22.02.1938
Neðri deild: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

11. mál, Raufarhafnarlæknishérað

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta frv. um Raufarhafnarlæknishérað lá fyrir síðasta Alþ., og raunar næsta þingi þar á undan. Nú liggur það hér fyrir á þskj. 11.

Ég get látið nægja að vísa til þeirra skýringa, sem ég lét fylgja þessu máli í framsöguræðu á síðasta Alþ., og sömuleiðis þeirrar grg., sem nú fylgir frv., þar sem m.a. er prentað fylgiskjal, sem hefir inni að halda erindi frá mönnum norður þar um, að hæstv. Alþ. verði við þessari málaleitun.

Hæstv. Alþingi hefir þegar að nokkru leyti viðarkennt þá nauðsyn, sem hér er fyrir hendi, með því að veita í fjárl. þessa árs 1000 kr. í því skyni, að læknir geti haft aðsetur á Raufarhöfn yfir síldartímann. Þó að með þessu sé nokkur bót á ráðin, þá tel ég þetta ekki fullnægjandi, og þess vegna hefi ég leyft mér að flytja þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil svo mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.