02.03.1938
Neðri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Ólafur Thors:

Ég vil leyfa mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. forsrh. Eins og honum mun vera kunnugt. hefir nú á seinustu dögum breiðzt út orðrómur um það, að til mála hafi komið á milli stjórnarflokkanna að fresta Alþingi að þessu sinni. Þetta er nú sagt stafa af því, að Alþfl. telji sig eiga mjög örðuga aðstöðu um að taka afstöðu til nokkurra þeirra mála hér á Alþingi, sem orka kunni tvímælis um, að nytu fullra og óskiptra vinsælda meðal kjósenda flokksins, vegna þess, að í haust stendur til að halda alþýðusambandsþing. Eins og kunnugt er, stendur nú mjög hörð deila innan þess flokks milli eins af fyrrv. foringjum flokksins, Héðins Valdimarssonar, og unnara fyrri flokksbræðra hans hér á Alþingi og utan þings. En það er sagt, að Framsfl. hafi, af ekki óeðlilegri ástæðu, nokkra tilhneigingu til þess að forða sínum núv. samherjum, þingfl. Alþfl., þeim sem nú teljast til hans, frá öllum þeim vandræðum, sem kann að leiða af slíkri málefnalegri aðstöðu hér á Alþingi að þessu sinni, og þess vegna hafi þetta komið til mála. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort nokkuð sé hæft í þessu; sjálfur veit ég engar sönnur á því og fullyrði ekkert, en ef þetta á við rök að styðjast að einhverju leyti, þá vil ég leyfa mér — og ég tala þá fyrir munn sjálfstæðismanna — að beina þeirri áskorun til hæstv. stjórnar, að slík ákvörðun sé tekin strax og þingið þegar í stað sent heim. Það liggur í hlutarins eðli, að það er ekkert annað en að auka kostnað ríkissjóðs, án þess að auka gagnsemi af alþingisstörfum, þó að þingið eigi langa setu, ef störfin verða eins og þau hafa verið fram að þessu. Ef nú hinsvegar þetta á við engin rök að styðjast, þá vil ég samt sem áður leyfa mér að beina áfram máli mínu til hæstv. forsrh. og láta í ljós þá skoðun. að eftir að opinberleg, hefir verið tilkynnt, að miðstjórn Framsfl. hefir einróma óskað eftir áframhaldandi samvinnu við Alþfl-. því þykir a. m. k. okkur sjálfstæðismönnum, og sjálfsagt mörgum öðrum, það augljóst orðið, að ekki verður að þessu sinni framkvæmdur neinn verulegur niðurskurður á útgjaldalið fjárlaganna. Það mun vera nokkurnveginn ágreiningslaust álit bæði framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, og áreiðanlega líka bændaflokksmanna, hvað sem liður öðrum, að slíkur nauðsynlegur niðurskurður verði aldrei framkvæmdur í samstarfi við jafnaðarmenn og konunúnist,. Ef það er nú svo, að menn megi ekki gera sér vonir um neinar stórvægilegar breyt. á fjárl., og ef hinsvegar einnig má ráða af líkum, að Framsfl. hefir ekki aðstöðu til að koma í gegn á Alþingi þeim áhugamálum, sem hann kann annars að hafa á döfinni, sem mætti kenna misjöfnum undirtektum hjá flokksmönnum Alþfl. utan þings, þá sýnist mér, að það hljóti að vera auðvelt að ljúka störfum að þessu sinni á langtum styttri tíma en verið hefir. Það muna allir hv. þm., að fjvn. Alþingis sat margar vikur yfir fjárlfrv. bæði síðastl. vor og aftur síðastl. haust og gekk frá fjárl. nú undir áramótin. Hitt er á allra vitund, að fjvn. kom að þessu sinni saman tæpum fjórum vikum fyrir samkomudag Alþingis. og hefir þannig nú þegar setið að störfum í sex vikur. Þegar nú þess er gætt, að nýlega er búið að ganga frá fjárl. og viðhorfið í engum aðalatriðum breytzt neitt frá þeim tíma, að gengið var frá fjárl., hljóta allir hv. þm. að viðurkenna, að engin ástæða sé til, að Alþingi eigi margra mánaða setu. Fjvn. hefir setið. samkv. gömlum og úreltum venjum, við athuga fjárl., sem þó oftast endar á því, að a. m. k. fær minni hl. engu ráðið um afgreiðslu fjárl.

Ég skal þá að lokum endurtaka fyrirspurn mína. Sný ég mér fyrst og fremst að því, hvort nokkuð sé hæft í því, að eigi að fresta þinginu, og ef svo er, leyfi ég mér að skora á hæstv. forsrh. að taka ákvörðun um það nú þegar. En hafi hinsvegar engar bollaleggingar verið um að fresta þinginu. þá leyfi ég mér að beina því til hæstv. ríkisstj.. hvort það sé ekki hægt að ljúka þinginu að þessu sinni í þessum mánuði. Það liggur ekkert fyrir þinginu af miklum málum enn sem komið er, nema vinnulöggjöfin. Með því að ljúka þinginu í þessum mánuði mætti spara um 120–150 þús. kr., án þess að þingið missti nokkuð af gagnsemi og virðingu sinni. Og ég held, hvað sem öðru líður, að það yrði a. m. k. ekki óráð af Alþingi að ganga fljótt og skjótt frá málum, ekki stærri mál en virðast vera á döfinni.