31.03.1938
Sameinað þing: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

Ráðherraskipti

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil fyrir hönd Alþfl. staðfesta ummæli hæstv. forsrh. um, að Alþfl. hafi heitið stjórn hans hlutleysi fyrst um sinn og muni greiða atkv. gegn vantrausti, et fram verður borið, meðan hlutleysið varir, nema afgreiðsla mála á Alþingi eða stjórnarframkvæmdir gefi tilefni til annars. Hlutleysi Alþfl. er þannig ótímabundið og fer eftir málefnum.

Hæstv. forsrh. hefir, eins og hv. Alþingi hefir heyrt, lýst því yfir, að stefna ríkisstj. verði áfram hin sama og meðan Alþfl. átti ráðherra í ríkisstjórn, þannig, að sérstök áherzla verði lögð á eflingu atvinnuveganna og framkvæmdir hins opinbera. Ennfremur hefir hæstv. forsrh. lýst yfir því, að Framsfl. mun gera sér far um að ná samkomulagi við Alþfl. um málefnagrundvöll, sem undirstöðu undir framhaldsstarf flokkanna, og þá með þátttöku Alþfl. í ríkisstjórn á sama hátt og verið hefir.

Alþfl. vill fyrir sitt leyti taka undir þetta og mun leggja áherzlu á, að í milliþinganefndum þeim, er skipaðar hafa verið eða skipaðar verða, þ. e. í bankamálum, tolla- og skattamálum og til að rannsaka og gera tillögur um rekstur togaraútgerðarinnar, verði leitazt við að finna þann grundvöll, sem báðir flokkarnir geti fallizt á.

En það er skilyrði fyrir því, að áframhaldandi samstarf geti haldizt með Alþfl. og Framsfl., að það lánist að ná samkomulagi um þessi og önnur meginmál.

Alþfl. telur, að síðustu kosningar hafi sýnt þann vilja meiri hluta kjósenda, að Sjálfstfl. yrði ekki fengin völd í landinu, og jafnframt, að það hafi verið sameiginleg ósk kjósenda Alþfl. og Framsfl., að þessir flokkar leituðu samkomulags um stjórnarsamvinnu. Engin ástæða er til að ætla, að nýjar kosningar myndu leiða í ljós, að þessu leyti, breytta afstöðu kjósenda til Sjálfstfl. Og þó að ágreiningur hafi risið á milli Alþfl. og Framsfl. í svo mikilsverðu máli, að Alþfl. taldi rétt að mótmæla aðgerðum samstarfsflokksins með því að draga ráðherra sinn úr úr ríkisstj., þá telur hann sig samt ekki, með tilliti til þess, sem við liggur, en það er meiri eða minni áhrif eða þátttaka af hálfu Sjálfstfl. í stjórn landsins, geta borið ábyrgð á því, að slíta nú þegar öllu samstarfi við Framsfl., meðan ekki er útséð um, hvort náðst getur samningsgrundvöllur viðunandi að dómi Alþfl. um þau höfuðviðfangsefni íslenzkra stjórnmála á næstu tímum, sem ég áður nefndi og nú liggja fyrir til rannsóknar.,