23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jakob Möller:

Að ekki sé búið að sækja um byggingarleyfi fyrir meira en 2–3 húsum, eins og 3. þm. Reykv. hélt fram, er sú mesta fjarstæða, sem hugsazt getur. Byggingarleyfin, sem sótt hefir verið um, munu a. m. k. skipta tugum. En það breytir samt engu um það, að ástandið í þessum efnum er afskaplega alvarlegt, en það mun mjög lítið batna við þessar ráðstafanir. Til dæmis um það get ég sagt frá því, að í ráði er að byggja stóra viðbyggingu við hafnarhúsið. Byggingarleyfið fæst sjálfsagt, — ég veit ekki hvort búið er að sækja um það — en það er annað verra og það er það, að það hefir ekki fengizt innflutningsleyfi á efni til þess að byggja húsið. Þegar svona er ástatt, þá er bersýnilegt, að það eru litlar líkur til, að það hafi mikil áhrif á það, hvað mikið verður byggt í bænum, hvort þessi ágóði af tóbaksverzluninni er látinn renna til húsabygginga eða ekki. Það eru fleiri örðugleikar, sem hér koma til greina, og er ég sammála hv. 3. þm. Reykv. í því, að það horfir til vandræða með fyrirsjáanlegt aukið atvinnuleysi út af þessu.

Það nær engri átt að deila um það, hvort um nokkrar gjafir sé að ræða í sambandi við l. um verkamannabústaði, þar sem l. mæla svo fyrir, að ríkissjóður og bæjarsjóður skuli leggja fram tillag til verkamannabústaða á ári hverju. Nú er það 140 þús. kr. Hvað er það annað en gjöf? Og hvernig er sú gjöf hagnýtt? Þannig að lánskjör til þessara bygginga eru miklu betri heldur en til allra annara bygginga í landinu. Í staðinn fyrir að einstaklingar verða að borga upp í 8% vexti af lánum til þeirra bygginga, sem þeir framkvæma, þá þarf ekki að borga nema 4% af lánum til verkamannabústaðanna. Ég skil ekki, hvað það á að þýða að berja höfðinu við steininn og neita því, að hér er um gjöf að ræða. Það er einmitt það, sem Alþfl. getur miklast af, að flokksmenn hans komu því til leiðar, að fátækari stéttunum var ívilnað með þessum hætti. En það breytir engu um það. að þetta spursmál hefir mjög litla þýðingu í því að bæta byggingarmál bæjarins og landsins í heild, eins og nú er ástatt.