02.05.1938
Neðri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Sigurður Kristjánsson:

Þetta mál er orðið nokkuð gamalt hér í þinginu, því það var flutt hér á næsta þingi á undan og svo aftur nú, og mun það vera fyrsta þmfrv., sem fram kom á þessu þingi.

Eins og kunnugt er, þá hefir það gengið illa að fá fjhn. til að skila málinu, og það hefir orðið að viðhafa óvenjulega hörku til þess. Það bendir líka margt til þess, að n. hafi ætlað sér, eða a. m. k. meiri hl. hennar, að um málið færi eins og á síðasta þingi, að það væri n., sem réði niðurlögum þess, en ekki þingið sjálft. Nú er þó málið komið fram, og vil ég leyfa mér að segja um það nokkur orð, og bygg ég, að það sé engu síður þörf á því vegna meiri hl. n. en vegna annara hv. þm., því í þá n. hefir valizt þannig, að það er nokkuð einhliða þekking þeirra manna á viðfangsefnunum í þjóðfélaginu, en það er mjög óheppilegt, að þm. hafi ekki svolítið innsæi í þjóðlífið á öllum sviðum, og sérstaklega þeir, sem eru svo gerðir, að þeir eru nokkuð þverúðarfullir, sem hv. þm. eru náttúrlega eins og aðrir menn upp og ofan haldnir af.

Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, þá er meira af starfsmönnum í þessu landi en sjómenn, sem taka laun sín að einhverju leyti sem hlunnindi, og þá sem fæði. En þó er það kunnugt, að það er hvergi eins algengt eins og um sjómenn, því að sjómenn, á öllum skipum öðrum en þeim, sem koma daglega að landi, eru yfirleitt allir þannig settir, að þeir taka kaup sitt að nokkru leyti sem hlunnindi, og algengustu hlunnindin eru þá fæði. (Forseti: Það er allt of mikill ys í deildinni). Ég þakka hæstv. forseta fyrir að þagga niður í þessum mönnum hér.

Eins og ég sagði í upphafi, þá er í rauninni þörf á því, að hv. þm. öðlist einhverja þekkingu á þessu máli, áður en þeir greiða atkv. um það.

Nú er það svo, að þessir menn, sem hér er farið fram á, að ekki þurfi að reikna þessi hlunnindi sem beinar tekjur til skattgreiðslu, eru allt öðruvísi settir heldur en allir aðrir menn, sem taka laun sín að nokkru leyti sem hlunnindi, Þeir eru að því leyti öðruvísi settir, að þeir eru í raun og veru útlagar úr þjóðfélaginu. Ég veit, að þessir menn, sem varla hafa nokkurn tíma komið í annað hús en sitt eigið heimili, geta ekki sett sig inn í þetta, nema þeir hafi skynsemi og víðsýni til að setja sig inn í annað en það andlega holulíf, sem þeir kunna að hafa lifað. Það má segja, að þessir menn, sem fara á sjóinn, taki á sig þetta útlegðarlif sjálfviljuglega. En þó er það því aðeins, að þjóðfélagið skapi mönnum svo ríkuleg skilyrði til þess að bjarga lifi sínu, að þeir eigi þar um að velja. En svo er ekki í okkar þjóðfélagi; menn verða að leita sér þar atvinnu, sem þeir geta, hvort sem á sjó eða landi. Það eru því hin þröngu skilyrði þjóðfélagsins, sem dæma þessa menn í þessa útlegð. En það er engum blöðum um það að fletta, að þetta sé útlegð. Það vita allir þeir menn, sem nokkuð hafa reynt að kynna sér þetta. Ég veit um marga farmenn, sem hafa sýnt mér myndir af ættingjum sínum og heimilisfólki, sem þeir hafa aldrei séð, börnum, sem þeir hafa aldrei séð, konum sínum, sem þeir hafa ekki séð frá því að þeir giftust þeim fyrir nokkrum árum. Ég vildi sjá framan í þá þm., sem ekki fengju að sjá framan í konur sínar 3–4 ár, og sjá, hversu glatt væri yfir þeim. Það eru margir, sem geta ekki áttað sig á þessu, af því að þeir hafa engin kynni haft af því.

