23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Einar Olgeirsson:

Ég þakka hv. þm. Seyðf. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf viðvíkjandi þessum loforðum frá fjmrh. um lán til þess að byggja fyrir verkamannabústaði, 70 þús. kr. í ár og 70 þús. kr. á næsta ári. En ég vildi fyrst og fremst lýsa þeirri skoðun minni, að þetta sé allt of litið fé til þess, að mögulegt sé að hefjast handa um byggingu verkamannabústaða á þessu ári. En var það ekki mun meira, eða um 150 þús. kr., sem ríkisstj. ætlaði að sjá til, að hægt væri að fá að láni handa sjóðnum til byggingar verkamannabústaða? Ég er hræddur um, að þrátt fyrir 70 þús. kr. lán verði varla hægt að hefjast handa um byggingu verkamannabústaða á þessu ári, eins og ætti að vera. Mér virðist alveg auðséð, að þetta verði gersamlega ónóg. — Hv. þm. Seyðf. sagði alveg réttilega, að þessi brtt. okkar mundi ekki bjarga þessu við í ár. En í fyrra bárum við fram brtt. við lögin, samskonar eins og þessa. Sú brtt. var felld. Ég man ekki, hvort þá kom fram sú röksemd, að hún mundi ekki hjálpa nægilega til þess að hægt væri að framkvæma byggingar verkamannabústaða árið, sem nú er að liða. En hefði brtt. okkar verið samþ. þá, hefði allt verið í lagi um lán í ár til þessara bygginga og hægt að hefjast handa um byggingar verkamannabústaða á þessu yfirstandandi ári. En nú er útlit fyrir, að ekki verði hægt að byggja neina verkamannabústaði í ár, vegna þess, hvernig hefir verið í pottinn búið um þetta allt saman. Ég sé því ekki betur en að það, sem nú beri að gera, sé að tryggja það sem bezt, að hægt verði að hefjast handa um þessar byggingar á næsta ári, og það helzt svo, að hægt verði að bæta upp það, sem tapazt með því að geta ekkert byggt upp af verkamannabústöðum á þessu ári.

Hv. þm. Seyðf. var að reikna út, hvað það yrði til samans, sem lagt yrði fram til verkamannabústaða á þessu og næsta ári. Og það má fá dálitla upphæð úr því með því að leggja saman það, sem kemur til þess frá tóbakseinkasölunni, það ennfremur, sem bæjum ber að leggja fram samkv. lögum um verkamannabústaði, og í síðasta lagi ef bætt er svo við þeim lánum, sem ríkisstj. hlutast til um, að fáist, og svo lagt saman það allt, sem fæst með þessu á tveimur árum, til þess að upphæðin verði myndarlegri. Það væri líka hægt að reikna, hverju byggingarsjóðirnir eru búnir að tapa með því, að bandormurinn (þessi lagabreyt., sem hér er um að ræða) skuli hafa verið samþ. ár eftir ár og byggingarsjóðirnir þannig sviptir þeim tekjum af tóbakseinkasölunni, sem þeim ber. Ég býst við, að það sé a. m. k. kringum 11/2 millj. kr., sem byggingarsjóðirnir eru beint búnir að missa á þessu. Það er ekki svo lítil fúlga. Fyrir slíka fjárhæð hefði mátt byggja verkamannabústaði, sem hefðu gerbreytt byggingarfyrirkomulaginu hér í Reykjavík og komið í veg fyrir tilfinnanlega dýrtíð, sem stafað hefir af hárri húsaleigu. Því að það er fyrst og fremst húsnæðisleysið, sem gerir Reykjavik svo dýran bæ, sem réttilega er kvartað yfir að hún sé.

Það er náttúrlega sagt alveg út í hött, að fjárl. verði með tekjuhalla, þó að þessi brtt. verði samþ. Það eru ótal póstar í fjárl., sem bent hefir verið á, að hægt væri að skera niður, svo að með því væri hægt að sjá fyrir fé til þessa nauðsynjamáls. Það er áreiðanlega hægt að spara 270 þús. kr. á öðru sviði en með því að fella niður að fara eftir l. um að láta þær ganga til verkamannabústaða, og spara þær um leið á miklu skynsamlegri hátt. Þess vegna hygg ég réttast að samþ. þessa brtt. og svipta ekki verkamannabústaðina þeim styrk, sem þeim ber eftir l. að hafa af tóbakseinkasölunni. Ég álít líka, að þetta eigi að framkvæma af því, að þetta eru einhver beztu l., sem verkalýðurinn hefir fengið samþ. Vil ég því mjög eindregið skora á hv. þm.samþ. þessa brtt., sem hér liggur fyrir.