23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jakob Möller:

Þetta atriði er miklu minna virði heldur en ætla mætti, eftir því sem orð hafa fallið bjá hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv. um það, hvort þessi ágóði af tóbakseinkasölunni skyldi renna til byggingarsjóðs eða ekki. Það er vitað, að hér í Reykjavík er að jafnaði byggt fyrir 4–6 millj. kr. á ári, svo að það er auðsætt, að sá hluti af þessum 300 þús. kr., sem talað er um í þessu sambandi og fellur í hlut Reykjavikur, veldur engri gerbreytingu á húsnæðisástandinu hér. Og þó að 11/2 millj. kr. væri skipt milli allra byggingarfélaga í landinu á 3 árum, þá mundi þess ekki gæta mikið, þegar tekið er tillit til þess, að í Reykjavík einni er að jafnaði byggt fyrir samtals 16–18 millj. kr. á 3 árum, og sá partur, sem hefði fallið í hlut Reykjavíkur af þessari 11/2 millj. kr., mundi á þessum 3 árum engri gerbreytingu valda á húsnæðisástandinu, þegar þess er gætt, að það er bersýnilegt, að byggingar muni verða takmarkaðar á þessu ári, og því miður sennilega einnig á næsta ári, fyrst og fremst af því, að ekki er hægt að sjá fyrir byggingarefni. Það er því auðsætt, að það verður byggt jafnmikið í bænum hvað sem líður þessum hluta af tekjum byggingarsjóðs.

Það, sem hér um ræðir, er þess vegna ekkert annað en það, hvort nokkrir tiltölulega örfáir einstakir menn eigi að verða þeirra hlunninda aðnjótandi að geta eignazt íbúðir fyrir minna verð en þær raunverulega kosta, því að þegar verið er að tala um húsaleiguokur í samanburði við leiguna á verkamannabústöðunum, þá er þess ekki gætt, að verkamannabústaðirnir njóta hlunninda í vaxtakjörum, sem gerir þá ódýrari en annars er kostur á. Það er gjöf úr ríkissjóði til þeirra manna, sem eignast þessa bústaði. Þess vegna er enginn samanburður mögulegur á leigunni í þeim bústöðum og öðrum íbúðum, sem ekki njóta slíkra hlunninda.

Annars gætti nokkurs misskilnings um það, hvernig það er tilkomið, að verkamannabústöðunum var gefið fyrirheit um þessar tekjur tóbakseinkasölunnar. Það var í sjálfu sér aldrei höfuðtilgangurinn með endurnýjun tóbakseinkasölunnar, að hún yrði lyftistöng fyrir íbúðabyggingar í kaupstöðum, heldur var þetta bara bragð til þess að fá átyllu til að einoka þessa vörutegund. Ef verðið hefði ekki verið hækkað á þessari vöru, hefðu engar tekjur orðið á einkasölunni. Það, sem skeð hefir, er það, að varan hefir hækkað í verði í meðferð einkasölunnar og almenningur þannig verið skattlagður í þessu skyni. Það má um það ræða, hvort ekki sé hægt að hækka verðið á tóbakinu og láta þá verðhækkun renna til byggingar verkamannabústaða, hvað sem verður um þennan ágóða af tóbakseinkasölunni. Sá ágóði, sem nú er af tóbaksverzluninni, er m. a. til orðinn fyrir það, að fyrir nokkrum árum var tóbaksverðið hækkað til þess að afla fjár til að greiða með tillag ríkissjóðs til sundhaliarinnar. Náttúrlega ætti þessi verðhækkun að falla niður, þegar þeim tilgangi er fullnægt. Þessi upphæð mun vera 100 þús. kr. á ári.

Hv. 5. þm. Reykv. spurði mig, hversu mikið ég héldi, að hægt yrði að byggja í ár. Það verður áreiðanlega lítið, og án tillits til þess, hvort þessi ágóði af tóbaksverzluninni verður látinn renna til byggingarsjóðs eða ekki, vegna þess að það, sem fyrst og fremst takmarkar byggingarnar, er hörgull á byggingarefni, en ekki tekjur byggingarsjóðs. Þess vegna hefir þetta spursmál miklu minni þýðingu fyrir byggingarþörfina og fullnægingu hennar heldur en hv. ræðumenn virðast halda, eins og ég minntist á áðan. Það hefir sem sagt engin áhrif. Það tekur því varla að eyða tíma í langar deilur um þetta atriði.