27.04.1938
Neðri deild: 55. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

Þingseta varaþingmanna

*Forseti (JörB):

Ég vil beina því til hv. þdm. að fara ekki að gera alisherjar eldhúsdag um það, hvernig þeir ræki þingstörf. Það er næsta óviðfelldið og snertir ekki heldur þetta sérstaka málefni, sem gert hefir verið að umtalsefni.

Viðvíkjandi 144. gr. kosningal., um varaþm. og réttindi þeirra og skyldur til þess að taka sæti á þingi í forföllum aðalmanns, er það að segja, að ákvæði gr. eru hvergi nærri augljós. Það er sagt í 1. mgr. gr., að varaþm. eigi að taka sæti aðalmanns annaðhvort þegar þm. fellur frá eða forfallast. Í 3. mgr. er talað um, að ef þm. Reykjavíkur eða landskjörinn þm. forfallast sökum veikinda eða annars, þá eigi hann rétt á að láta varamann taka sæti sitt, en tilkynna skuli hann forseta þeirrar deildar, er hann á sæti í, eða forseta Sþ., ef Alþ. hefir ekki skipt sér í deildir, í hverju forföllin séu fólgin og hve lengi þau muni vara.

Nú er þetta orðalag engan veginn svo ljóst, að af því verði séð með vissu, hvað vakað hefir fyrir löggjafanum með „önnur forföll“, en þar mun þó heyra undir óumflýjanlegur erindrekstur hjá þm., eins og þegar er viðtekið að því er snertir fjarveru hv. 4. þm. Reykv., þar sem það hefir verið skoðað löglegt, að hann hefir farið í siglingu í embættiserindum og varamaður hans hefir tekið sæti á þingi. Þar sem orðalagið er ekki ákveðið og skýlaust, treysti ég mér ekki til þess að dæma öðruvísi en að hv. varaþm. 4. þm. Reykv. hafi fullkomlega rétt til að greiða atkv. meðan hann situr á þingi.

Viðvíkjandi því atriði, sem hv. 1. þm. Rang. drap á, að það væri hæpið, hvort atkvgr. væri lögleg hér í d., ef þannig stæði á, að máli gæti skipt um atkv. þessa varaþm., þá vil ég segja, að það megi vel vera, að þannig geti staðið á um atkvgr., að það geti skipt máli um úrslit, hvernig þau falla, ef þetta atkv. væri dregið frá, en ég þykist vita, að þetta hefi ekki vakað fyrir hv. 1. þm. Rang., því að það er ekki hægt um það að segja fyrirfram, hvort atkvæði aðalmanas hefði fallið neitt öðruvísi en varamannsins.

En ef fara á svo strangt út í þetta atriði, þá vil ég benda á 33. gr. þingskapa, þar sem sú skylda er lögð á þm., að þeir eigi að mæta á öllum þingfundum og taka þátt í þingstörfum og mega ekki láta það undir höfuð leggjast nema lögleg forföll banni. Og ef þannig ætti að útkljá úrslit mála á Alþingi, með því að hægt væri síðar að sanna, að úrslitin hefðu getað orðið önnur, er einhver fjarverandi þm. hefði greitt atkv. svo og svo, er komið út fyrir öll takmörk þess framkvæmanlega. — En sakir þess, að ýms forföll geta verið réttmæt án þess, að þm. geti tilkynnt þau fyrirfram eða gert fulla grein fyrir, hefir Alþingi ekki séð sér fært að taka stranglega til orða um þetta. Eigi að síður álít ég, að þingmaður eigi að mæta á bingi og taka þátt í þingstörfum, svo framarlega sem sjúkdómar, fjarvistir í embættiserindum eða önnur jafnóhjákvæmileg atvik hindra ekki. Og þannig hlýtur Alþingi að líta á. Ég get fúslega játað á mig því vanrækslusynd, að ég hafi ekki rannsakað það síðustu daga, hvort hv. 4. þm. Reykv. (PHalld) er enn svo hindraður vegna lasleika, að hann geti alls ekki mætt, en ég hefi fulla ástæðu til að halda, að svo hafi verið til skamms tíma.

En þar sem hv. 4. þm. Reykv. mun annaðhvort mæta hér á morgun eða allra næstu daga ef ekki koma ný forföll fyrir, vil ég vona, að menn geti látið þetta atriði útrætt. Ég mun sem forseti taka gilt atkv. varaþm., hv. J. þm. Reykv. (JGM) við atkvgr., þar til aðalþm. hefir tekið sæti.

Til hins verð ég að svara persónulega, ef ég hefi ekki gert mína ýtrustu skyldu í því efni að kynna mér heilsufar aðalþingmanns.