23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Haraldur Guðmundsson:

Út af ræðu hv. 5. þm. Reykv. viðvíkjandi framlaginu til byggingarsjóðs verkamannabústaða finnst mér rétt að gefa nokkrar upplýsingar.

Ég teldi mjög æskilegt, að hægt væri að hækka tillagið til verkamannabústaða meira en um þær 50 þús. kr., sem samþ. var hér við 2. umr. fjárl. En ég játa á því ýmsa örðugleika, eins og hæstv. fjmrh. hefir réttilega bent á. En eins og sakir standa er það, sem sjóðnum ríður mest á, nú í bili a. m. k., til þess að geta haldið áfram þessari starfsemi sinni, ennþá meira en þessum styrk, að hann fái tryggt starfsfé. Mér þykir rétt að benda í þessu sambandi á það, að fjmrh. hefir lofað að sjá sjóðnum árið 1938 og 1939 fyrir 70 þús. kr. láni á ári, eða samtals 140 þús. kr. bæði árin. 1lieðan ég var atvmrh., hafði ég lofað að greiða fyrir láni sem svaraði sömu upphæð á sama tíma, eða öðrum 140 þús. kr., sem starfsfé fyrir sjóðinn. Þá hefir verið ákveðið á árinu 1938 tillag úr ríkissjóði, 100 þús. kr., gegn jöfnu tillagi frá hlutaðeigandi bæjarsjóðum, að viðbættum 30 þús. kr. af hagnaði tóbakseinkasölunnar. Á árinu 1939 hefir verið ákveðin sama upphæð úr ríkissjóði, 100 þús. kr. gegn jöfnu tillagi frá hlutaðeigandi bæjarfélögum, að viðbættum þeim 80 þús. kr., sem ákveðnar hafa verið til þessa sjóðs af ágóða tóbakseinkasölu ríkisins. M. ö. o., bein framlög til sjóðsins bæði árin eru alls eftir þessu 510 þús. kr.

Þá hefir verið gert ráð fyrir lánum handa þessum sjóði á þessum tveimur árum, sem nema samtals 280 þús. kr. Starfsfé sjóðsins er þannig ætlað að geti orðið á þessu tímabili 790 þús. kr.

Ég tel, að með þessu fé eigi að vera hægt að ráðast í byggingar verkamannabústaða, sem óneitanlega er mjög aðkallandi, þó ekki geti það verið á þessu ári, þá haldið áfram á því næsta. Með þessari fjáröflun, sem hér hefir verið bent á, ætti það að vera hægt.