23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þó að 270 þús. kr. rynnu til viðbótar í byggingarsjóð, ef brtt. væri samþ., þá hefði það út af fyrir sig ekki mjög mikla þýðingu í sambandi við byggingar hér, þar sem venjulega væri byggt fyrir 4–6 millj. kr. Hv. þm. viðurkenndi, að í ár yrði byggt fyrir miklu minna, og að öllum líkindum enn minna næsta ár á eftir. Þar að auki ber þess að gæta, að þessar 270 þús. kr. mundu verða til þess, að mikið meira fé yrði notað í heild til þess að byggja verkamannabústaði. Þessir peningar hafa verið til, svo framarlega sem á þessu ári og árinn, sem leið, hefir komið reglulegt framlag frá tóbaksverzluninni, sem átti að koma lögum samkvæmt. Og því meira mundi muna um þetta viðbótarfé, sem það er vitað og viðurkennt, að horfur um auknar byggingar í sumar eru mjög slæmar.

En það er annað atriði í þessu máli, sem hefir líka þýðingu, og það er spursmálið um það, á hvern hátt byggt er og með tilliti til hverra hagsmuna sérstaklega. Það, sem er að mörgu leyti það dýrmætasta við verkamannabústaðina, er, að með þeim er mörgum mönnum tryggð ódýr húsaleiga, og það er vitað, að verkamannabústaðirnir hafa bæði með frágangi á íbúðum og með ódýrari húsaleigu stuðlað að því, að húsaleigan almennt lækkaði. Þess vegna skil ég vel, að hv. 2. þm. Reykv. hugsi sem svo, að það sé nóg, ef hægt er að fá flutt inn byggingarefni og einhverjir fái að byggja, þó að það séu annaðhvort einhverjir ríkir menn, sem byggja villur, þar sem 4–5 fjölskyldur gætu búið, eða húsabraskarar, sem byggja til þess að leigja íbúðir sem dýrast og halda húsaleigunni þannig uppi. Það er hv. 2. þm. Reykv. sama.

Það, sem við leggjum aftur á móti áherzlu á, er, að á þessum tímum, þegar svo litið er byggt og húsnæðiseklan fer vaxandi ár frá ári, þá sé byggt með tilliti til þess, að húsaleigan geti orðið ódýrari fyrir þá, sem í byggingunum búa, og jafnvel fyrir hitt fólkið líka. Þarna greinir okkur hv. 2. þm. Reykv. á um stefnu. Hann vill láta húsabraskarana byggja og lítur því hornauga til þessara brtt., en við viljum láta byggja verkamannabústaði, til þess að hægt sé að lækka húsaleiguna.