31.03.1938
Sameinað þing: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

Ráðherraskipti

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vil mótmæla því, sem hv. þm. Seyðf. segir viðvíkjandi þeim ályktunum verkalýðsfélaganna um þessi mál, að því leyti að það er rétt hjá mér, að þau mótmæli, sem hafa komið, eru frá þeim félögum, sem hafa mikinn meiri hluta verkalýðsins í Alþýðusambandi Íslands á bak við sig. Hitt, sem hv. þm. sagði, að fleiri félög hefðu verið með löggjöfinni á þeim grundvelli, sem frv. mþn. er byggt á, en hin. það hefi ég ekki nákvæmlega samantalið. En ég veit, að það eru mjög fá félög, sem hafa mælt með frv., sem liggur fyrir að framkvæma. Þau félög, sem yfirleitt vilja samþ. frv. með breyt., hafa viljað hafa á þeim miklar breyt., svo enginn vafi er á, að ef ætti að leggja frv. eins og það liggur fyrir fyrir verkalýðinn í landinu, þá hefði það mjög fáa fylgjendur. Ég veit líka, að þm. er þetta vel kunnugt, enda þótt mikið sé gert að því úr vissum áttum að reyna að fá félögin til að samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Ég vil svo aðeins bæta því við, að ég tel, að það sé ekki heppilegt fyrir Alþfl. að verða að skilja svo við þetta þing, að ekki liggi fyrir bein yfirlýsing frá ríkisstj. um stefnu hennar og stjórnarframkvæmdir. Því sennilega verður eftir þetta þing ekki þing aftur fyrir en í febr. næsta ár. Þá getur ríkisstj., ef hún hefir algerlega óbundnar hendur, leikið lausum hala eftir því sem vindurinn blæs inn í þær herbúðir. Og eftir því sem háttað er nú á þingi, þá er varla hægt að búast við, að það verði sérstaklega heillavænlegt fyrir Alþfl.