07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

7. mál, vitabyggingar

*Bergur Jónsson:

Við þrír nm. í sjútvn., hv. þm. Ísaf., hv. þm. N.- Þ. og ég, höfum borið fram brtt. við frv. þess efnis, að felld skuli niður 2. gr., en sú brtt. skiptir mestu máli, þeirra sem fram hafa verið bornar. Hv. flm. og frsm. vill fella úr 8. gr. l. þann varnagla, sem þar er settur, þar sem ákveðið er, að það skuli fara eftir ástæðum ríkissjóðs, hversu miklu skuli varið til vitamála af því fé, sem hér um ræðir. Við flm. brtt. teljum ekki mögulegt að binda þetta föstum skorðum á þeim erfiðleikatímum, sem nú eru. Það er rétt, að nú um nokkurra ára skeið hefir ekki nema nokkrum hluta vitagjaldsins verið varið til vitamála, en eins og fjárhagsástandið er, teljum við ekki fært að fara að breyta þessu einmitt nú. Auk þess er ekki óeðlilegt, að þau hundruð veiðiskipa, sem stunda veiðar hér við land og notfæra sér vitakerfið og fiskimiðin, leggi líka nokkuð til ríkisþarfa, til að halda uppi vitabyggingum o. s. frv. Ég mælist því til þess, að hv. d. samþ. þessa brtt. okkar.

Þessi afstaða okkar markast ekki af því, að við sjáum ekki nauðsyn á því, að byggðir séu sem flestir vitar, heldur af þeim fjárhagsörðugleikum, sem ég gat um. Hinsvegar játa ég, að ef fjárhagsástæður væru betri, þá væri sjálfsagt að fella burt þennan varnagla.