31.03.1938
Sameinað þing: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

Ráðherraskipti

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vildi gjarnan beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., þar sem engir málefnasamningar virðast vera milli Framsfl. og þess flokks, sem hv. þm. Seyðf. talar hér fyrir, hvort það sé ætlazt til, að slíkir samningar verði gerðir á þessu þingi eða ekki.

Mér virðist, að ef á að ljúka þessu þingi án þess að nokkrir málefnasamningar séu gerðir, þá sé mjög lítil trygging fyrir því, hvernig stj. fer með framkvæmdavaldið milli þinga.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Seyðf. sagði um það, að skipa ætti milliþn. til að vinna að undirbúningi ýmsra mála, þ. á. m. sjávarútvegsmálanna. þá vil ég segja það, að ég teldi æskilegra, að þetta yrði ekki milliþn., heldur yrði þessari rannsókn lokið nú á þinginu. Til þess er nægur tími.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh., hvort ekki megi vænta nánari yfirlýsinga frá honum, þegar stj. situr fullskipuð.

Loks vil ég minnast á það, sem hæstv. forsrh. gat um, að l. um stéttarfélög og vinnudeilur mundu verða samþ. á þessu þingi. Eins og kunnugt er, hafa komið fram mótmæli frá verkalýðsfélögum í þessu landi, sem telja innan vébanda sinna mikinn meiri hl. þeirra manna, sem skipulagðir eru í verklýðssamtökunum. Það verður ekki hægt að skoða það svo, að þetta mál sé tekið upp eftir ósk verkalýðsins, og því ekki hægt að nefna það í sambandi við þau önnur mál, sem forsrh. nefndi, sem hann kvað vera í stefnu stj. að framkvæma, þar sem þessi stétt er andvíg þeirri lausn á málinu, sem fram er borin.