkomlega samboðin.