23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Jakob Möller:

Það er vitanlega fullkomlega gegn betri vitund, sem hv. 5. þm. Reykv. slær því hér fram, að ég líti heldur óvinsamlegu hornauga til verkamannabústaðanna; það er mjög fjarri öllum sanni. Sannleikurinn er sá, að verkamannabústaðirnir hafa engin áhrif haft á húsaleiguna í Reykjavík, því að þeir eru fyrir utan alla samkeppni um húsaleigu. Einnig er þess að gæta, að leigan á íbúðum í verkamannabústöðunum er tiltölulega ekkert lægri heldur en almennt gerist í bænum, þegar tekið er tillit til þess, að þau hús eru byggð með betri kjörum en önnur hús, því að þegar einstaklingar borga 8% af lánum til sinna bygginga, borga eigendur verkamannabústaðanna ekki nema 4%. Það gerir ekki lítinn mun á húsaleigunni.

Ég vil ekkert fremur en að hægt væri að byggja sem mest af verkamannabústöðum, blátt áfram vegna almennra hagsmuna bæjarins í heild, sem okkur kemur mjög vel saman um, að sé mjög illa kominn í þessu efni, og mörgum fleiri, eins og nú standa sakir. En það, sem hér er til farartálma, er ekki þetta framlag, sem er til umræðu. Bygging verkamannabústaða er fyrst og fremst komin undir því, hvort hægt er að skapa leið til þess að fá lán til húsabygginga í stórum stíl, en það er það, sem bregzt nú. Ef hægt væri að fá þau, þá væri hægt að byggja þessi hús. En þetta smáræði, sem hér um ræðir, hefir tiltölulega sáralitla þýðingu í þessu efni.