27.04.1938
Neðri deild: 55. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

Þingseta varaþingmanna

*Sveinbjörn Högnason:

Eg vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort það er löglegt, að varamaður þm. taki þátt í atkvgr., þegar þm. er ekki forfallaður. Mér skilst, að eftir kosningalögunum eigi varamenn ekki að hafa sæti á þingi, nema löglegum forföllum þm. sé til að dreifa. Ég hygg, að það séu alveg sérstök réttindi, sem hv. þm. Reykv. og landsk. þm. hafa, ef þeir mega senda menn í staðinn fyrir þig á þingið, þegar þeim sýnist, ef þeir hafa öðrum störfum að gegna eða vilja ekki taka sæti á þingi einhverra hluta vegna.

Það er síður en svo, að ég komi hér fram með þetta af því, að ég hafi nokkuð út á þennan mann að setja, sem mér er á þingi í stað hv. 4. þm. Reykv. En mér virðist það skipta nokkru máli upp á framtíðina, að úr því sé skorið, hvort þetta megi svo til ganga. Og þessu var eins háttað með hv. 4. þm. Reykv. á síðasta þingi. Þá dvaldi hann hálfan mánuð í bænum eftir utanför sína án þess að taka sæti á þingi og án þess að um lögleg forföll væri að ræða. Ég hygg, að nú sé einnig liðinn hálfur mánuður síðan hv. þm. kom úr siglingu, og mér er ekki kunnugt um, að löglegum forföllum sé til að dreifa.

Ég vildi beina þessu til hæstv. forseta, til þess að fá úr því skorið, hvort þetta er samkv. gildandi l. um kosningar til Alþingis.