Ég ætla ekki að fara út í þær óskir, að þessir menn, sem afla tekna sinna á sjónum, bæði við fiskveiðar og aðra farmennsku. hætta oft lífi sínu eftir þessu kaupi sínu. Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði mjög mikils metið. Mér er kunnugt um, að þeir menn, sem alizt hafa upp við slíkt harðræði og hættur, eru yfirleitt kaldir fyrir slíku, en þeim eru viðkomandi menn, sem hafa allmiklar þjáningar af þessu. Ég veit, að konur yðar, hv. þm., sem sitja heima, vita, að þið verðið ekki teknir af lífi, þó þið komið hingað og hættið ykkur inn í þennan ófriðarsal. Hitt vita aftur á móti ekki konur eða skyldmenni sjómanna, hvort þeir fá lífs grið og lima. Þó sjómennirnir séu kannske sjálfir kaldir fyrir því og hvergi hræddir, þá er það annað fólk, fólk, sem þessi tekjurýrnun snertir, sem hefir af þessu áhættu og þjáningar. Það er mjög auðvelt að sitja hér í hægindum sínum og vera smámenni í fjármálum og tala um, að ekki eigi að vera að gefa mönnum peninga. Það er gott að geta blásið sig út og sagzt vera óhlutdrægur, — en er ekki réttara að segjast vera ófróður, þekkingarlítill? Hér er í rauninni ekki um annað að ræða. Það er bara um fávizku að ræða, þegar talað er um, að þessir menn búi við jafnrétti við aðra menn, sem afla tekna með handavinnu sinni.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að því er mig minnir, að þessir menn væru yfirleitt við heldur betri teknakjör en aðrir menn í þjóðfélaginu. Það má vel vera, að svo hafi það verið, og það er náttúrlega alveg rétt, að á tímabili var það svo, og þess er varla að vænta, að hann sé búinn að átta sig á þeirri stórkostlegu breytingu, sem orðið hefir á tekjum almennra sjómanna. En sú breyting hefir orðið geysimikil vegna lakari skilyrða útgerðarinnar til fiskveiða, svo dregizt hefir alltaf saman tíminn, sem skipin ganga til veiða, og þar með hefir náttúrlega rýrnað kaup þessara manna. Farmenn þeir, sem eru fastráðnir á kaupskip, eru auðvitað dálítið öðrum skilyrðum háðir. Það skal ég játa. En það er svo, að langtum meiri fjöldi sjómanna vinnur á fiskiskipum hér við land heldur en á kaupförum, og þess vegna ber að taka miklu meira tillit til þeirra. En ég fullyrði, að tekjur sjómanna á fiskiskipum séu orðnar það rýrar nú, að það munu aðeins fáir af þeim mönnum, sem ekki eru skipstjórar, vita, hvernig þeir eiga að draga fram lif sitt og sinna, ef þeir eru fjölskyldumenn.

Menn halda ef til vill, að ríkissjóð muni mikið um þessar tekjur. Ég fullyrði, að svo sé ekki. Þá kynnu andstæðingar mínir í þessu máli að halda því fram, að það geti ekki skeð. að mennina dragi þetta mikið, ef ríkissjóð dregur það ekki mikið samanlagt. En þessu er ekki svo varið. Þeir, sem lifa við mikinn skort og eiga erfitt með að deila aurum sínum niður á lífsnauðsynjarnar, láta sig draga það, sem lítið er. Þeir láta sig muna um 10 kr. Ég er sannfærður um, að mörg sjómannsmóðir eða sjómannskona veltir með mikilli virðingu 10 kr. í hendi sér. En ég hygg. að þeir, sem eiga að hirða millj. í ríkissjóðinn, líti á þetta smáum augum. Það er sem sé stórt í eins manns hendi, sem er smátt í annars manns hendi. Það er stórt í þess manns hendi, sem á að njóta hlunnindanna, sem er ákaflega smávægilegt í augum þeirra manna, sem vilja dæma þetta fólk frá þessum hlunnindum.

Ég vil nú minna á, að þegar þetta er borið saman við starfsstéttir, sem taka hlunnindi t. d. sem vinnumenn eða kaupamenn í landinu. þá er það svo, að þeirra útlegðarlif er venjulega skammt, og vinnufólk er t. d. ekki frá heimilum sínum til þess að afla þessara tekna. En þar kemur líka annað til greina, því það eru margháttuð önnur hlunnindi, sem fólk í sveit hefir, sem það þarf alls ekki að reikna til þeirra tekna, sem það hefir. Ég þekki þetta frá því, að ég var vinnumaður í sveit, að svo að segja allt, sem ég eignaðist á mörgum árum, voru hlunnindi, sem ég mundi samkv. núgildandi skattalögum svo sem að engu leyti þurfa að taka tillit til við skattaframtal. Það voru ýms hlunnindi, sem fólust í því að eiga skepnur og koma þeim fram á ódýran hátt, því það þurfti ekki að reikna annað til tekna en afurðirnar af þessum skepnum. En maður gat reiknað til frádráttar marga hluti. Hér er því ekki líku saman að jafna.

Það eina, sem mér finnst vera á rökum byggt hjá meiri hl. fjhn., er, að þessara hlunninda myndu njóta nokkrir menn, sem vegna tekna sinna þyrftu þeirra ekki með. Ég vil nú, þó ég sé flm. málsins og hafi að mínu áliti verið beittur mikilli hörku vegna þrjózku fjhn. um að koma með málið inn í d. aftur, á engan hátt sýna kappgirni í málinu, heldur met ég það meira virði, að málið fái skynsamlega og réttláta endalykt heldur en að geta deilt kappi við einstaka menn. Ég vil þess vegna bjóða þær sættir í þessu máli þeim mönnum, sem ekki geta annars gengið inn á að láta málið fara til 3. umr., að ég skal ganga inn á þá breyt. á frv., að undanskilja þá menn frá því að njóta þessara hlunninda, sem hafa tekjur yfir víst mark, sem okkur gæti komið saman um. Ég viðurkenni það, að yfirmenn ýmissa skipa eru ekki lakar settir með kaup heldur en margir aðrir, svo það er ekkert á móti því að undanskilja þá, þó þeir hinsvegar búi við þau óþægindi að vera hálfgerðir útlagar frá heimilum sínum. Ef meiri hl. fjhn. 0g þeir, sem kynnu að vilja fylgja honum, vildu ganga inn á það, að láta þetta litla mál ganga til 3. umr., og sjá þá, hvort ekki tækjust sættir í málinu, þá væri ég þeim þakklátur. En vilji þeir það ekki, þá skilst mér, að þeim sé þetta meira kappsmál en svo, að þeir vilji lita á það með sanngirni.